30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í B-deild Alþingistíðinda. (416)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

Frsm. minni hl. (Sigurður Kristjánsson):

Eins og hv. frsm. meiri hl. gat um, var aðalágreiningurinn sá, að meiri hl. taldi málið leyst með þessu frv., en minni hl. telur það ófullnægjandi lausn, þar sem aðeins er létt gjaldi af saltfiski, og þó aðeins að nokkru leyti. En fyrir þinginu liggur frv. um að fella niður gjaldið af öllum fiski. — Þar með er ekki átt við síld eða síldarafurðir, fiskimjöl, fiskbein og þess háttar. — Nú má segja, að erfitt sé að vera móti þessu frv., því að það feli þó nokkra réttarbót í sér. En ég er sannfærður um, að þetta frv. er borið fram án allrar rannsóknar á því, hvað þörf sjávarútvegsins er mikil. Og það verður aldrei að gagni að bera fram slíkar till. án þess.

Hvers vegna er ekki með þessu frv. létt t. d. gjaldi af ísfiski? Rökin fyrir því yrðu að vera þau, að ísfisksveiðar séu ekki reknar með tapi, eða að þetta sé svo lítið atriði, að það hefi enga þýðingu. Það er gerð grein fyrir því í nál. minni hl. og sýnt, hvernig togararnir hafa borið sig á ísfisksveiðum. Þar kemur í ljós, að meðaltap hvers togara á ísfisksveiðum hefir orðið 10489,11 kr. árið 1936 og meðaltapið á þessu ári 28730,22 kr. á togara. Nú er það víst, að útgerðin hefir verið rekin við mun betri skilyrði þessi ár heldur en líkur benda til, að verði næsta ár. Það hefir einnig verið athugað, hvernig mundi bera sig útgerðin næsta ár, ef sama verðlag helzt á fiski og sama aflamagn eins og á síðustu vertíð, en verðlag á útgerðarvörum eins hátt og nú er orðið og kaupgjald verður samkv. þeim kröfum, sem Sjómannafélagið hefir nú gert til útgerðarmanna. Með því móti mundi meðaltapið á hvern íslenzkan togara verða rúmar 40 þús. kr. Í þessum tölum held ég ekki sé hægt að rengja neitt, því að þær eru gerðar eftir nákvæmum reikningum útgerðarfyrirtækjanna. Ég sé ekki, hvernig fremur er hægt að réttlæta útflutningsgjald af ísfiski en saltfiski. Útgerðin ber hvorugt. Það er því meiri fjarstæða með ísfiskinn, að mikið af honum kemur aldrei í íslenzka höfn.

Vitanlega þarf ríkissjóður á öllu sínu að halda. En það er minni ástæða til að halda útflutningsgjaldinu nú, þegar hér eru á leiðinni á Alþingi skattafrumvörp, sem eiga að gefa milljónatekjur, — og bróðurpartinn á vitanlega að taka af sjávarútveginum, þó að óbeint sé. Ég vil því leggja til, að hv. deild samþ. heldur okkar frv. en þetta, sem hér liggur fyrir. A. m. k. óska ég þess, að frestað verði að gera út um málið. Ég vil segja frá því, að þetta sérstaklega ískyggilega útlit, sem við vitum, að er fyrir útgerðina, hefir leitt til þess, að nefnd hefir verið sett til að rannsaka og gera áætlanir um næsta ár, með það fyrir augum, að hægt verði að eiga tal um þetta við hæstv. ríkisstj. og þingflokkana, ýmsa þá, er eiga þátt í útgerðinni, og við stjórnir bankanna. Það þarf að finna ráð, sem duga, finna hvað á að gera til að bjarga útgerðarmálunum. Ég held það væri skoplegt, ef við hér á Alþingi þættumst ekki þurfa að líta á nein gögn, gætum gert út um slík stórmál með svona smáfrumvörpum, en þættumst upp úr því vaxnir að bíða eftir áliti mannanna, sem eiga ekki aðeins mest á hættu, heldur mesta þekkinguna. Þar sem nefndin vill ráðgast við alla aðilja og ekki mun líða á löngu, þangað til hún hefir lokið rannsóknum sinum, trúi ég ekki öðru en hv. þdm. sjái sér fært að bíða eftir því, svo alvarlegt sem útlitið er.