08.12.1937
Sameinað þing: 11. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (42)

1. mál, fjárlög 1938

*Sigurður Kristjánsson:

Mér skilst, að hv. fjvn. eigi eftir að fara yfir mikinn hl. af þeim fjárbeiðnum, sem henni hafa borizt. Af þeim ástæðum mun það vera, að komið hafa fram tilmæli um, að ekki komi fram mikið af brtt. við þessa umr., heldur frekar dregið að koma með þær til 3. umr. Ég varð að mestu við þeirri ósk. Þó á ég hér tvær brtt., sem ég ætla að leyfa með að fara um örfáum orðum.

Fyrri brtt. er við 14. gr., um stofnkostnað héraðsskóla. Báðir hv. frsm. fjvn. hafa nú minnzt á þessa skóla, og sérstaklega hv. þm. A.-Húnv., sem lýsti allskorinort sinni afstöðu til þess máls. Skal ég nú ekki fara neitt út í það sérstaklega, hvort það sé réttmætt eða skynsamlegt að ætla stórmikið fé til þessara mála að þessu sinni. En það, sem fyrir mér vakir, er fyrst og fremst það, að þær fjárveitingar, sem í þessu skyni verða heimilaðar, komi skynsamlega niður. Nú hefir hv. fjvn. gert þá brtt. um þær fjárveitingar, að þær verði hækkaðar um 9 þús. kr. frá því, sem þær eru ákveðnar á fjárlagafrv., og jafnframt hefir fjvn. gert till. um, hvernig fénu skuli skipt á milli einstakra skóla. Ég geri nú ráð fyrir, ef þessi upphæð, sem hér er gert ráð fyrir, 28 þús. kr., verður samþ., þá muni ríkisstj. líta svo á, að með till. n. í hennar nál. sé í raun og veru gert út um það, hvernig fénu verði skipt. Ég vil nú á engan hátt spilla fyrir þeim skólum, sem n. ætlast til, að fái þarna riflegastar sneiðar. En hitt dylst mér ekki, að skipting hv. fjvn. er ekki byggð á þeirri réttsýni, sem jafnan þarf að ráða, þegar verið er að skipta slíkum fjárupphæðum milli stofnana. Ég sé ekki, að hv. fjvn. hafi farið að neinu leyti eftir því, sem virðist eiga að vera mælikvarði um úthlutanir slíks fjár, en það er í fyrsta lagi að taka tillit til þess, hvað þessar stofnanir hafa áður fengið bjá ríkissjóði, og í öðru lagi, hvaða afrek þessar stofnanir vinna um að fræða nemendur sína, bæði hvað nemendafjölda snertir, lengd starfstíma og hagnýtingu þeirrar fræðslu, sem þar er ætlazt til, að fari fram. Sá skóli, hvers hlutur hér er gerður minnstur, er Reykjanesskólinn í Norður-Ísafjarðarsýslu. Um þann skóla er það að segja, að hann hefir engan styrk fengið enn til byggingar, og mætti eftir því ætla, að hann fengi stærstu sneiðina. En þar hafa till. fjvn. orðið alveg öfugar við það eðlilega. Ég leyfi mér að skýra frá því hér með, að aðstandendur þessa skóla hafa þegar, eftir því sem Þórir Baldvinsson, starfsmaður hjá byggingar- og landnámssjóði, hefir lauslega áætlað, lagt fram um 55 þús. kr. En byggingarkostnaður skólans er áætlaður alls um 150 þús. kr. Nú fer skólanefnd og aðrir aðstandendur þessa skóla fram á, að ríkissjóður leggi fram um helming af þessari upphæð, þó ekki í einu, því að í því augnamiði er aðeins farið fram á 15 þús. kr. fjárveitingu á árinu 1938. Ég vil nú benda þeim fáu hv. þm., sem hér eru viðstaddir, á, hver rök liggja að því, að þessar 15 þús. kr. ættu að veitast, ef á annað borð er veitt nokkur veruleg fjárhæð til héraðsskóla. Skóli þessi starfaði á síðastl. ári í 10 mánuði, og er ætlað, að hann muni starfa næstum allt árið, eða 12 mánuði að undanteknum tveimur vikum, einni viku að vori og einni viku að hausti. Á síðasta skólaári naut þar kennslu 241 nemandi. Til samanburðar skal ég geta þess um skólann á Núpi í Dýrafirði, sem af hv. fjvn. er ætlaður hæsti styrkur og ég í engu ætla að mæla á móti, að hann fái, að sá skóli starfaði á siðasta ári í 6.mánuði með 28 nemendum, að ég held. Það virðist vera einkennileg hlutföll, að sá skóli, sem áður hefir fengið styrk til byggingar og starfað hefir í 6 mánuði yfir árið með 28 nemendum, á að fá helmingi hærri upphæð frá því opinbera heldur en sá skóli, sem starfað hefir í 10 mánuði yfir árið með 241 nemenda og ætlað er framvegis að starfa allt árið. Einnig er á það að líta, að Reykjanesskólinn mun hafa verklega kennslu allverulega með höndum og að nemendur skólans vinna jafnhliða bóknáminu ýmislegt að byggingum, og hafa síðan nemendur alveg sérstök námskeið í byggingum úr steinsteypu og einnig í ýmiskonar ræktun, sem fram fer á landi skólans, garðrækt, túnrækt o. s. frv. Skilyrði eru þarna geysigóð. Og það verður sjálfsagt ekki við það ráðið, jafnvel þó einhver vildi stemma stigu fyrir það, að þessi skóli hlýtur að verða höfuðunglingaskóli Vesturlands, vegna þessarar góðu aðstöðu og líka hins, hversu myndarlega á skólamáli þessu hefir verið tekið af héraðsbúum sjálfum með fjárframlögum til skólans, og vegna þess, hve fólkið sækir skólann vel. Það má vel vera, og ég skal ekki mæla gegn því, að ríkissjóður hafi ekki verið fær um að leggja mikið fé fram til slíkra hluta undanfarin ár né heldur nú. En ég efast þó um, að hann verði færari um það síðar. Samkv. l. og venjum um héraðsskóla er sennilegast, að ef ríkissjóður synjar um þessa fjárveitingu nú, þá muni hann verða að leggja því ríflegar fram til þessa skóla á næstu árum. Nú munu aðstandendur skólans leggja fram fé strax á móti framlagi ríkissjóðs.

Og byggingar þær, sem fyrirhugaðar eru við skólann, eru tvær heimavistarbyggingar, og á þeim verður byrjað, hvernig sem þetta þing tekur undir þessa fjárbeiðni. Ég vil nú leyfa mér að fara fram á, að brtt. hér á þskj. 280, um að upphæð framlagsins til héraðsskóla verði 38 þús. kr., verði samþ. og að þessum skóla verði ætlaðar 15 þús. kr. þar af. Og ég geri fastlega ráð fyrir, þótt þetta yrði ekki samþ. nú, að þá muni verulegt fé verða lagt fram staðar til þessa skóla. Því að það mun sýna sig, að þessi skóli mun ryðja sér það til rúms, að það mun þykja verðugt að styrkja hann, og enda ekki þykja annað fært, vegna þeirra venja, sem ríkja um þessi mál. Vænti ég nú, að hv. fjvn. muni athuga þetta mál áður en til atkvgr. kemur um það. Mér er afarkært, að hv. n. komist að skynsamlegustu niðurstöðu um þetta mál. Því að vitanlega ber hv. fjvn. fyrst og fremst að leiðbeina hv. þm. um þessa hluti. Og svo er á hitt að líta, að n. þessi er svo fjölmenn, að það er vonlítið að koma fram málum, sem kosta útgjöld úr ríkissjóði, sem hún leggst beint á móti. En það er hinsvegar algerlega óviðeigandi, að hv. fjvn. skammti þessar og þvílíkar fjárveitingar af handahófi. Líka er það ekki viðeigandi, að hún rökstyðji ekkert mál sitt fyrir hv. þingheimi í þessu efni; á því er a. m. k. stór þörf, að mér sýnist, þar sem lítur út fyrir, að hv. þm. séu þeirrar skoðunar, að þeir eigi ekki að hlusta á mál manna né vita neitt annað um það, sem greiða á atkv. um, en það, hvað flokksstjórnir þeirra hafa ákveðið. Það getur náttúrlega verið ákaflega þýðingarlítið að flytja mál sitt, ef þannig er í pottinn búið, að hv. þm. eru þess ekki sjálfráðir, með hverju og móti hverju þeir greiða atkv.

Þá á ég hér aðra brtt. á sama þskj., við 15. gr. Það er þessi gr., sem sífellt er höfð að umtalsefni á mannfundum og hvar sem menn hittast, og hefir inni að halda ýmiskonar styrk til einstakra manna. Þeir hafa í mín eyru, þessir menn, þó að þeir eigi enga sök á því, verið kallaðir sníkjudýr og öðrum niðrandi nöfnum, fyrir að þiggja styrk úr ríkissjóði. Og þessir styrkir vaxa mönnum svo í augum, að þegar um þá er rætt, þá er eins og fjárhagur ríkisins velti algerlega á því, hvort þar er einum manni fleira eða færra og 100 kr. meira eða minna er veitt til hvers eins þeirra. Ég athugaði, hvað styrkir til einstakra manna á þessari gr. næmu miklu, og líklega eru þeir ekki fjarri 30 þús. kr. Við erum að því komnir að samþ. fjárl., sem verða nokkuð hátt á öðrum tug millj. að útgjöldum. Í samanburði við það virðist þetta því ekki mikil upphæð. Í þessari upphæð eru ekki ómerkari menn heldur en Bjarni Sæmundsson fiskifræðingur, sem hefir 6 þús. kr., og ýmsir fræðimenn, sem ég held, að ekki fari illa með sína styrki, svo sem Guðmundur Finnbogason, Árni Pálsson prófessor, Þorkell Jóhannesson rithöfundur, og ýmsir merkir menn, sem ég gæti talið upp, sem eru starfandi að fræðilegum efnum og sannarlega eru ekki illa að því komnir, þótt þeir séu styrktir. Hér vantar að vísu þá menn, sem eru á 18. gr., og ýmsa styrki til manna, sem taldir eru með óþörfum greiðslum og bitlingum. En það fer ákaflega illa á því, að þing, sem lætur fara í gegnum greipar sínar tugi og hundruð þús. til ýmissa mjög svo vafasamra hluta og afgreiðir fjárl., sem almenningur álítur ofvaxið landsfólkinu að rísa undir, láti sér sæma slíka smámunasemi, sem lýsir sér í þessu sífellda umtali um þessa styrki. Þeir, sem murka lífið úr styrkjum til námsmanna, sem svelta sig fyrir nám sitt, utan lands og innan, vita ekkert, hvað þeir gera. Ég tel ófært að telja svo mikið eftir þessa smástyrki sem sífellt er gert.

Ég hefi lagt til, að tveir menn, sem eru félausir, en hafa um mörg undanfarin ár barizt mjög heiðarlegri og góðri baráttu á sviði listar, þeir söngvararnir Sigurður Skagfield og Eggert Stefánsson, fái 2 þús. kr. hvor í styrk til þess að halda áfram starfi sínu og fullkomna sig í sinni list. Þetta er nú á 15. gr., svo að það her ekki að skoða það sem fastan styrk; og held ég að hér sé ekki freklega á tekið. Þó hefi ég, með tilliti til skapsmuna hv. þm., sem mér virðist ég hafa rekið mig á undanfarið, sett til vara 1200 kr. til hvors þessara manna. Ég vil vænta þess, af því að hv. fjvn. er ekki búin yfirleitt að taka afstöðu til styrkbeiðna, að hún, áður en atkvgr. fer fram, taki til velviljaðrar athugunar, hvort hún geti ekki fallizt á, að þessir menn hljóti þennan litla styrk í þetta skipti. Um það getur ekki verið að ræða, að mennirnir séu þess ómaklegir, og ég held, að ekki geti heldur verið um það að ræða, að fjárhagur ríkisins velti sérstaklega á því, og ekki einu sinni þeim útgjaldabálki, sem talinn hefir verið styrkir, því að þótt fyrir séu margir, þá eru þeir svo smáir, að þeir gera enga verulega upphæð.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta, en ég vona, að þeir hv. þm., sem mál mitt hafa heyrt, láti það berast til þeirra, sem fjarstaddir eru, hvað ég fer fram á, og þeir sansist á, að þingsómi þeirra er ekki bundinn við að murka lifið úr öllum styrkjum til verðugra og þurfandi manna.