15.10.1937
Sameinað þing: 3. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í B-deild Alþingistíðinda. (32)

1. mál, fjárlög 1938

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hv. 1. þm. Reykv., sem talaði hér fyrir hönd Sjálfstfl., lét svo um mælt í ræðu sinni, að samstarfið milli Framsóknar- og Alþýðufl. væri nú þegar hafið á þessu þingi, og því til sönnunar varpaði hann fram þeirri spurningu, hverjir hefðu staðið að kosningu aðalforseta Sþ. Ég veit ekki betur en forseti Sþ., Jón Baldvinsson, hafi verið kosinn með shlj. atkv. Raunar leit út fyrir, að sjálfstæðismenn hefðu skilað auðu. — En ég vildi spyrja þennan þm., hver sat í forsetastól meðan hann talaði. Ég man ekki betur en það væri Magnús Guðmundsson. Og ég veit ekki betur en hann sé í Sjálfstfl. og hafi verið kosinn varaforseti með samkomulagi Sjálfstfl. og Framsfl. (MJ: Það þýðir ekki að spyrja; ég má ekki svara). Það gerir ekkert til, ég skal gera það.

Hver var kosinn fyrsti varaforseti Ed? Það er Magnús Jónsson. Ekki var hann kosinn með atkv. Alþfl., heldur með samkomulagi Framsfl. og Sjálfstfl. Og hver var kosinn fyrsti varaforseti Nd? Ég ætla, að það sé Gísli Sveinsson. Hann var einnig kosinn fyrir samkomulag Framsfl. og Sjálfstfl. Ég sé ekki, að hægt sé að segja, að samvinna Alþfl. og Framsfl. sé meiri sem stendur en samvinna Sjálfstfl. og Framsfl. Það er brosað jafnt með báðum munnvikjum á víxl til hægri og vinstri af sumum framsóknarmönnum.

Hv. 1. þm. Reykv., Magnús Jónsson, reyndi að gera sem mest úr því, að fjárlögin hefðu allt af verið að færast lengra og lengra í þjóðnýtingarátt, og þetta frv., sem hæstv. fjmrh. leggur nú fram, gengi enn lengra en nokkru sinni fyrr. — Þetta er ekki ný prédikun. Og í öðru orðinu er svo sagt, að við Alþýðuflokksmenn höfum slitið stjórnarsamvinnu vegna þess, að Framsfl. hafi þverskallazt við þjóðnýtingarkröfum okkar. Samræmið er dálítið skrítið. Þá hefði sízt verið ástæða til að slíta samvinnu, eftir að svo mikið hafði verið eftir okkur látið. — Sannleikurinn er sá, eins og hv. þm. veit, að samvinnan strandaði ekki á þjóðnýtingu, heldur á sjávarútvegsmálum.

Í ræðu hv. 1. þm. Reykv. voru þannig ýmis ólík sjónarmið, og sum þeirra kannske bundin við vonirnar um samvinnu við Framsfl., en hinsvegar er afbrýðin yfir því, að Framsfl. brosi líka til vinstri og sé með „þjóðnýting“. — Hún er líka auðskilin, þessi beiskja í Sjálfstæðismönnum, þegar þeir sjá ofsjónum yfir einhverjum samvinnuárangri annara flokka. Þeir tóku á sína framfærslu einn svonefndan stjórnmálaflokk fyrir síðustu kosningar. Það fór nú eins og það fór. Þrátt fyrir þær raunir á ekki að gefast upp. Nú á að reyna, hvort ekki sé til einhvers að brosa til vinstri og vita, hvort því verði ekki svarað með hægra brosi.

Ég vil minnast nánar á þessi mismunandi sjónarmið í ræðu hv. þm. Mér skildist á honum, að enn kynni að stefna til meiri ófarnaðar og enn meiri þjóðnýtingar. Hann var að reikna út skattaaukning og tollaaukning miðað við innfluttar vörur. Það voru í sjálfu sér réttar hundraðstölur. Engu að síður er sannað, að heildarupphæð skatta og tolla er lítið breytt síðan fyrir tíu árum. Og það er sannað, sem er eini rétti mælikvarðinn í þessu sambandi, að heildarupphæð skatta og tolla á mann í landinu er talsvert lægri en fyrir tíu árum. — Hitt sér hver maður, að þegar innfluttar verðtollsvörur lækka niður í 7½ milljón úr ca 15 milljónum, þá hlýtur hundraðsgjaldið að hækka.

En sá meginmunur, sem er á skoðunum sjálfstæðismanna og alþýðuflokksmanna í skattamálum skýrist bezt, þegar spurt er um, hvernig þjóðfélagið eigi að mæta erfiðleikatímum. Sjálfstfl. telur það bezta úrræðið að draga úr stuðningi við atvinnuvegina, draga úr öllum greiðslum, sem fyrst og fremst skapa atvinnu og kaupgetu í landinu, og spara þau framlög, sem þarf til að viðhalda ómissandi atvinnurekstri. Þá er beinlínis stuðlað að því, að atvinnuvegirnir dragist saman, beinlínis aukið á vandræðin viljandi. Þegar framleiðslan og atvinnan við hana minnkar af kreppuorsökum eða árferði, er það hróplegt, ef opinberar framkvæmdir eru dregnar saman um leið.

Einmitt á krepputímum verður að nota getu þjóðfélagsins til hins ýtrasta til viðnáms og viðreisnar. Og það verður að leggja eins mikið og unnt er til verklegra framkvæmda, til þess að fækka í hópi atvinnuleysingjanna. Hér er grundvallarskoðanamunur milli flokkanna.

Þá er á það að líta, hvaða tillit er tekið til þessara tveggja sjónarmiða flokkanna, sem ég hefi minnzt á, í þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Ég hefi gert yfirlit til glöggvunar yfir helztu framlögin til verklegra framkvæmda og til stuðnings við atvinnuvegina. Mér telst svo til, að þau nemi samtals rúml. 7050 þús. kr., eða fast að helmingi allra útgjalda. Það er miklu hærri upphæð en áður hefir verið. Til þess liggja margar ástæður, eins og hæstv. fjmrh. talaði um. Þar af eru á 16. gr. 3314 þús. kr., en annarsstaðar, fyrst og fremst í 13. gr., eru veittar samtals um 2672 þús. kr., til vega, síma, vita, hafnargerða og bygginga og samtals um 1070 þús. kr. styrkur til samgangna á sjó og til landhelgisgæzlu.

Við nánari athugun á þessum upphæðum hlýtur maður að taka eftir því, hversu mismunandi er hlúð að einstökum atvinnuvegum með fjárveitingum. Í 16. gr. er veitt eða varið til styrktar landbúnaðinum beinlínis 1476 þús. kr. Og eru þar þó ótalin framlögin til styrktarsjóða landbúnaðarins, en þau nema 615 þús. kr. Samanlagt verður það 2,1 millj. króna. Hinsvegar eru styrkir til sjávarútvegs, iðnaðar og annara atvinnuvega, sem bera uppi kaupstaðina og sjávarþorpin, ekki nema 643 þús. kr., að viðbættum 315 þús. kr. framlögum til sjóða, svo að samtals verða það liðlega 950 þús. króna.

Enn eru í 16. gr. fjárveitingar, sem nema 264 þús. kr., og verður varla gert upp á milli, hvort þær séu fremur fyrir sveitirnar eða fólkið við sjóinn. Eins má segja um meginið af þeim upphæðum, sem ég hefi drepið á í öðrum greinum. Sumir líta svo á, að framlagið til vega, meira en hálf önnur milljón, komi einkum sveitunum að gagni, þó að ég vilji telja, að það sé til hagsbóta fyrir landsmenn alla.

Á síðasta þingi fluttum við alþýðuflokksmenn frumvörp, sem miða að viðreisn sjávarútvegsins. Það er ómótmælanlegt, að útgerðin er þannig stödd, að þar er ekki viðréttingarvon fyrr en eftir aðgerðir, sem kosta stórfé. Þetta frumv. er lagt fyrir þingið með 730 þús. kr. greiðsluhalla. Ég hefði óskað, að hægt hefði verið að ganga frá frumv. án greiðsluhalla, eða að bent hefði verið þegar í stað á þær leiðir, sem fara verður til tekjuöflunar til að vega móti hallanum. En auðvitað hefir stjórnin rétt til að líta svo á, að þessara útgjalda þurfi við, og segja við þingið, að það verði að finna ráð til að afla þessara tekna. — En úr því að ekki var hægt að gera greiðsluhallalaus fjárlög, hefði ég kunnað miklu betur við, að hæstv. fjmrh. hefði einnig tekið þar með framlög, sem hann veit eins vel og ég, að eru óumflýjanleg. Það eru fjárveitingar til viðreisnar sjávarútveginum.

Viðleitni okkar alþýðuflokksmanna hlýtur að verða sú, að reyna að jafna þessi met svo, að upp verði tekin veruleg framlög til viðreisnarinnar við sjóinn, jafnframt því sem útflutningsgjaldi á sjávarafurðum verði af létt að fullu. Ég vildi mega vænta þess, að um þetta mætti ná samkomulagi við Framsfl., og helzt við þingflokka alla.

Að síðustu vil ég taka fram, að ég sakna þess, að enginn — hvorki hæstv. fjmrh. né aðrir — hefir minnzt á það einu orði, að þörf væri fyrir aðgerðir vegna sveitar- og bæjarfélaga. Viða þar, sem útgerð hefir dregizt saman, er þörfin fyrir einhverjar hagsbætur ákaflega knýjandi og bersýnilegt, að ekki verður bætt úr henni nema með fárhagslegri aðstoð, sem þjóðfélagið eitt er fært um að inna af hendi. Þetta tel ég eitt þeirra verkefna, sem bíða þessa þings og alls ekki er hægt framhjá að ganga.

Afstaða okkar alþýðuflokksmanna til frv. mun koma í ljós við meðferð vandamálanna hér á þingi, við starf okkar í n. og við meðferð frumvarpsins, þegar kemur framhald þessarar umræðu.