15.11.1937
Efri deild: 27. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 331 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

10. mál, fasteignamat

*Magnús Jónsson:

Eins og hv. frsm. n. hefir tekið fram, þá var í n. talað um þau tvö atriði, sem ég hefi borið fram brtt. um, nefndin í fyrsta lagi ákvæði 2. gr. um það, að yfirmatsnefnd geti látið meta 1–3 fasteignir í hverju matshéraði til leiðbeiningar og samræmingar, og í öðru lagi ákvæði 12. gr. um, að skipun matsnefndar í Reykjavík skuli framkvæmd öðruvísi en annarsstaðar. Var rætt um þetta atriði, þótt n. bæri ekki fram neinar till. sem slík. Um fyrra atriðið er það að segja, að nokkur rök má færa fyrir því, að þar sem landsyfirmatsnefnd á að samræma mat um land allt, þá sé ekki óeðlilegt, þó hún byrji þegar í stað með því að athuga fyrra mat fasteigna víðsvegar um land, því það er vissulega grundvöllur, sem byggja má á í hverju héraði, þótt ekki væri metið á ný en ýmsir hafa hreyft því við mig, að með því að gefa yfirmatsnefnd vald til þess, væri henni ekki aðeins gefið vald til að samræma mötin, heldur líka til þess að ráða mötum á öllu landinu, og það er alveg rétt. Ef búið er að meta 1–3 fasteignir í hverju héraði og mat annara fasteigna á síðan að miðast við það, þá ræður yfirmatsnefnd mati um land allt, en það var ekki meiningin með frumv., eftir því, sem hv. flm. þess hefir sagt mér, heldur aðeins hitt, að samræma matið. Auk þess vil ég segja, að ég dreg mjög í efa, að aukið samræmi fengist við samþykkt þessarar till., því vafasamt er, að menn, sem ferðast um landið, hafi skilyrði til að, dæma um verðmæti jarða á Austurlandi samanborið við verðmæti jarða á Vesturlandi o. s. frv., og þar að auki horfir málið öðruvísi við, þar sem nú er til fasteignamat, sem mikil vinna hefir verið lögð í að samræma. Það er mikill grundvöllur að byggja á. Að vísu geta menn, sem aðeins ferðast um landshlutana, borið saman gögn og gæði jarðanna, en það er margt fleira, sem kemur til greina, þegar finna á raunverulegt verðmæti þeirra, svo sem afstaða til markaða o. fl. Þess vegna leyfi ég mér að leggja til, að þetta ákvæði verði fellt niður, enda er það engin nýjung; núgildandi lög eru þannig.

Hitt ákvæðið er í sjálfu sér ekki merkilegt og engin önnur ástæða færð fyrir því en lítilsháttar sparnaður, sem eigi að felast í því, að formaður yfirmatsnefndar verði líka matsmaður í Reykjavík, sem er aðeins fyrirkomulagsatriði. N. leit svo á, að vitanlega yrði að borga matsmanni sérstaklega fyrir starf í yfirmatsn., og sé ég ekki, hvaða sparnaður það getur kallazt, þótt þessum manni séu borgaðar 12–14 hundr. kr. meira eða minna. Ég verð líka að segja, að ég álít það óhugsandi að láta sama mann starfa hér í undirmatsnefnd og yfirmatsnefnd, eða ef svo mætti segja, bæði í undir- og yfirrétti, eins og stendur í 13. gr. Ef menn eiga að hafa leyfi til að áfrýja mati undirmatsnefndar til yfirmatsnefndar, kemur það ekki til mála, að sami maður, sem hefir fellt dóm undirmatsnefndar, felli líka dóm yfirmatsnefndar. Ef kalla á varamann til í hvert sinn. sem mati er áfrýjað, mun sparnaðurinn verða litill við það, að láta sama manninn vinna þessi tvö verk. Svo er það, að ef taka á varamann til þessa starfs, skortir hann það yfirlit, sem aðalmaðurinn hefir. Álít ég og heppilegra, að sama nefndin úrskurði allar kærur, hvaðan sem þær koma af landinu. Ég álít, að fyrri brtt. sé sú, sem nokkru máli skiptir; hið síðara er í rauninni aðeins um lítilfjörlegan sparnað. Fjölyrði ég svo ekki frekar um þetta, en læt atkvgr. skera úr um, hvort menn vilja heldur brtt. mína eða frv. óbreytt.