17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í B-deild Alþingistíðinda. (338)

10. mál, fasteignamat

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti. Því miður var ég ekki við, þegar málið var til umr. um daginn, og heyrði því ekki framsöguræður hjá tveim hv. þm., sem mæltu fyrir brtt. Sumar brtt. voru frá n., en aðrar frá hv. 1. þm. Reykv. Ég vil segja nokkur orð um þessar till. áður en þær koma til atkv. Viðvíkjandi till. frá n., en þær eru á þskj. 122, vil ég segja, að mér líka .þær vel og er ég þeim yfirleitt samþykkur. Ég mun því ekki fara frekar út í þær.

Viðvíkjandi till. á þskj. 121, þá er öðru máli að gegna. 1. brtt. fer fram á það, að felld sé niður úr 2. gr. heimild, sem þar er sett inn, en hún er ný í l. og var ekki í eldri l., sem eftir hefir verið farið. Það er orðið svo í öðrum löndum, að til þess að reyna að gefa undirmatsmönnunum sem gleggstan mælikvarða fyrir sínu starfi, og til þess að reyna að tryggja það fyrirfram, að sem mest samræmi sé í því, þá eru þeir, sem fyrir þessu standa, látnir meta nokkur sýnishorn í hverju umdæmi, til þess að undirnefndirnar hafi það sem leiðarvísi í sínu starfi. Þegar ég samdi uppkastið ásamt öðrum, þá þorði ég ekki að fara lengra í þessa átt, þar sem þetta er nýtt og hefir ekki verið framkvæmt áður, en að veita fjmrh. heimild til þess að láta gera þetta, ef búið væri að gera þann undirbúning áður, sem þyrfti til þess að þetta yrði að gagni. Þessa heimild vill hv. 1. þm. Reykv. leggja niður, og mér hefir skilizt á viðtali við hann, og ég býst við, að það hafi komið fram í umr., þegar hann hafði framsögu, að hann álítur, að ef tekin sé upp sama reglan og annarsstaðar, þá fengi yfirmatsnefndin, sem við ætlumst til, að samræmi matið, of mikið vald til þess að hafa áhrif á það, hve hátt matið yrði, þegar endanlega er frá því gengið. Hann álítur það hættulegt að leggja þetta vald í hendur n. á þessu stigi, þó hann sé ekki hræddur við að leggja það í hendur hennar, þegar allt er búið. En við verðum að gera okkur það alveg ljóst, að þegar búið er að meta, og undirmötin eru komin í hendur landsmatsnefndarinnar, þá er það hún, sem á að finna það, hvort hún hækkar eða lækkar allt matið. Það er alltaf hún, sem leggur endanlega hönd á það, hvað hátt matið verður. Það er því ekki um annað að ræða en hvenær það er ákveðið. Það er um það að ræða, hvort ákveða á það strax í byrjun matsins, svo að með því fáist meira samræmi í heildina, eða hvort á að meta það, þegar allt er búið. Ég fyrir mitt leyti legg mikið upp úr þessu, því það verður bæði til þess, að meira samræmi verður í matinu, og líka til þess, að matið verður í heild betur af hendi leyst. Það er alveg víst, að ef hver nefnd hefir fyrir sér mat á nokkrum fasteignum í umdæminu, þá er hún búin að fá öðruvísi mælikvarða og öðruvísi aðstöðu til þess að framkvæma matið eftir þeim reglum, sem yfirmatsnefndin óskar og beztar finnast. Þess vegna vil ég mælast til, að þessi brtt: hv. 1. þm. Reykv. verði felld og það verði leyft að reyna það, hvort hægt er að fara inn á svipaða leið hér og aðrar þjóðir hafa farið.

Hin brtt. er við 12. gr. Það er ætlazt til, að í Rvík, þar sem búast má við, að árlega sé um tiltölulega mest mat að ræða í einu umdæmi á landinu, séu matsmennirnir 3 og einn sé oddamaður. Til þess að spara, þá hugsuðum við okkur, að sá maður, sem alltaf er að samræma matið, verði formaður í þessu millimati í Reykjavík. Okkur var ljóst, að það gæti komið fyrir, að einhverjir kærðu millimatið, til þess að fá það annaðhvort lækkað eða hækkað. Þegar aðalmat er, þá eru þetta 10–12 kærur úr Reykjavík. Okkur var því ljóst, að þetta gæti komið fyrir, en þá bjuggumst við við því, að varamaður mundi koma inn. Með tilliti til þess, að varamaður komi inn, þótti okkur réttara að hafa þennan oddamann, svo að í nefndinni væru 3 menn, eins og undanfarið. Ég verð því líka að leggja á móti því, að þessi brtt. verði samþ., enda þótt ég telji hana frekar meinlausa hvað efni snertir heldur en hina, sem ég tel mjög til skemmda, ef samþ. verður. Ég vil því mælast til, að báðar þessar brtt. verði felldar og frv. leyft að vera cins og það er hvað þetta snertir. Það getur verið, að það vanti í frv. ákvæði um, að varamaður formanns í yfirfasteignamatsnefnd komi inn í svona tilfellum, en mér virtist það svo sjálfsagður hlutur, að það þyrfti ekki að taka það fram. En ef ástæða þykir til þess, þá er hægt að leiðrétta þetta í Nd., svo þess vegna er óhætt að fella brtt. hér. En ég held, að það þurfi ekki að taka þetta fram. Ég vil því leggja móti báðum þessum brtt. og tel réttara að fella þær en samþ.