15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (31)

1. mál, fjárlög 1938

Einar Olgeirsson:

Hv. forseti! Heiðruðu áheyrendur! Fyrsta spurningin, sem öll alþýða landsins ber fram við þessi fjárlög, er: Hverjum eru þessi fjárlög fyrst og fremst til gagns? Hvaðan taka þau tekjurnar — frá þeim ríku eða þeim fátæku frá eignastéttinni eða frá alþýðunni? Og hvernig verja þau tekjunum — í dýrt ríkisbákn og hálaunaða starfsmenn eða til aukinnar velmegunar og bættrar afkomu fyrir alþýðuna? Við kommúnistar dæmum þessi fjárlög fyrst og fremst eftir því — mótum okkar afstöðu til þeirra fyrst og fremst með tilliti til þess, hvaða svar þau gefa við þessari spurningu. Og nú skulum við rannsaka það.

Fulltrúi íhaldsins, hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, vildi telja núv. fjárlög einskonar þjóðnýtingarfjárlög. „Það er enginn búmaður, sem ekki kann að berja sér,“ — má segja um þennan málsvara auðmannastéttarinnar í Rvík. En ég skal nú eftir megni þvo hv. fjmrh. hreinan af því, að hann sé að leggja fram einhver þjóðnýtingarfjárlög, og lofa íhaldinu að heyra, hvernig virkileg fjárlög alþýðunnar gegn auðmönnunum mundu líta út.

Hér á landi töldu árið 1935 aðeins 7000 manns fram til eignarskatts, er áttu hver yfir 5 þúsund krónur í skuldlausum eignum. Allir aðrir Íslendingar áttu minna en þetta, eða ekki neitt, eða skulduðu. Samanlagðar skuldlausar eignir þessara 7000 voru 127 milljónir króna. Af þessum 7000 munu um 1400 manns eiga 100 milljónir króna í skuldlausum eignum. Það er eignastétt landsins, mennirnir, sem á ýmsan hátt hafa sölsað undir sig ljónspartinn af föðurlandi okkar, sem við héldum að allir Íslendingar ættu sama tilkali til.

Það eru líka um 1000 manns, sem árlega taka meginhlutann af tekjunum, sem hin vinnandi íslenzka þjóð skattar. 1000 manns hér í Reykjavík hafa samtals 11 millj. króna í árstekjur, meðan heildartekjur Reykvíkinga eru 44 millj. króna. Þessir 1000 taka til sín fjórða partinn af öllum tekjunum. Meðal þeirra eru menn, sem fá laun sín meira eða minna ákveðin af því opinbera, eins og bankastjórar Landsbankans og forsjórar Sölusambands íslenzkra fiskframleiðenda, og hafa þessir herrar frá 21 til 27 þús. króna árslaun. Meðal þessara hátekjumanna eru þó aðallega heildsalar og stórkaupmenn, sem jafnvel hafa upp undir 100 þús. kr. árstekjur eftir eigin uppgjöf. Og meðan þessir herrar hafa slíkar hátekjur, skortir verkamenn landsins margt af því nauðsynlegasta til lífsins og eru dæmdir til að ráfa atvinnulausir um, af því að það vanti peninga til verklegra framkvæmda og atvinnubóta. Og bændur landsins eru að komast á vonarvöl svo að hundruðum skiptir. Það hlýtur því að vera helgasta skylda Alþingis að gera allt, sem í þess valdi stendur, til þess að draga úr fátækt alþýðunnar, auka atvinnu hennar og bæta afkomu hennar í hvívetna. Til þess þarf Alþingi mikið fé í viðbót við það sem það hefir nú yfir að ráða. Og þá kemur spurningin: Hvar á að taka það?

Við skulum nú athuga, hvað mikið hátekjumennirnir og stóreignamennirnir borga í ríkissjóð, á meðan verkalýðinn skortir atvinnu og brauð og ríkissjóðinn fé til að bæta úr brýnustu þörf alþýðunnar. Þeir eiga einn þriðja af eignum landsins, fá líklega einn fjórða af tekjum landsbúa, — en hvað borga þeir? Ríkistekjurnar eru áætlaðar tæpar 16 millj. króna. Af þessum tekjum á að taka með tekju- og eignarskatti, hátekjuskatti og fasteignaskatti alls rúmar 2 milljónir kr. Það er allt og sumt, sem þeir ríku sérstaklega eiga að borga, og í rauninni lendir samt nokkuð af þessu á þeim efnaminni. En 14 milljónir króna á að taka með gjöldum, sem beint eða óbeint lenda á alþýðu, og 4 milljónir af því eru beinlínis tollar á nauðsynjavörunum. Á ég þar með við kaffi- og sykurtollinn, vörutollinn, verðtollinn og gjöld af innfluttum vörum.

Við þurfum því ekki lengi að leita til að sjá, að meginregla þessara fjárlaga hvað tekjuöflun snertir er nefskattsaðferðin: að taka með tollum af alþýðu manna, en hlífa þeim ríku. Og afleiðingin af þessari aðferð er svo sú, að verklegar framkvæmdir eru sparaðar og framlag til atvinnubóta skorið við nögl.

Er þetta vilji fólksins? Var það til þessa, að 25 þús. Íslendinga kusu núv. stjórnarflokka á þing? Var það til þessa, að alþýðan í landinu fylkti sér saman um Framsókn og Alþfl. 20. júní í vor — og vísaði á bug öllu lýðskrumi hinna ríku og stóðst allan fagurgala þeirra og blekkingar? Var það til þess að hlífa þeim ríku, en skattleggja þá fátæku, að vinstri flokkarnir voru sendir sterkari inn í þingið — en nokkru sinni fyrr?

Nei, — og aftur nei! Stefnuskrár og stefnulýsingar bæði Framsóknar og Alþfl. heimta öðruvísi fjárlög og lofa öðruvísi fjárlögum. Bændurnir, verkamennirnir, fiskimennirnir, 30000 alþýðukjósenda, sem á bak við vinstri flokkana standa, — mennirnir og konurnar, sem þræla baki brotnu til að framleiða þjóðarauð Íslands, — þau heimta öðruvísi fjárlög — fjárlög alþýðunnar, fjárlög, sem láta þá ríku borga.

Hin vinnandi íslenzka þjóð sér arðinn af striti sínu renna til nokkurra auðmanna, — eins og t. d. heildsalaklíkunnar í Reykjavík, sem græðir um 4 millj. króna á ári. Vinnandi stéttirnar, sem halda uppi þjóðfélaginu og skapa verðmætin, lifa við sult og seyru og eignast ekki neitt, — meðan yfirstéttin sölsar undir sig milljónir króna í skuldlausum eignum og ljónspartinn af þjóðartekjunum.

Þess vegna heimta vinnandi stéttirnar fjárlög, sem reyni að jafna misskiptingu auðsins og draga úr ranglætinu í þjóðfélaginu, — fjárlög, sem taki fyrst og fremst af þeim, sem allt eiga, en veita þeim, sem vinna en ekkert eiga.

Svo sterkar voru þessar kröfur vinnandi stéttanna í vor við kosningarnar, að ekki aðeins kjósendur vinstri flokkanna voru eindregnir með þeim, heldur og þúsundir af kjósendum Sjálfstfl. Morgunblaðið varð að bergmála þessar kröfur og reyndi um leið að nota þær í lýðskrumstilgangi. Af því stafaði hin fræga setning í þessu burgeisablaði höfuðborgarinnar 30. maí í vor: „Hlífið ekki burgeisunum“! Þó að ég viti, að hv. fjmrh. vilji lítt hlíta tillögum þessa blaðs — og tel ég það vel farið —, þá held ég, að það væri samt ekki úr vegi að láta óskir þessa málgagns íhaldsins rætast hvað þetta snertir í fjárlögunum — og gera þau þannig úr garði, að þau hlífi ekki burgeisunum.

En nú mun margur spyrja: Er hægt að útbúa slík fjárlög, er láti þá ríku borga og hjálpa alþýðunni? Með hvaða móti er hægt að taka peningana hjá þeim ríku og veita þeim til hinna vinnandi stétta, ýmist með því að auka verklegar framkvæmdir, er þeim komi til góða, auka framlög til atvinnubóta og allskonar þjóðfélagstrygginga, eða með því að lækka tollana, er á þeim hvíla?

Ég skal nú taka fyrir tekjuöflunaraðferðir, sem myndu tryggja það, að eignastéttin og hátekjumennirnir yrðu látnir borga, bæði af stóreignum sínum, hátekjum og óhófi.

1) Fasteignaskatturinn er nú áætlaður 400000 kr. Þessi skattur er 3 kr. af hverjum 1000 krónum, sem fasteign er metin á, ef lóð og lendur er um að ræða, en 1½ króna af hverjum 1000 kr., ef um húseign er að ræða. — Þetta þýðir, að t. d. einn af auðugustu mönnum Reykjavíkur, sem stórgræðir bæði á bæjarbúum og bæjarfélaginu og á eina verðmætustu lóð bæjarins og eitt voldugasta stórhýsi landsins, borgar í fasteignaskatt af þessari lóð og stórhýsinu, sem metin eru að fasteignamati á yfir 400000 kr., einar einustu 700 krónur! og hlutfallslega jafnmikið verður bláfátækur verkamaður að greiða, sem baslast við að halda húskofanum sínum í Skólavörðuholtinu frá nauðungaruppboði. — Það er því auðséð, að þeir ríku þola það vel, að fasteignaskatturinn sé hækkaður á þeim. Við kommúnistar munum því bera fram á þinginu frumvarp til laga um breytingar á fasteignaskattinum, þannig að hann verði hækkaður á dýru lóðunum og fari stighækkandi í hlutfalli við verðmæti hvers fermetra í lóðinni. Þeir, sem eiga lóðir, þar sem fermetrinn kostar 100 kr., geta greitt meira og eiga að greiða hlutfallslega meira en þeir, sem eiga lóð á 7 til 8 kr. fermetrann. Sama gildir um húsin. Þeir, sem eiga stórhýsi, sem eingöngu eru leigð til verzlunar og skrifstofuhalds, venjulega fyrir okurverð, eiga að greiða hærri húsaskatt en eigendur íbúðarhúsa. — Og þá er ekki sízt að skattleggja verðhækkun lóðanna, taka þá verðhækkun til ríkisins, sem einstakir menn nú stinga í sinn vasa, þegar lóðir og lendur hækka í verði fyrir aðgerðir hins opinbera eða þróun þjóðfélagsins.

Við kommúnistar áætlum, að með því að hækka fasteignaskattinn eftir þessum reglum og leggja á verðhækkunarskatt, megi koma tekjum til ríkissjóðs af honum upp í eina milljón, en nú eru þær aðeins 400000. Og þessi skattur myndi ekki þýða nein íþyngsli fyrir alþýðu manna né framleiðslugreinar landsins, heldur lenda á eignamönnum, ekki sízt okrurum, og á verzlunarauðvaldinu. Þess ber að minnast í því sambandi, að 108 millj. kr. eru nú fastar í verzluninni, meðan aðeins 22 millj. kr. eru í öllum sjávarútveginum. Það sýnir, hvernig auðmagnið hefir leitað í verzlunina, af því þar fékk það okurrentur og ofsagróða. Það gerði því ekkert til, þó þessi skattur yrði til þess að reka það að einhverju leyti úr verzluninni og í heilbrigða framleiðslu. Hinsvegar geta menn vel gert sér í hugarlund, hvað tiltölulega lágur þessi skattur væri, þrátt fyrir þessa hækkun okkar, þegar íhugað er, að með þessu móti yrði samt aðeins greidd í fasteignaskatt 1 milljón af þjóðarauð, sem nemur 391 millj. kr.

2) Tekju- og eignarskattur. Hann á nú að meðtöldum hátekjuskatti að gefa í ríkissjóð 1750000 kr. Til samanburðar skal þess getið, að á sama tíma nær Reykjavík inn með útsvörum um 4 millj. kr.

Við kommúnistar álítum, að hækka megi þennan skatt svo ríflega á hátekjumönnum, og þó sérstaklega á stóreignamönnum, að hann gefi tvöfaldar tekjur í ríkissjóð við það sem nú er. Og við munum bera fram frumvarp til laga um breytingar á lögum um tekju- og eignarskatt í þessu skyni. Til dæmis um, hvað skatturinn á stóreignamönnum er lágur, skal ég geta þess, að maður, sem á 100000 kr. í skuldlausri eign, greiðir í eignarskatt aðeins 390 kr. Og maður, sem á ½ milljón kr. í skuldlausum eignum, greiðir aðeins 3440 krónur í eignarskatt. Ég hefi áður sýnt fram á, að 1400 stóreignamenn í landinu eiga um 100 millj kr. í skuldlausum eignum. Alþýðan, sem skapað hefir verðmæti þessara eigna yfirstéttarinnar, álítur, að það sé sannarlega ekki of mikið, þó þessir stóreignamenn greiddu í eignarskatt upp undir eina krónu af hundraði, eða samtals um 1 millj. kr., en nú munu þeir vart greiða 3 af þúsundi, því allur eignarskatturinn er árið 1935 aðeins 324 þúsund kr.

Ef eignarskatturinn þannig gæfi í ríkissjóð 1 milljón, álitum við, að tekjuskatturinn mætti hækka, þannig að hann gæfi 2½ millj. kr. 1935 gaf hann 1½ millj. Alls væri þá tekjueignar- og hátekjuskatturinn 3½ millj., í stað 1¾ millj. nú.

Ég býst nú við, að ýmsir íhaldsmanna hrópi um, hvað verði um tekjustofna bæjarfélaganna, þegar svona gífurlega verði hækkaður tekju- og eignarskatturinn. Ég vil benda þeim herrum á, að það verður líka dálítið annað viðhorf með fátækraframfærið og atvinnuleysishjálpina, ef ríkið fær 3 millj. kr. í tekjur í viðbót við það, sem nú er, til þess að auka þannig atvinnuna stórkostlega og skapa á allan hátt betri aðbúð fyrir fólkið, en það er hugmynd okkar kommúnista, að ríkið fái með þessum ráðstöfunum. Og ég vil sérstaklega minna fulltrúa Reykjavíkuríhaldsins, sem mest munu hrópa í þessum efnum, á það, að þeir samþykktu í vetur í bæjarstj. ályktun þess efnis, að þar sem ríkisstj. hefði tekið að sér að útrýma atvinnuleysinu, vildi bæjarstj. ekki taka fram fyrir hendur hennar og samþykkti því að sinna ekki kröfum verklýðsflokkanna um meiri atvinnu. Ég vona því, að þessir herrar lái okkur ekki, þó að við, fulltrúar verkalýðsins, berum hér fram till., sem þeir vísuðu okkur burtu með, og tökum peninga til að framkvæma atvinnuaukninguna, sem þeir ekki vildu framkvæma þar, sem þeir eru, — hjá þeim ríku, — hjá Reykjavíkurburgeisunum. Við förum þar eftir ráðleggingum Morgunblaðsins frá því fyrir kosningarnar — um að hlífa ekki burgeisunum.

Ef einhverjum skyldi þykja það furðu háar tölur að nefna 2½ millj. kr. í tekju- og hátekjuskatt, þá vil ég nefna tvö dæmi um gróða íslenzku auðmannastéttarinnar í ár:

1) Atvinnurekendastéttin í síldarframleiðslunni mun ekki hafa grætt minna en 4 til 5 millj. kr. í ár, og þar af mun eitt útgerðarfélag hafa grætt um 1 milljón kr.

2) Heildsalastéttin græðir að meðaltali á ári um 4 milljónir kr.

Þarf því ekki að efast um, að af einhverju er að taka.

Og jafnframt vil ég leggja áherzlu á, að það er einmitt nauðsynlegt nú að grípa til róttækra ráðstafana til að tryggja atvinnuaukningu í landinu, þar sem ætla má, að ný kreppa fari nú í hönd.

3) Þá viljum við ennfremur leggja til, að lagður sé á sérstakur stóribúðarskattur, skattur á óhóflega stórar og flottar íbúðir þeirra ríku, svo hægt sé að byggja sómasamlegar og ódýrar íbúðir fyrir þá fátæku. Við vonum, að stjórnarflokkarnir sjái sér fært að samþykkja það frumvarp, sem við berum fram um slíkan skatt. Við munum reyna að sníða það sem mest eftir samskonar frumvörpum, sem bæði hv. formaður Framsfl., þm. S.-Þ., Jónas Jónsson, og hæstv. atvmrh., þm. Seyðf., Haraldur Guðmundsson, ásamt fleirum báru fram á þingi 1933 um stóríbúðaskatt og háleiguskatt, til þess að gera Framsóknarflokknum og Alþýðuflokknum auðveldara að ganga að frumvarpi okkar. En þá var líka barizt til hægri, en ekki brosað til hægri. Við áætlum, að af 1000 stóríbúðum verði greiddur að meðaltali 500 kr. skattur á ári, og gefi þá skattur þessi í ríkissjóð um ½ millj. kr.

4) Við munum ennfremur leggja til, að lagður verði sérstakur skattur á lúksusbifreiðarnar í landinu. Ég býst við, að t. d. 500 kr. árlegur skattur á einkabifreiðar, sem ekki eru notaðar til að keyra farþega í fyrir ákveðna borgun, muni ekki þykja nein ósköp, ekki sízt fyrir þá hamingjusömu eigendur slíkra bifreiða, sem fá þær gefins inn í landið, eins og farið er að tíðkast mjög upp á síðkastið. Lúksusbifreiðaskaftur væri því í alla staði mjög sanngjarn, og munu vart færri en 300 bílar koma undir hann, og gefur þessi skattur þá um 150 þús. kr. í ríkissjóð.

Með þessum tekjuöflunum, sem ég hefi bent á og sannað að væru færar, er þannig hægt að fá 3 millj. kr. í viðbót í ríkissjóð með sköttum á þá ríku. Og þessum 3 millj. króna viljum við kommúnistar, að sé varið til að bæta kjör alþýðunnar í landinu, til að auka atvinnu verkalýðsins, bæði með stórauknum verklegum framkvæmdum og auknu framlagi til atvinnubóta, til að bæta þannig kaupgetu kaupstaðabúa, svo bændurnir fái betri markað fyrir afurðir sínar — og til þess á annan hátt að hlynna að velgengni og góðri afkomu hinna vinnandi stétta. Hvað 3 milljónir króna, sem þeir ríku væru látnir borga og notaðar í þágu alþýðunnar, myndu þýða til að bæta kjör alþýðunnar, sést bezt við að athuga, að nú er áætlað á fjárlögum aðeins ½ millj. til atvinnubóta og hálf millj. til atvinnutrygginga, og stuðningur ríkisins við þá fátæku fiskimenn og bændur, sem mest þurfa hjálpar við, er mjög af skornum skammti. Það væri því hægt fyrir þetta fé — og það jafnvel þó að það yrði mun minna en við áætlum — að tvöfalda framlag ríkissjóðs til atvinnubóta og koma þar með framlagi þessu upp í eina millj., — að tryggja verkamannabústöðunum og byggingar- og landnámssjóði allar þar tekjur, sem þeim ber lögum samkvæmt, og margfalda byggingarstarfsemina í landinu, — að styrkja ríflega þá bændur, sem mæðiveikin og óþurrkarnir valda mestu tjóni, — að styðja smáútvegsmennina í baráttu þeirra við hringavald og skuldafargan, — að styrkja hverskonar viðleitni bæjarfélaga og þjóðþrifasamtaka til aukinnar framleiðslu á sjó og landi, — að koma upp barnaheimilum fyrir fátæk börn kaupstaðanna, — að herða baráttuna fyrir útrýmingu berklaveikinnar og vinna önnur þjóðþrifaverk, sem nú vantar fé til.

Ég vil taka það fram um leið, til að koma í veg fyrir misskilning, að það er langt frá því, að við kommúnistar álítum, að ekkert sé hægt að gera til að bæta kjör alþýðunnar nema með framlögum á fjárlögum. Auk alls þess, sem verkalýðssamtökin vinna sjálf, þá hafa neytendasamtökin alveg sérstaklega mikið verkefni nú í baráttunni gegn dýrtíðinni, ekki sízt ef tollabyrðin verður látin vera óhreyfð. Það verður því að tryggja þeim nægan gjaldeyri, fullt frelsi til baráttunnar gegn dýrtíðinni, — og það þarf jafnframt að tryggja smákaupmönnum sama rétt, losa þá undan einokun heildsalanna. Og að þessu öllu saman getur Alþingi unnið án þess að það kosti ríkið einn eyri.

Ég vil ennfremur taka það fram, að auk þessara tekjuöflunartillagna, sem ég hér hefi lýst, munum við kommúnistar auðvitað gera margskonar breytingartillögur við fjárlögin, bæði til sparnaðar og til útgjalda, — en nú er ekki tími til að rekja það.

Ég hefi nú lýst þeim breytingum, sem við álítum fyrst og fremst nauðsynlegar, svo fjárlögin geti orðið fjárlög alþýðunnar, fjárlög fyrir allar vinnandi stéttir Íslands.

Valdið til að framkvæma slík fjárlög er hér. Vilji þjóðarmeirihlutans í þessum efnum birtist ótvírætt í kosningunum í vor. Þeir 30000 kjósendur, sem atkvæði greiddu með vinstri flokkunum, eru fátækir, vinnandi menn og konur, til sjávar og sveita, sem sendu 30 þingmenn á þetta Alþingi til að vinna að hagsbótum alþýðu og gegn þeim, sem lifa á erfiði og neyð alþýðunnar. Í vor skoraði Framsfl. Alþfl. og Kommfl. á alþýðu Íslands að láta umfram allt ekki beiðfylkingu hinna ríku komast í meiri hluta. Alþýðan svaraði 20. júní. Hún svaraði með því að koma breiðfylkingu íhalds og afturhalds í fyrsta skipti í minni hluta hjá þjóðinni. Það stóð ekki á alþýðunni í vor. Hún vann fræknasta vinstri sigur, sem unnizt hefir á Íslandi síðan 1908. Hún sendi 30 vinstri þingmenn á

þing, sterkasta vinstri meiri hluta, sem á Alþingi hefir setið. Það stóð ekki á alþýðunni 20. júní. Og íslenzka alþýðan treystir því, að það standi ekki heldur á fulltrúum hennar nú að framkvæma vilja þjóðarmeirihlutans, framkvæma það, sem sameiginlegt er í stefnuskrám allra vinstri flokkanna, framkvæma kosningaloforðin frá í vor.

Valdið vantar þá ekki. Alþýðan íslenzka hefir séð fyrir því. En nú vill hún sjá ávextina af sigri sínum. Nú ríður á, að fulltrúar hennar sýni, að þeir hafi hug og dug til að nota þetta vald.

Fyrir hönd þingmanna Kommfl. og fyrir hönd Kommúnistaflokks Íslands lýsi ég því yfir, að við erum reiðubúnir til að styðja þá stjórn, er framkvæmir slík fjárlög, sem ég hefi lýst, og hrindir í framkvæmd þeim stórfelldu hagsbótum alþýðu, sem tekjuöflunarleiðir okkar gera mögulegar. Slíkri stjórn, sem þannig ynni í samræmi við vilja og heitustu óskir alþýðunnar í landinu, værum við reiðubúnir til að ljá stuðning okkar, og tryggja henni þar með í viðbót við þann þingræðislega meiri hluta, sem hún hefir, þann lýðræðislega meiri hluta, sem hún ekki hefir án Kommúnistaflokksins.

Ég vil jafnframt taka það fram, til að koma í veg fyrir allan misskilning, að þótt við álítum hinum ríku hlíft svo mjög og alltof lítið hugsað um hagsmuni alþýðunnar í þessu fjárlagafrumvarpi, þá má samt ekki líta svo á, sem það sé skoðun okkar, að verri hefðu fjárlögin ekki getað verið. Því fer fjarri, að það sé álit okkar. Þó gölluð séu, þá hefðu þau tvímælalaust orðið miklu verri, t. d. ef breiðfylkingin hefði sigrað í kosningunum í vor. Þið heyrðuð það á endanum í ræðu hv. 1. þm. Reykv. (MJ), fulltrúa íhaldsins. Alþýðan hefir þó a. m. k. haft það upp úr kosningunum í vor, að fjárlögin hafa ekki versnað frá því, sem þau voru áður, frekar þó skánað, því framlag til verklegra framkvæmda hefir þó hækkað dálítið borið saman við frumvarpið í vetur. Og margt er það í þessum fjárlögum, sem er ávöxtur af fyrri baráttu alþýðunnar, ávöxtur, sem við viljum vernda, svo sem framlög til atvinnubóta, til alalþýðutrygginga, til lista og vísinda o. s. frv.

En þótt fjárlfrv. gæti þannig verið miklu verra í garð alþýðunnar, þá dugir ekki þess vegna að sætta sig við það eins og það er. Jafnhliða því, sem alþýðan verst árásunum á kjör sín, þá sækir hún fram til að bæta þau, — og fjárlög þau, sem íslenzk alþýða vill kalla sín, verða að bera vott um þá sókn, vera talandi tákn um, að barátta hennar gegn misskiptingu auðsins og gegn ranglæti þjóðfél. beri árangur. Og hvers vegna er fjárlagafrv. ríkisstj. ekki talandi tákn um baráttu fyrir rétti alþýðunnar? Orsökin til þess er sú, að áhrif auðmannastéttarinnar mega sín enn mikils í stjórnarfl. og meira en vilji kjósendanna, sem gefið hafa flokkunum það vald, er þeir nú hafa. Við kommúnistar skoðum það sérstaklega sem hlutverk okkar, í samráði við þær þús. alþýðumanna, er bak við Framsfl. og Alþfl. standa, að brjóta þessi áhrif auðmannastéttarinar á bak aftur, að skapa með þessum flokkum þjóðfylkingu hinna vinnandi

stétta gegn auðvaldi og fasisma, þjóðfylkingu um róttæka pólitík alþýðunni í hag.

Verkamennirnir, sem skortir atvinnu eða búa við stopula og illa greidda vinnu, verkakonurnar, sem sjá atvinnu sína minnka ár frá ári með minnkandi fiskþurrkun, — bændurnir, sem hafa misst sauðfjárstofn sinn að meira eða minna leyti, — allar þær þús. alþýðumanna og kvenna, sem fylgja vinstri flokkunum, ætlast til þess, að fulltrúar þeirra geri nú skyldu sína, og þessar þús. alþýðumanna sjá ekki eftir því, þó stóreignamenn landsins séu látnir greiða meira en nú er, til þess að alþýðunni vegna betur og atvinnuleysisbölið og annað það böl, sem íslenzk alþýða býr nú við, minnki.

Vinnandi stéttir lands vors hafa fram að þessu hlotið fátækt og ranglæti að launum fyrir strit sitt og starf, meðan fámenn auðmannastétt hefir sölsað undir sig mestan hluta þjóðarauðsins og rakar til sín milljónatekjum. Vinnandi stéttirnar mæna nú til þessa Alþingis eftir betri kjörum og réttlæti í þeirra garð. Og fyrir fjöldann allan er það prófsteinninn, — er það eldraunin á þingræðið sjálft, hvernig það verður við þessari kröfu fólksins um rétt þess til að lifa eins og menn. Aldrei hefir Alþingi Íslendinga komið saman á örlagaríkari tímum en þeim, sem nú eru. Aldrei hafa vinnandi stéttir Íslands gert sér eins miklar vonir um Alþingi og um þetta, sem kosið var um með kosningunum 20. júní.

Við kommúnistar væntum þess, að fulltrúar vinstri flokkanna láti þessar vonir fólksins rætast, og við munum gera allt, sem í okkar valdi stendur, til að svo verði.