30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í B-deild Alþingistíðinda. (419)

105. mál, útflutningsgjald af saltfiski

*Frsm. meiri hl. (Bergur Jónsson) :

Ég óska ekki eftir að máli þessu sé frestað nú, þó að von sé á, að einhverjir menn ætli einhvern tíma að tala við okkur í sjútvn. um þetta mál.

Hvað snertir síðustu ræðu hv. frsm. minni hl., þá þarf ég ekki miklu að svara. Að sjálfsögðu er ekkert samræmi í því að ætla að afnema skatt, en gera það eitt, að binda hann í lánum um 16 ára skeið.

Hvað snertir það atriði, að útgerðin geti ekki sakir vöntunar á reiðufé, gert hagkvæm innkaup, vil ég benda á, að á síðasta flokksþingi Framsfl. var lögð sérstök áherzla á, að úr þessu þyrfti að bæta, og þá að sjálfsögðu bent á að nota til þess úrræði samvinnumanna, eða setja hámarksálagningu á vörurnar, og nú vill svo til, að fram er komið hér á Alþingi frv. um hámarksverð á vörum, sem að sjálfsögðu nær einnig til útgerðarvara. Annars held ég að bezta lausnin hvað þetta atriði snertir sé sú, að útgerðamenn myndi með sér félagsskap með innkaup á útgarðarvörum, eins og útgerðarmenn í Vestmannaeyjum hafa gert með sér, og ég veit, að Framsfl. telur enga lausn á þessu máli betri.

Hv. frsm. minni hl. lýsti vantrú sinni og útgerðarmanna á fiskimálanefnd, en gerði það þó með nokkuð vægari orðum en hann er vanur að gera. Ég verð nú að segja, að mér finnst einkennileg þessi sífellda vantrú sjálfstæðismanna á fiskimálanefnd, þar sem hún á að vera skipuð fulltrúum frá aðalstjórnmálaflokkum landsins, mönnum, sem kosnir eru af þeim aðiljum, sem hafa sérstakra hagsmuna að gæta á þessum sviðum. Annars vill svo vel til, að nú liggur einmitt fyrir að nefna menn að nýju í nefndina, og geta sjálfstæðismenn þá að sjálfsögðu beitt áhrifum sínum og atkvæðamagni til þess að fá þá menn inn í nefndina frá sinni hendi, sem þeir treysta.