19.10.1937
Efri deild: 5. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 327 í B-deild Alþingistíðinda. (325)

10. mál, fasteignamat

Flm. (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru dregin saman þau lagaákvæði, sem nú gilda um fasteignamat, — þ. e. a. s., sumu er breytt og nokkrum nýjum atriðum er bætt inn i. Fyrst og fremst er breyt. á því, hvernig fasteignamatsnefndir í sveitum skuli skipaðar. Þeim er ætlað, eins og áður, að hafa með höndum mat fasteigna heima í héruðum, en í stað þess, að formaður var skipaður æfilangt, þá er hér gert ráð fyrir, að hann verði skipaður til 10 ára. Breyt. þessi er að sumu leyti fram komin vegna þess, að þegar valdir eru menn til slíks starfs, sýnir reynslan alltaf, að sumir eru miður hæfir til þess, aðrir geta ekki sinnt starfinu til dauðadags vegna elli, og því æskilegt, að skipta megi um.

Ég vil benda n. þeirri, sem fær frv. til meðferðar, á það, að ég hefi lagt svo til, að í hverju umdæmi séu tveir menn skipaðir í undirfasteignamatsnefnd eftir tillögum sýslunefndar, og æskilegt er, að matsmennirnir hafi sem mestan og beztan kunnugleika á þeim stað, sem meta á. Í stórum sýslum fást varla 2 menn með kunnugleika um alla sýsluna, og því hefir sumum dottið í hug, að annar af þeim tveim mönnum, sem sýslunefnd bendir á, væri ekki hinn sami um alla sýsluna, heldur kæmi inn sem þriðji maður úr þeim hreppi, sem þá væri metið í.

Annað atriði sem gert er ráð fyrir, að breytist, er, að yfirfasteignamatsnefndirnar, sem áður voru í hverju umdæmi, séu lagðar niður. Þessar nefndir hafa kostað á milli 20–30 þús. kr. í hvert sinn, sem mat hefir farið fram. Þær hafa farið yfir matsgerðir undirfasteignamatsnefnda og samræmt þær eftir sýslum, tekið á móti kvörtunum og kærum, sem fram hafa komið, og leitt þær til lykta. Eftir þeim kynnum, sem ég hefi haft af fasteignamati, sem eru nokkuð mikil, get ég ekki séð, að þessar nefndir geri verulegt gagn, og legg því til, að þær verði felldar niður, svo að sá kostnaður sparist. En þar sem einhver þarf að vera, sem skorið getur úr deilum og kærum, sem kunna að koma fram vegna fasteignamatsins, þá er ætlazt til, að sameiginleg yfirfasteignamatsnefnd sé fyrir allt landið. Hún á einnig að samræma mat undirfasteignamatsnefnda. Hve nauðsynlegt er, að slíkt sé gert, má sjá af því, að við síðasta mat vissi ég t. d. til, að í einni sýslu varð að lækka matið um 35% til að fá samræmi í fasteignamat á öllu landinu, og þó álítur almenningur, að matið sé þar hæst, sem mest var lækkað. Ég geri ráð fyrir, að með þeim samgöngum, sem nú eru, komi það ekki að sök, þótt dómstóll sé ekki í héruðum til að skera úr kærum, heldur fari þær til landsyfirfasteignamatsnefndar. Nefnd, sem hefir starfað að þessu undanfarið, hefir aðeins starfað þau árin, sem matið fór fram, annars ekki. Nú er svo komið, að öll árin milli þess, sem aðalmat fer fram, þarf að meta margar fasteignir, og það eykst með ári hverju, bæði vegna þess, að jörðum er skipt og byggingum fjölgar. Þessi möt hafa verið framkvæmd af úttektarmönnum hreppanna eða sérstökum matsmönnum, svo að ósamræmi aðalmatanna er hverfandi samanborið við ósamræmið í millimötunum. Dæmi eru til þess, að á tveim húsum, sem byggð voru eftir sömu teikningu frá byggingar- og landnámssjóði og voru álíka dýr samkv. reikningum þeim, sem sjóðnum bárust, munaði um helmingi á matinu. Það er gert ráð fyrir, að yfirfasteignamatsnefnd verði föst nefnd og starfi árlega að því að samræma millimötin. Hún kostar auðvitað eitthvað, en til þess að hafa nokkuð upp í þann kostnað, er gert ráð fyrir, að formaður hennar sé líka formaður fasteignamatsnefndar hér í Reykjavík, en hann hefir áður verið fastur maður, og með því, sem sparast við niðurfellingu yfirfasteignamatsnefndar í umdæmunum, verður kostnaðaraukinn enginn.

Önnur nýmæli frá núgildandi lögum eru lítil. Það er nánar tekið til, hvernig skipta skal mati á fasteign, og er það eðlileg afleiðing af lögum, sem hafa komið fram í millitíðinni. Ég vil benda á, að í núgildandi lögum eru engin ákvæði um. hvernig eigi að samræma millimöt. Þá er líka misbrestur á að tilkynna þau skattayfirvöldum, og full ástæða að reyna að skapa tengilið þarna á milli, svo að þetta verði áhrifaríkara í verki og skattanefndarstörf nákvæmari. Hér í Reykjavík eru ekki til ákvæði um millimöt, önnur en þau, sem venja hefir skapað. Öllum mun koma saman um, að það þurfi að hefja sem fyrst undirbúning undir nýtt fasteignamat, svo að honum verði lokið þegar lög gera ráð fyrir, að næsta aðalmat fari fram, eða um 1940, og er því nauðsynlegt, að lög þessi komist í gegnum þingið nú, svo að hægt verði að hefja starf á þessum grundvelli. Ég skal henda á, að í þessum lögum er það nýmæli, að yfirfasteignamatsnefnd er heimilt að meta nokkrar fasteignir í hverri sýslu, sem undirfasteignamatsnefnd geti lagt til grundvallar, svo að mötin í hverri sýslu samræmist, og er þetta orðin venja víða um heim, þar sem fasteignamat er notað.

Nokkur ágreiningur varð um það í hv. Nd. í fyrra, til hvaða nefndar þetta mál ætti að fara. Ég geri ráð fyrir, að það, sem þar varð ofan á, að vísa því til fjhn., hafi verið rétt, og vil því leggja til, að því verði vísað til hv. fjhn. að þessari umr. lokinni.