09.10.1937
Sameinað þing: 1. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 7 í B-deild Alþingistíðinda. (4)

Minning látinna manna

Aldursforseti (IngP):

Áður en tekið verður til þingstarfa vil ég samkv. venju minnast nokkrum orðum þeirra alþm. og fyrrv. þingmanna, sem látizt hafa frá því er síðasta þingi sleit.

Skal ég þá fyrst minnast Guðmundar Björnssonar fyrrv. landlæknis, sem andaðist 7. maí síðastl. Hann fæddist 12. okt. 1864 í Gröf í Víðidal, sonur Björns Guðmundssonar, síðar bónda á Marðarnúpi, og konu hans, Þorbjargar Helgadóttur, bónda í Gröf Vigfússonar. Hann útskrifaðist úr lærða skólanum 1887 og tók embættispróf í læknisfræði við Kaupmannahafnarháskóla 1894. Sama ár var hann settur kennari við læknaskólann hér. Ári síðar var hann settur héraðslæknir í Reykjavík, og skipaður í það embætti á öndverðu ári 1896. Tíu árum síðar, haustið 1906, var hann skipaður landlæknir, og gegndi hann því embætti þar til honum var veitt lausn sakir heilsubrests, 7. sept. 1931.

Guðmundar Björnssonar mun lengi verða minnzt sem eins af gáfuðustu og athafnamestu sonum landsins á sinni tíð. Svo fjölhæfur var hann og mikilvirkur, að segja má, að hann hafi staðið framarlega meðal frumkvöðla um flest framfaramál landsins um langt skeið. Hér yrði of langt upp að telja öll þau merku málefni, sem hann beitti sér fyrir eða var við riðinn, og verð ég því að láta mér nægja að drepa aðeins á nokkur þeirra.

Á starfssviði sínu, í heilbrigðismálum þjóðarinnar, mun hann mestu hafa afrekað. Auk þess að hann var mikill læknir og afburða kennari kom hann nýju skipulagi á heilbrigðislöggjöfina, átti mestan þátt í því, að hér var komið upp holdsveikraspítala, gekkst fyrir stofnun heilsuhælisfélagsins og byggingu Vífilsstaðahælis og fyrir stofnun sjúkrasamlaga hér á landi, og mikinn þátt átti hann í stofnun Kristneshælis og landsspítalans. Þá blés hann og nýju lífi í íþróttaiðkanir hér á landi og beittist fyrir stofnun Slysavarnafélags Íslands. Í bæjarstjórn Reykjavíkur átti hann sæti um langt skeið. Af afrekum hans í þágu bæjarfélagsins mun vatnsveita Reykjavíkur halda nafni hans lengst á lofti. Á Alþingi átti hann fyrst sæti 1905–1907, var þá 2. þm. Reykv. Síðan var hann konungkjörinn þingmaður 1913–1915 og landskjörinn þingmaður 1916–1922. Á þingi var hann hinn mesti atkvæðamaður, vel máli farinn og ótrauður starfsmaður. Hann var formaður milliþinganefndar í fossamálum 1917–1919, og er vatnalöggjöf landsins ávöxtur af starfi þeirrar nefndar. Af hinum fjölmörgu málum öðrum, er hann beittist fyrir á þingi, má nefna stofnun háskólans og þingsköp Alþingis, er hann samdi af nýju og fólu í sér miklar endurbætur á vinnubrögðum þingsins. Á 6 síðustu þingárum sínum, 19l6–1922, eða alls á 8 þingum, var hann forseti efri deildar, og mun röggsemi hans, glöggskyggni og dugnaður í því starfi lengi verða í minnum höfð.

Eftir Guðmund Björnsson liggur fjöldi ritgerða og fyrirlestra um margvísleg efni. Starfsþrek hans og atorka var óbilandi, meðan hann hélt heilsu, að hverju sem hann gekk. Auk embættisstarfa og stjórnmála átti hann mörg hugðarefni, svo sem stærðfræði, rímfræði, sönglist og skáldskap, og ritaði um þau efni. Sjálfur var hann skáldmæltur vel og gaf út ljóðabók, Undir ljúfum lögum. Ritfær var hann flestum fremur og smekkvís og hagur á íslenzka tungu. Fjöldi góðra nýyrða, sem nú eru á hvers manns vörum, eru eftir hann, enda var oft til hans leitað í þeim efnum.

Guðmundur Björnsson mun jafnan verða talinn einn hinna dugmestu og merkustu manna landsins á síðasta fjórðungi 19. aldar og fyrsta fjórðungi 20. aldar.

Þá er að minnast tveggja látinna merkismanna, sem sæti áttu á síðasta Alþingi og mundu hafa átt hér enn sæti, ef þeim hefði enzt aldur til, þeirra síra Sigfúsar Jónssonar kaupfélagsstjóra og Jóns Ólafssonar bankastjóra.

Síra Sigfús Jónsson andaðist 8. júní síðastl. Hann var fæddur á Víðimýri í . Skagafirði 24. ágúst 1866, sonur Jóns Árnasonar bónda þar og konu hans Ástríðar Sigurðardóttur bónda á Reykjum á Reykjabraut. Hann lauk stúdentsprófi við lærða skólann hér 1886 og útskrifaðist 2 árum síðar úr prestaskólanum. Veturinn 1888–1889 var hann kennari við unglingaskóla á Sauðárkróki, en vígðist prestur að Hvammi í Laxárdal haustið 1889 og gegndi því embætti til vorsins 1900. Þá fékk hann veitingu fyrir Mælifelli í Skagafirði, og því prestakalli þjónaði hann til vorsins 1919, er hann sótti um og fékk lausn frá embætti. Þá fluttist hann að Sauðárkróki og gaf sig upp frá því allan við forstöðu kaupfélags Skagfirðinga, en í stjórn þess félags var hann á árunum 1904–1910 og formaður og framkvæmdarstjóri þess frá 1913 til dauðadags. Á hann hlóðust mörg önnur trúnaðarstörf í héraði. Meðal annars átti hann um langt skeið sæti í hreppsnefndum allra þeirra hreppa, sem hann var búsettur í í Skagafirði frá því er hann settist þar að að loknu námi, fyrst í Skefilsstaðahreppi, þá Lýtingsstaðahreppi og loks í Sauðárkrókshreppi. Í sýslunefnd átti hann og sæti um skeið og í fleiri nefndum innanhéraðs. Skagfirðingar kusu hann á þing 1934, og sat hann á 4 síðustu þingum.

Síra Sigfús naut jafnan hins mesta trausts og virðingar í héraði sínu, bæði sem prestur, bóndi og fésýslumaður þótti hæfileikamaður drengur hinn bezti og ráðhollur, prúðmenni í allri framgöngu og hvers manns hugljúfi. Fjármálamaður var hann glöggur og stýrði kaupfélagi sínu traustum tökum, enda efldist það undir hans stjórn úr tiltölulega smáum félagsskap í öfluga héraðsverzlun. Þau ár, sem hann sat á þingi, var honum alla tíð falin formennska í fjárhagsnefnd neðri deildar og framsaga í flestum skattamálum. Öll var framkoma hans á Alþingi hin virðulegasta, og þótt hann væri óhlutdeilinn og hefði sig lítt frammi í málsennum, kom glöggskyggni hans á landsmál í góðar þarfir, og héraði sínu var hann dyggur fulltrúi í framfaramálum þess.

Jón Ólafsson bankastjóri andaðist 3. ágúst síðastliðinn. Hann var fæddur 16. okt. 1869 í Sumarliðabæ í Holtum, sonur Ólafs Þórðarsonar, bónda þar, og konu hans, Guðlaugar Þórðardóttur, bónda í Sumarliðabæ Jónssonar. Hann ólst upp með foreldrum sinum og stundaði þar algeng sveitastörf, en réðst jafnframt ungur til sjóróðra á vertíðum á Stokkseyri, og þar var hann formaður á opnu skipi í þrjú ár skömmu fyrir aldamót. Til Reykjavíkur fluttist hann árið 1897 og gekk á stýrimannaskólann. Þaðan útskrifaðist hann 1899. Á árunum 1899–1903 var hann skútuskipstjóri í þjónustu Geirs Zoëga, en 1904 keypti hann sjálfur þilskip og stýrði því til ársins 1911. Þá tók hann við framkvæmdastjórn í útgerðarfélaginu Alliance og hélt því starfi til 1930, er hann var skipaður bankastjóri í Útvegsbankanum, og annaðist jafnframt um skeið stjórn fleiri togarafélaga. Í bæjarstjórn Reykjavíkur sat hann í mörg ár, í hafnarnefnd, niðurjöfnunarnefnd, stjórn Fiskifélags Íslands, stjórn Félags ísl. botnvörpuskipaeigenda, auk ýmsra annara trúnaðarstarfa, er hann hafði á hendi í almenningsþarfir. Á Alþingi átti hann sæti í síðustu I0 ár, frá 1927 til dauðadags, var fyrst þingmaður Reykvíkinga 1927–1931, þingmaður Rangæinga 1931–1937 og eftir kosningarnar í júní síðastl. landskjörinn þingmaður.

Jón Ólafsson var í öllum störfum sínum atorkumikill þrekmaður og stórhuga, einn af brautryðjendum togaraútgerðar hér á landi og hafði meiri reynslu en flestir aðrir í sjávarútvegsmálum. Þau mál lét hann og einkum til sín taka á Alþingi og gat þá verið óvæginn og kappsfullur í umræðum, ef tillögur hans sættu andmælum. Annars var hann stilltur maður og hversdagsgæfur, allra manna vinsælastur, ráðhollur og hjálpsamur, höfðingi í lund og þó flestum mönnum alþýðlegri.

Ég vil biðja háttv. þingmenn að votta minningu þessara manna virðingu sína með því að risa úr sætum sínum.

[Allir þm. risu úr sætum.]