23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 345 í B-deild Alþingistíðinda. (404)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Flm. (Finnur Jónsson) :

Ég þarf ekki að fylgja. þessu frv. úr hlaði með mörgum orðum. Eins og kunnugt er, hefir ástandið verið þannig um saltfisksveiðar að þær hafa verið reknar með tapi í allamörg undanfarin ár, og hefir verið viðurkennt af Alþ. yfirleitt, að ekki væri rétt að taka áfram útflutningsgjald af saltfiski. Það hefir þó ekki tekizt fyrr en á þessu þingi að ná samkomulagi um, hvernig afla skylds tekna í stað þeirrar tekjurýrnunar, sem ríkissjóður yrði fyrir með afnámi útflutningsgjaldsins. Nú er málinu svo komið, að þetta frv. er borið fram eftir tilmælum hæstv. ríkisstj. og eftir samkomulagi milli stjórnarflokkanna um að sjá ríkissjóði fyrir 220 þús. kr. tekjum, en það er sú upphæð, sem gert er ráð fyrir, að hann tapi við afnám útflutningsgjaldsins. Ég skal taka það fram, að ef útflutningur saltfisks ykist frá því, sem nú er, yrði tekjurýrnun ríkissjóðs vitanlega meiri, en þó er þess varla að vænta, að aftur verði tekið upp útflutningsgjald af saltfiski, þar sem þegar er búið að fella slíkt gjald niður af flestum öðrum sjávarafurðum.