17.11.1937
Efri deild: 29. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 337 í B-deild Alþingistíðinda. (343)

10. mál, fasteignamat

*Magnús Jónsson:

Það er rétt hjá hv. frsm. og hv. flm., að 2 menn yrðu að meta hér í Reykjavík, ef brtt. mín nær samþykki. Þess vegna eru þeir á móti henni. Það sýnir betur en nokkuð annað, hvað hér er lítið um það að ræða að spara. (PZ: Það hafa alltaf verið 3 menn við Reykjavíkurmatið). Ég var bara að benda hv. þm. á, að það er mín brtt., sem horfir til sparnaðar. Og því er ósvarað, hvað það kostar að láta formann yfirfasteignamatsnefndar starfa í undirnefnd í Reykjavík. Það yrði meira og miklu stöðugra starf, sem hann yrði að inna af höndum þar, heldur en sem yfirfasteignamatsnefndarmaður.

Bæði hv. frsm. og hv. flm. tala um ósamræmið í síðasta mati og í væntanlegu mati. Það fáist aldrei fullt samræmi, ekki innan héraðs fremur en milli héraðanna. Hvernig á þá að fara að þessu?— Ég er ekki trúaður á, að þeir menn, sem fara um landið meira og minna ókunnugir, geti skapað nægilegt samræmi. En ég hefi heyrt, að formenn undirn. hafi reynt að talast víð, áður en þeir byrjuðu á mati. Og ég held, að það gæti orðið töluvert meira virði nú, að þessir kunnugu menn leggi málið niður fyrir sér heima í sínu héraði. — Ég hefi átt kost á að bera saman matið í nokkrum kaupstöðum á Austurlandi og í Reykjavík. Ég hefði gaman af að sjá, hvenær fengist samræmi í því eða öruggur mælikvarði á það, hvers virði hús með tiltekinni stærð er á stöðum með svo ólíkum atvinnuskilyrðum, dýrleik á flestum hlutum og erfiðleikum, sem aðeins kunnugir geta metið.

Það hefir verið kölluð fjarstæða, að yfirfasteignamatsnefndin, sem samkv. frv. leggur grundvöllinn að matinu, ráði hæð þess meir en verið hefir. Kannske á að skilja þau ummæli svo, að undirnefndirnar séu ekkert bundnar af þessu undirbúningsmati. Þeir virðulegu yfirfasteignamatsnefndarmenn eiga að koma og meta, en segja svo við undirnefndirnar: Þið skuluð ekkert hirða um að fara eftir þessu mati okkar.

Ég skal ekki fjölyrða um þetta. Bæði hv. frsm. og hv. flm. hafa láfið í ljós, að þeir vildu ekkert breyta frv. í þessum atriðum. Ég verð þá að una við það, að atkvgr. skeri úr.