30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (415)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson):

Meiri hl. sjútvn. leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. En minni hl., hv. 6. þm. Reykv. og hv. þm. Ak., leggur fram sérstakt nál. á þskj. 205, þar sem ekki er beint lagzt á móti þessu máli, en vísað til annars frv., sem borið er fram af sjálfstæðismönnum og fer fram á það sama og jafnframt að létta útflutningsgjaldi af fleiri afurðum. Ég held, að þetta sé lítil ástæða fyrir minni hl. til að mæla móti frv. Enda er svo ráð fyrir gert í frv., sem menn úr tveim þingflokkum hafa borið fram hér í deildinni um fiskimálanefnd o. fl., að nota allmikinn hluta af því útflutningsgjaldi, sem ekki yrði fellt niður samkv. þessu frv., — nota það sjávarútveginum sjálfum til styrktar. Minni hl. hefir engar brtt. gert við frv. Ég sé því ekki ástæðu til að ræða einstök atriði, nema hv. frsm. minni hl. gefi ástæðu til, en legg til, að frv. verði samþ. óbreytt.