23.11.1937
Neðri deild: 33. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 364 í B-deild Alþingistíðinda. (469)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

Flm. (Finnar Jónsson) :

Ég get verið ánægður með þá hóflegu gagnrýni, sem hv. þm. Snæf. hefir komið með gagnvart þessu frv. Hann sagði í upphafi síns máls, að með þessu frv. væru málefnin lögð undir eina n., sem sé fiskimálanefnd. Þetta er, eins og hann benti réttilega á í niðurlagi síns máls, ekki rétt, því þessi mál heyra beint undir ráðh. Fiskimálanefnd getur ekki gert neinar ráðstafanir nema hafa til þess samþykki atvmrh. Þar sem hv. þm. Snæf. talaði um, að fiskframleiðendur gætu ekki komið að sinni skoðun í fiskimálanefnd, þá er það ekki rétt, því fiskimálanefnd er samansett á þann veg, að Félag íslenzkra botnvörpuskipaeigenda á einn mann í n., Fiskifélag Íslands á einn mann í n., Samband íslenzkra samvinnufélaga á einn mann í n. Það eru þarna 4 virðulegar stofnanir, sem tilnefna sinn manninn hver í n. Það er því ekki rétt hjá hv. þm. Snæf., að fiskframleiðendur í gegnum þessa fulltrúa hafi ekki rúman aðgang að n. En auk þess hafa þeir vitanlega aðgang að n. fyrir milligöngu hinna þingkjörnu fulltrúa.

Út af því, sem hv. þm. Snæf. sagði um rækjuframleiðsluna, þá vil ég taka það fram, að rækjuveiðar voru upphaflega stundaðar af 2 Norðmönnum, sem voru búsettir á Ísafirði, en þær veiðar voru að meira eða minna leyti styrktar af bæjarstjórn Ísafjarðar. Síðan gekk bæjarstjórn í það, að fiskimálanefnd styrkti þessar rækjuveiðar. Það er ekki rétt, að ég hafi nokkurn tíma verið búinn að gefa kost á því, að taka þátt í fyrirtæki til þess að hrinda þessu máli í framkvæmd. Það var að vísu komið til máls við mig um þetta, en ég gaf ekkert svar við því og sagðist mundu bera mig saman við mína flokksmenn á Ísafirði. Eftir að ég hafði borið mig saman við mína flokksmenn á Ísafirði, þá þótti réttara, að bæjarstj. beitti sér fyrir því að koma upp rækjuverksmiðju. Hún var síðan stofnsett með lánsfé frá fiskimálanefnd og lítilsháttar styrk. Rækjuverksmiðjan hefir verið rekin í 2 ár, og munu verða útfluttar rækjur á þessu ári fyrir um 200 þús. kr. miðað við fobverð. Þó hafa rækjuveiðarnar brugðizt að töluverðu leyti vegna ógæfta og vegna þess, að rækjurnar hafa verið af skornum skammti. Rekstur þessarar verksmiðju hefir sýnt sig að vera þannig, að bæði 1 ár og í fyrra hefir nokkur halli orðið á rekstrinum, en þó ekki verulegur, þegar tekið er tillit til, að þetta er byrjunarstarfsemi, og stafar það af því, að það hefir sýnt sig, að rækjuveiðar eru ekki nógu stöðugar til þess að verksmiðjan hafi nógu mikið að gera, þannig, að vextir og laun til þeirra, sem vinna við fyrirtækið, og annar kostnaður verði ekki of þungur, þar sem tíminn er svo stuttur, sem hægt er að veiða rækjurnar. Ég hygg, að reksturinn hafi sýnt það, að rækjuframleiðslan á að vera undirstaðan undir rekstri verksmiðjunnar, þannig, að aðrar tegundir sjávarafurða séu teknar með og soðnar niður á þeim tíma, sem rækjur veiðast ekki. Ég tel það ekkert undarlegt, þó fyrirtækið hafi ekki sýnt arð fyrstu 2 árin, og er það í rauninni furða, að svo vel hefir tekizt um reksturinn, sem raun er á orðin. En það er rétt að ítreka það, að þessi iðnaður er kominn á fót fyrir tilstilli fiskimálanefndar, þó bæjarstj. Ísafj. hafi tekið að sér rekstur verksmiðjunnar.

Út af því, sem hv. þm. sagði um harðfiskinn, þá þarf engan að undra, þó litið hafi verið hert af fiski á aflaleysisárunum 1935 og 1936. Ef þorskaflinn hefði verið þá eins og hann var 3 árin undanfarin, þá er enginn vafi á því, að mikið hefði verið hert af fiski á árunum 1935– 1936. En eins og kunnugt er, þá brást þorskaflinn alveg þessi ár, og það var ástæðan fyrir því, að ekki var hert meira. Nú á þessu ári er harðfisksútflutningurinn um 400–600 þús. kr., og er það nær eingöngu útflutningur vöru, sem var siður að kasta, sem sé ufsa. Þarna er um að ræða hagnýting á fiski, sem áður var mjög verðlítill sem saltfiskur eða verðlaus, þar sem honum var oft kastað í sjóinn.

Þó að einhver samþykkt hafi komið frá Sölusambandi íslenzkra fiskframleiðanda, þá er það síður en svo sönnun fyrir því, að störf fiskimálan. hafi ekki verið hagnýt. Það veit bæði ég og hv. þm. Snæf., að á aðalfundi S. Í. F. eru að miklu leyti samankomnir sjálfstæðismenn, sem eru pólitískir andstæðingar þeirra flokka, sem stóðu að stofnun fiskimálan., og þeir fylgja Sjálfstfl. í því, að þeir eru á móti því, að vandræði sjávarútvegsins séu leyst á þann hátt að láta fiskimálan. starfa. Samþ. frá S.Í.S. fundum eru þess vegna ekkert frekar dæmandi um störf fiskimálanefndar heldur en t. d. samþykktir frá þingmálafundi í Keflavík, þar sem sjálfstæðismenn eru í stórum meiri hl. Það er sagt að vísu í frv., að fiskimálanefnd geti veitt hvort heldur er lán eða styrk til að stofna niðursuðuverksmiðjur eða hraðfrystihús. Það er ekki ætlazt til, að veitt séu fyrst og fremst lán, heldur hvort heldur er lán eða styrkur, eftir því, hvort betur hentar. Það er svo, að ýmsir vel stæðir menn eða félög hafa sett upp eða munu setja upp hraðfrystitæki í íshús, og þurfa því ekki á styrk að halda. Það gæti komið sér vel fyrir slíka menn eða félög að geta fengið lán til skamms tíma. Það virðist ekki nóg ástæða til að rýra starfsfé fiskimálasjóðs með því að gera fiskimálasjóði að skyldu að veita styrk úr sjóðnum til vel stæðra fyrirtækja, sem ekki þurfa á styrk að halda. Aftur á móti eru sumir svo staddir, að það eru ekki nein ráð fyrir sjómenn og útgerðarmenn að koma upp hraðfrystihúsum nema að fá til þess beinan styrk. Ég hygg, að það muni verða erfitt fyrir stað eins og t. d. Ólafsvík að koma upp hraðfrystihúsi, nema að fá til þess beinan styrk. Ég fyrir mitt leyti felldi mig betur víð að hafa það ákvæði, að heimild væri til hvors tveggja, svo að þeim stöðum, sem illa eru farnir vegna fátæktar og atvinnuleysis, verði veittur styrkur, en hinum, sem ráð hafa á því að setja upp hraðfrystitæki í hús sín. verði frekar veitt lán.

Hv. þm. Snæf. vildi halda því fram, að Alþfl. væri að nota hvert tækifæri til þess að semja sig frá fyrri hugsjónum. Nú höfum við í Alþfl. á undanförnum árum, eða frá því að vandræði sjávarútvegsins byrjuðu, verið reiðubúnir til að hafa forgöngu í því að leysa vandræði sjávarútvegsins á sem hagkvæmastan og framkvæmanlegastan hátt. Ég veit, að við höfum ekki gert okkur seka í því að koma fram með tillögur á Alþingi um stór fjárframlög til sjávarútvegsins, án þess að sjá fyrir tekjustofnum í staðinn, eins og sjálfstæðismenn gera sig oft seka um.

Í því frv., sem hv. þm. Snæf. gat um áðan, að Alþfl. hefði flutt á síðasta þingi, er gert ráð fyrir aðalatriðum þeim sömu og eru í þessum till. Þar var gert ráð fyrir, að ríkið veitti styrki til niðursuðuverksmiðja og veitti styrki eða lán til stofnunar hraðfrystihúsa. Það var ennfremur gert ráð fyrir, að ríkið legði fé fram til kaupa á nýtízku togurum. Eins og hv. þm. Snæf. réttilega benti á, þá vann Alþfl. ekki þann sigur í kosningunum, að hann gæti haldið fast við þessar till. Ennfremur hafa eins og hv. þm. Snæf. henti á, vandræðin með saltfisksveiðarnar haldið áfram. Eigi að síður eru fyrir hendi allar sömu ástæðurnar, sem voru fyrir hendi, þegar við fluttum frv., sem hv. þm. Snæf. gat um. En það er nauðsynlegt, að gengið sé úr skugga um, hvort ekki sé hægt með góðum árangri að halda uppi togaraútgerð frá Íslandi með nýtízku togurum. Hv. þm. sagði, að ef elzti togarinn, Jón forseti, sem hingað kom 1907, væri við lýði, þá myndi hann vera álitinn sæmilegt skip. Hann væri álitinn það, en hann væri ekki talinn nýtízku togari, og þar skilur nokkuð á milli. Hann væri talinn sæmilegt skip eftir þeirrar tíðar mælikvarða, þó hann væri að ýmsu leyti útbúinn með öðrum tækjum en nýtízku togarar. M. a. eru nýtízku togarar almennt útbúnir tækjum til að kæla loft í fiskilestum skipsins, svo að geymsla fiskjarins er betri en hún áður var. Ennfremur eru nýtízku togarar útbúnir með tækjum til að vinna fiskimjöl úr fiskúrgangi. Það er sagt af kunnugum mönnum, að þetta beri góðan árangur. Hvorug þessi tæki eru til í neinum nýtízku togara, sem haldið er úti héðan frá Íslandi, nema fiskimjölsvélar í einum.

Nú vildi hv. þm. Snæf. fá að vita, hvort við útgerð þessara togara ætti að ráða stefna Framsfl. eða stefna Alþfl. og spurði, hvort heldur ætti að reka þessa togara með samvinnusniði eða það ætti að vera bæjarútgerð. Ég neita því, að samvinnuútgerð sé nokkurt stefnumál Framsfl. (TT: Hefir hv. þm. nokkurt umboð til þess). Ég hefi það umboð til þess, að ég hefi veitt forstöðu samvinnuútgerð í samfleytt 9 ár, og ég mótmæli því, að ég sé framsóknarmaður. Samvinnuútgerðin, sem ég veiti forstöðu, er ekki stofnuð af framsóknarmönnum, heldur af Alþfl. á Ísafirði. Það er því ekki réttmætt að krefjast þess, að hv. þm. taki það alvarlega, þegar hv. þm. Snæf. segir hér á Alþ., að samvinnuútgerð sé stefnumál Framsfl., þar sem vitað er, að elzta og stærsta samvinnuútgerð á landinu er stofnuð og starfrækt af Alþfl. Að öðru leyti vil ég benda á, að þó svo kunni að virðast, að ýmsir alþýðuflokksmenn álíti, að betra væri að reka þessa togara, sem í ráði er að kaupa, í bæjarrekstri, þá má benda á það, að Alþfl. hefir a. m. k. eins og sakir standa ekki nein ráð í hendi sér til þess að skylda bæjarstjórn Reykjavíkur til þess að taka upp togararekstur. Hann hefir ekki í hendi sér nein ráð til þess, svo ef þannig skyldi fara, að Sjálfstfl. héldi áfram að hafa meiri hl. í bæjarstj. Rvíkur eftir bæjarstjórnarkosningarnar í vetur, sem vitanlega er æskilegt að ekki yrði, þá yrðu lagaákvæði um að styrkja togaraútgerð dauður bókstafur. (TT: Eru ekki fleiri bæjarstjórnir á landinu?). Ég geri ráð fyrir því, þó ekki sé það sagt beinlínis í frv., að gengið sé út frá því, að þessi tilraunrekstur með togara fari helzt fram í Reykjavík. Það má vel vera, að hv. þm. Snæf. vaxi það í augum að safna þurfi 225 þús. kr. til þess að koma á fót nýtízku togaraútgerð. Ég skal benda honum á, að í jafnfátæku bæjarfélagi og Ísafjörður er, þá var á sínum tíma safnað um 60 þús. kr. til þess að koma á fót samvinnuútgerð. Ég verð að segja, að Reykjavík hefir ólíkt betri ástæður til að safna 225 þús. kr. til að koma á fót togaraútgerð heldur en var á sínum tíma á Ísafirði að safna 60 þús. kr. til að koma þar á fót samvinnuútgerð. Ég held, að ef almenningur hefir trú á þessu, sem ég held, að margir sjómenn hafi, bæði vélstjórar, stýrimenn og skipstjórar, þá held ég, að það sé óþarfi að mikla þetta fyrir hv. þm., þó safna þurfi 225 þús. kr. til þess að koma á fót togaraútgerð með nýtízku sniði. Ég get sagt fyrir mitt leyti, að ég hefði verið miklu ánægðari með þetta, ef togararnir hefðu verið fleiri en 2, og þó sættum við okkur við það eins og ástandið er nú í landinu, að farið sé á stað með 2 togara. Og fyrir hv. þm. Snæf., sem virðist vera á mátti því, að farið sé á stað í togaraútgerð, jafnvel þó hún sé með samvinnusniði, ætti það ekki að vera umkvörtunarefni, að togararnir séu of fáir. Ég mótmæli því alveg, að Alþfl. sé með flutningi þessa frv. að semja sig frá sínum stefnumálum. Alþfl. er þvert á móti að semja um byrjun á framgangi þessa stefnumáls síns, — að vísu minni byrjun en við hefðum kosið, ef við hefðum verið einráðir um þetta.

Nú er ekkert sagt um það í frv. því, sem fyrir liggur, þó ég léti svo um getið áðan, að ég byggist við, að þessir togarar yrðu byggðir eða samið yrði um byggingu þeirra. Það er ekkert um þetta sagt, og það mætti auðvitað, ef hægt væri að flýta málinu meira á þann hátt og samt fá togara með nýtízku sniði, semja um kaup á nýjum togara.

Ég benti á, að þó svo væri, að fiskimálasjóður legði fram um 365 þús. kr. til kaupa á nýjum togurum, þá væri samt eftir af 2 ára tekjum fiskimálasjóðs 625–650 þús. kr. til annara útgjalda. Ég vona, að hv. þm. Snæf. sé mér sammála um það, eð þó þetta sé ekki geysistór upphæð, þá sé það þó sá upphæð, sem muni nægja til að byggja nauðsynleg hraðfrystihús á þeim stöðum, sem enn hafa ekki komið upp hraðfrystihúsum, og til, þess að styrkja þó nokkuð mikið væntanlegar niðursuðuverksmiðjur. Eins og hann gat um áðan, þá eru framkvæmdir í niðursuðu ekki komnar nema mjög skammt á veg hér á landi. Ég get upplýst það, að stofnsetning niðursuðuverksmiðju er ekki mjög dýr. Áhöld, vélar og annað er ekki sérstaklega dýrt. Og þegar farið er á stað með niðursuðu í tilraunaskyni, og þó nokkur áherzla sé á hana lögð, þá ætla ég, að sú fjárhæð, sem hér er lagt til, að varið sé í þessu skyni, sé nokkuð nærri réttu lagi. Í öðru lagi vil ég benda á, að búið er að reisa hraðfrystihús á nokkuð mörgum stöðum á landinu. Það er ekki sennilegt, að á næstu 2 árum verði varið meira en um 100 þús. kr. á ári til að byggja ný. Ég hygg, að eftir 2 ár, ef ekki opnast stórmarkaðir fyrir hraðfrystan þorsk, sem hvergi eru til nú, og þegar búið er að veita um 200 þús. kr. í viðbót til hraðfrystihúsa, þá muni nokkurn veginn vera séð fyrir hraðfrystihúsaþörfinni til að frysta kola og aðrar þær fisktegundir, sem frystar eru. Fari svo, að markaður finnist fyrir hraðfrystan þorsk, þá þarf að auka framlagið að miklum mun, en hraðfrysting á þorski hefir enn ekki náð þeim árangri, að ástæða sé til að gera ráð fyrir öðru en hún sé á beinu tilraunastigi, svo að ekki þurfi að auka framlagið stórkostlega til hraðfrystihúsa af þeim ástæðum.

Ég held svo, að ég þurfi ekki að eyða fleiri orðum að athugasemdum, sem hv. þm. Snæf. kom með viðvíkjandi þessu frv.

Ég vil benda á, að frv. gerir ráð fyrir, að stofnuð verði félög sjómanna og verkamanna og annara stuðningsmanna, sem kaupi þessa togara. Um rekstur og fyrirkomulag á þessu félagi fari síðan eftir þeim skilmálum, sem fiskimálanefnd setur, að fengnu samþykki ráðh., þó þannig, að ætíð verði óheimilt að selja eða veðsetja þann hluta skipanna, sem keyptur er fyrir þann styrk, sem veittur er úr ríkissjóði.

Þetta ákvæði er í samræmi við þá stefnu, sem núv. stjórnarflokkar hafa tekið upp um það t. d. að ekki sé hægt að selja jarðabótastyrk. Og þetta virðist sjálfsagt, því annars væri ekkert til fyrirstöðu, að hægt væri að fá á fjórða hundrað þús. kr. til að kaupa tvo togara fyrir, draga e. t. v. fé út úr rekstrinum, ef vel gengi, og græða þannig á því fé, sem fengið var úr ríkissjóði, eða selja togarana að vörmu spori með góðum hagnaði.

Hv. þm. Snæf. taldi, að þeir erfiðleikar, sem sjávarútvegurinn á í nú, væru þrem orsökum að kenna. Fyrst og fremst væru þeir að kenna ríkisstj. Í öðru lagi ósanngjörnum kröfum verkalýðsfélaganna. Og í þriðja lagi hrörnun saltfisksmarkaðarins. Ég er hissa á því, að hv. þm. Snæf., jafnskilgóður maður og hann er og kunnugur útgerðarmálum, skuli snúa þessum orsökum algerlega við, því hann veit það, og það veit hvert mansbarn á landinu, að örðugleikar sjávarútvegsins eru fyrst og fremst að kenna hrörnun saltfisksmarkaðarins og verðleysi á saltfiski. En aðrar ástæður, sem hv. þm. Snæf. kom með, ná ekki nokkurri átt, vegna þess, að í tíð núv. ríkisstj. hafa ekki verið settir neinir skattar eða álögur á sjávarútveginn, sem ekki voru þar á meðan sjálfstæðismenn réðu ríkisstjórninni. Má nefna kolatoll og salttoll og annað það, sem hvílir þyngst á togaraútgerðinni, gjöld til hafnarsjóða og annað slíkt. Þetta er allt komið áður en núv. stjórnarflokkar tóku við völdum. Það kemur því úr hörðustu átt, að hv. þm. Snæf. skuli halda því fram, að núv. stjórnarflokkar hafi íþyngt sjávarútvegnum með nýjum álögum, og ennfremur vitna í kaupgjald það, sem sjómenn og verkamenn bera úr býtum, sem er síður en svo hátt, að þeir geti almennt haft af því sæmilegt lífsviðurværi. Og fyrir þann, sem tekur há laun sem framkvæmdarstjóri fyrir að selja fisk landsmanna, virðist það koma úr hörðustu átt, að telja eftir þetta lága kaup sjómanna og verkamanna.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessar þrjár ástæður, sem hv. þm. Snæf. hefir borið fram sem ástæður fyrir vandræðum sjávarútvegsins, því það veit hvert mannsbarn í landinu, að vandræði sjávarútvegsins stafa fyrst og fremst af hrökun saltfiskmarkaðarins og verðleysi saltfisksins sem núv. ríkisstjórn ber enga sök á, og ekkert getur ráðið við, enda öll fiskverzlun í höndum sjálfstæðismanna.