24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 384 í B-deild Alþingistíðinda. (475)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Héðinn Valdimarsson:

Hér liggur nú fyrir frv. um hinar mestu fjárveitingar til sjávarútvegsins, sem fyrir þinginu hafa legið, og jafnframt gerast þau undur, að þeir, sem jafnan hafa þótzt bera hag sjávarútvegsins og. þá einkum togaraútgerðarinnar fyrir brjósti, snúast öndverðir gegn þessu frv. Hér er fyrst um það að ræða, að létta útflutningsgjaldinu af saltfiskinum, þá að stofna niðursuðuverksmiðjur og hraðfrystihús með opinberum styrk, og loks að styrkja tvo nýtízku togara. Það má því vera furðu mikið flokkshatur, sem veldur því, að sjálfstæðismenn dirfast að tala eins og þeir gera í þessu máli.

Ég vil fyrst víkja nokkrum orðum að því, sem hér hefir verið rætt um fiskimálanefnd. Það var að heyra á ræðu hv. 6. þm. Reykv., að öllu því fé, er fiskimálanefnd hefir fengið til umráða, hefði verið varið til ónýtis, eða verr en það. Ég vil í þessu sambandi benda á það, að auk þess sem þessu fé hefir verið varið til ýmissa markaðsleitartilrauna, sem borið hafa árangur, á nefndin líka allmiklar eignir. Ég vil t. d. benda á þurrkhjallana, sem metnir eru á 115 þús. kr., og útistandandi lán til Ísfirðinga, 100 þús. kr., og auk þess allmiklar birgðir af harðfiski og hraðfrystum fiski. Þá má og telja vélar, er keyptar hafa verið í frystihúsið Ísbjörninn. Annars mun aldrei hafa verið til þess ætlazt, að nefndin bæri sig sem fyrirtæki, heldur ættu atvinnuvegirnir að hagnast á því fé, er hún fengi til umráða. Hv. 8. þm. Reykv. nefndi til dæmis um sukk og ráðleysi nefndarinnar, að hún hefði varið miklu fé í kvikmynd af atvinnuvegum landsins, er reynzt hefði einskis virði. Það er rétt, að kvikmynd þessi reyndist ónothæf, en bæði var það, að upphaflega var til ætlazt, að þrír aðalatvinnuvegir landsins tækju þátt í kostnaði við hana, og að sá maður, er fyrir töku myndarinnar stóð, Guðm. Kamban, er einmitt einn af þeim, sem Íhaldið og ýmsir aðrir hafa hampað mjög hin síðari ár. Annars er það rangt, að ekkert væri í myndinni um fisk. En myndin reyndist ónothæf, eins og ég hefi þegar sagt, og því hefir nefndin fært verð hennar niður í 100 kr.

Ég vil þá víkja nokkuð að sölum sölusamlagsins í markaðsleitarskyni, til að sýna fram á, að þeir, sem standa því næst, ættu ekki að undrast þótt tap yrði á fyrstu tilraunasölum. Það er vitað og viðurkennt, að tap. varð á fyrstu tilraunasölu okkar til Póllands, en upp úr þeim tilraunum hefir þó hafzt markaður þar síðan. Um Ameríkusölurnar er öðru máli að gegna. Umboðsmaður sölusamlagsins, starfsbróðir hv. þm. Snæf., Kristján Einarsson, eggjaði til fisksölu þangað. En þó að hér ætti hlut að máli ein af hinum alvísu verum í framkvæmdastjórn sölusambandsins, gaf hann þó svo rangar upplýsingar um umbúnað fiskjarins, að allmikið tap varð á sendingunni. Þá var önnur sending útbúin eins og vera átti til sölu á Ameríkumarkaði, og í sama mund kom skeyti frá Jóni A. Jónssyni á Ísafirði til nefndarinnar, þar sem hann bað um að fá að senda 400 smálestir af fiski vestur, og leyfði nefndin þetta. En fiskimálanefnd varð fyrri til en Jón A. Jónsson, m. a. af því, að frystihús hans var ekki tilbúið, og sendi 130 smál. vestur, en hann 4–5 smál. Þetta sýnir, að allt skraf Kristjáns Einarssonar framkvæmdarstjóra sölusambandsins hefir verið tóm markleysa. Þessi reynsla hefir kostað peninga, og getur verið, að ef menn hefðu treyst minna á þessar framkvæmdir, þá hefði verið farið hægar í þessum málum. Því að það var reynt að taka svo mikið magn, án þess að reynsla væri fengin um söluna til Ameríku. En ég geri ráð fyrir, að þessi sambönd haldi áfram. (TT: Við fáum það ekki). Það er víst enginn vafi á, að þið fáið það. Karfavinnsluna hefi ég minnzt á. En hv. þm. Snæf. vill lítið úr gera, af því að lítið fé hafi eyðzt þar. Þar á það að vera sönnun fyrir því, að tilraunin hafi gefizt illa, að lítið hafi eyðzt. En sannleikurinn er sá, að þær ábyrgðir, sem fiskimálanefnd tók að sér, kostuðu ekki meira en þetta nú, en komu á stað allmiklum atvinnuvegi, sem síðan hefir verið haldið áfram af einstökum mönnum. Ég ætla, að það ætti að vera hrós, að þessar ráðstafanir hafi ekki kostað meira.

En um leið vil ég benda á, hve stórkostlega þessi mál hafa verið vanrækt af þeim, sem þóttust hafa forystuna, eins og t. d. Kveldúlfur, sem bæði hefir haft mörg skip og verksmiðjur til umráða. Þá má og minna á harðfiskinn, en útflutning hans hefir orðið allmikið að undirbúa, og hefir hann verið mikill atvinnuauki. Er þó enginn vafi á, að ef þessi nýbreytni hefði mætt meiri skilningi útvegsmanna, — ef „ljós“ allrar útgerðarinnar, bræðurnir í Kveldúlfi, hefðu sinnt meir þessu máli, hefði verið hægt að hafa miklu meiri atvinnu af harðfisksútflutningnum en enn er orðið, því að þeir, sem hann hafa stundað, eru satt að segja menn, sem þessi „ljós heimsins“ hafa ekki litið svo hátt á hingað til.

Þá dettur þeim ekki í hug að minnast á frystihúsatilraunirnar, nema hv. 6. þm. Reykv. virðist finna það að fiskimálanefnd, að hún sé í einskonar braski, þar sem hún sé farin að verzla með frystan fisk. Það er svo, að þessi nefnd má ekki gera neina tilraun og ekki reka verzlun, sem ber sig, eins og með þennan hraðfrysta fisk. Það, sem gerðist í þessum hraðfrystimálum, er í stuttu máli það, að í staðinn fyrir tiltölulega lítinn útflutning, sem sænska frystihúsið hafði, hefir komið mikill og vaxandi útflutningur, sérstaklega af hraðfrystum fiskiflökum, sem hefir vitanlega aukið atvinnu mikið, og keppast menn hvaðanæfa af landinu við að komast í samband við nefndina um þetta. Menn hafa fengið þessi sambönd í Englandi, áður óþekkt, með vöruvöndun, sem ekki var áður þekkt. Hefir verið fengin sérstakur maður frá Englandi til þess að kenna mönnum að fara með þessa vöru sem skyldi. Og fiskurinn er sendur með svo að segja hverju skipi, þegar pláss er fyrir hana, og er borgaður um leið, svo að þar er ekki heldur um áhættu að tala. Ég veit ekki til, að neinn, sem tekið hefir þátt í þessari verzlun, sé ekki ánægður með útkomuna. Og ég veit, að þeir, sem hafa stutt bróður hv. þm. Snæf. mjög sterklega, hafa sótzt eftir samböndum. Ef nefndin hefði ekki verið til þess að gera þessar tilraunir og koma þessum samböndum á, hvar værum við þá í þessu efni? Myndi h/f Kveldúlfur hafa gert nokkuð? Ekki bendir neitt á það. Þeir hafa ekki stigið eitt einasta spor í þessa átt, jafnvel þó að þetta sé búið að ganga í tvö ár.

Þá er að víkja að niðursuðunni. Hv. þm. Snæf. virðist halda fram, að rækjuverksmiðjan hafi komizt á fót án tilstuðlunar fiskimálanefndar, — og þá líklega önnur en sú, sem komst á fót hjá bæjarsjóði Reykjavíkur. Ég spyr: Hvers vegna kemst sú verksmiðja ekki á fót? Hvað er það, sem dvelur? Ekki þarf lán fiskimálanefndar til að koma henni upp. En sú verksmiðja, sem hefir komizt á fót, hefir komizt það bæði vegna áhuga manna, sem stóðu fyrir því á Ísafirði, bæjarstj. fyrst og fremst, og svo vegna þess, að fiskimálanefnd hefir lánað fé og stutt að tilraununum. Annars hefir verið meiri undirbúningur undir þetta af hálfu nefndarinnar, og ég geri ráð fyrir því, að það sé það, sem hefir hvatt sölusambandið nýlega til að gera ákvörðun um að nota varasjóð, 100 þús. kr., til fiskniðursuðn. Ég verð að segja, að það er mjög glæsilegt, ef sölusambandið tekur upp eitthvað af þeim málum, sem fiskimálanefnd hefir haft með höndum, og notar sitt fé til þess. En þar sem ég á sæti í sölusambandinu, veit ég, að þetta mál er ekki svo mikið á döfinni eins og hv. þm. Snæf. vill vera láta. Því að það er fyrst á aðalfundinum. sem komið hefir fram till. um þetta, og hefir ekki verið rætt á stjórnarfundi. Það mætti svona rétt geta þess, til þess að minna þessa menn á, hvernig þetta yfirleitt gengur í þeirra herbúðum, þar sem þeir þykjast berjast fyrir sjávarútveginum, að sölusambandið er búið að tapa einni millj. kr. á Spáni og Grikklandi til samans, sem að öllum líkindum mun ekki fást aftur. Mikið af því tapi er til komið þannig, að vörum var sleppt án þess að um leið væri tekin nauðsynleg trygging. Ef þessi milljón væri nú í höndum þeirra manna, sem vilja styrkja sjávarútveginn hér á þingi, þá væri hægt að gera meira en um er að ræða í þessu frv., og ættu þeir, sem gera ýmiskonar kröfur hér á Alþingi, að hugsa frekar um, hvernig þeir gætu náð þessari milljón inn.

Þessir hv. þm. virðast ganga út frá því sem gefnu, að ég ráði öllu í fiskimálanefnd. Fyrst og fremst eiga þeir meiri hl. í nefndinni. Í fiskimálanefnd eru tveir menn frá bönkunum, Júlíus Guðmundsson og Helgi Guðmundsson. Þar er Kristján Bergsson, forseti Fiskifélagsins, og Guðmundur Ásbjörnsson, kosinn af togaraeigendum. Þessir menn geta með öllum rétti talizt til Sjálfstfl. Þeir eru í meiri hluta, og á móti meiri hl. er að sjálfsögðu ekki hægt að gera neitt. Þá er maður frá Framsfl., sem er forstjóri skipaútgerðar ríkisins, og maður frá Alþýðusambandinu, Jón Axel Pétursson, og ég. Ég verð að segja, að það er dálítið undarlegt, ef ég á að hafa svona mikið vald yfir öllum þessum mönnum, ekki aðeins framsóknarmanninum og flokksbróður mínum, heldur yfir fjórum sjálfstæðismönnum, svo að þeir geri alla hluti beint á móti hagsmunum sjávarútvegsins og eyði fé bókstaflega í vitleysu. Ég efast ekki um, að þessir hv. þm. hagi orðum sínum öðruvísi, þegar þeir tala við þessa menn. Þeir vita betur en þeir segja hér á þingi, vegna þess að þeir hafa aðgang að þessum mönnum og geta frétt frá þeim, af hvaða ástæðum allar ráðstafanir fiskimálanefndar eru gerðar. Loks má benda á, að allar ráðstafanir, sem kosta fé og, ekki eru innifaldar í venjulegum daglegum rekstri, eins og hraðfrystistöðin í Reykjavík, eru bornar undir ráðuneytið og fengið leyfi þess til útgjaldanna. Það er áreiðanlega meir af vilja en mætti—meir af öfund en nokkru öðru, sem þessi orð hv. þm. koma fram gagnvart fiskimálanefnd.

Ég mun svo ekki skipta mér af því, sem hv. þm. Snæf. vék að ráðh. og þm. Ísaf., að öðru leyti en því, sem hann talaði um nýja togara. Ég veit, að hv. þm. muni vera það ljóst, þó að bann segi það ekki, að ný skip muni verða ódýrari í rekstri en gömul skip og nýtingin á afurðunum verða á ýmsan hátt hagkvæmari, þannig að rekstrarafkoman hljóti að verða betri. En auk þess er hægt að haga útgerðarrekstrinum á ýmsan hátt öðruvísi en þau félög hafa gert, sem stærst hafa verið hér í útgerð áður. Það er ekki sagt hér í frv., hvaða fyrirkomulag eigi að vera á þessu útgerðarfélagi verkamanna og sjómanna. En það má fyllilega gera ráð fyrir, að það verði sett algert bann við því að veita fé úr þessum fyrirtækjum til eigendanna umfram eitthvert lágmarks hundraðsgjald af hlutafénu. En það er ekkí hægt að segja um þau hlutafélög, sem hér starfa í sjávarútveginum, að svo hafi verið búið um hnúta, að ekki væri hægt að veita milljónum úr þeim frá sjávarútveginum, út í landbúnaðinn og út í eyðslulíf manna. Slík skil

yrði og önnur eins eiga auðvitað að geta gert reksturinn hagkvæmari en hefir verið hingað til, hvort sem þau eru nóg eða ekki. Það mun reynslan sýna.