24.11.1937
Neðri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 389 í B-deild Alþingistíðinda. (477)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Sigurður Kristjánsson:

Hæstv. atvmrh. hóf mál sitt á því, að ég hefði verið nokkuð berorður um fiskimálanefnd. En ég vona, að ræða mín hafi verið með allri kurteisi, og rökin fyrir mínu máli sótti ég að mestu leyti í skýrslu n. og reikninga hennar. En það er satt, að út úr því plaggi má fá nokkuð harðar ásakanir á n., og það verður hún náttúrlega að þola.

Um ræðu hæstv. atvmrh. get ég hinsvegar sagt það, að hún var verulega hógvær og miklu minna gort í henni en oft hefir verið út af þessum fiskimálum. — Annars varð ég ekki var við, að hæstv. atvmrh. gerði einu sinni tilraun til þess að hnekkja þeim rökum, sem ég færði fram, og það er þess vegna óþarft fyrir mig að fara neitt frekar út í það, sem ég í minni fyrri ræðu sagði.

Hæstv. ráðh. sagði, að andmæli mín hefðu byggzt allmikið á því, að nefndin væri eyðslusöm, og hefði ég ámælt henni fyrir það að eyða því fé, sem hún hefði fengið til meðferðar, og var helzt á honum að skilja, að ég mundi jafnvel hafa viljað, að n. legði þetta fé fyrir. En þetta er mesti misskilningur. Ég lagði einmitt áherzlu á það, að tilgangurinn með því að stofna n. og fá henni allmikil fjárráð í hendur, hefði verið sá, að styrkja menn til þess að gera ýmsar tilraunir og nýbreytni í fiskveiðum, verkun og sölu sjávarafurða. En ég sýndi fram á, að styrkir, sem n. hefði veitt, hefðu verið tiltölulega mjög litlir, en langmest af fénu hefði farið í ýmiskonar rekstur hjá n. sjálfri. Þetta starf hefir, eins og ég rökstuddi, misheppnazt að mjög miklu leyti, og er þar að auki — að því er ég bezt veit — fyrir utan tilgang þingsins með því að fá n. mikil fjárráð. Ég er að sjálfsögðu því samþykkur, að ef n. er til og starfar, þá verji hún því fé, sem hún hefir til umráða, einungis til þess að styrkja þá menn, sem aðstöðu hafa, bæði hvað þekkingu og annað snertir, til þess að framkvæma nýtilega nýbreytni á sviði útvegsins. Ég er samþykkur því, að hún verji fé í þessu skyni, ef hún á annað borð hefir fjárráð. En auðvitað geta svo verið skiptar skoðanir um það, hvað heppin n. hefir verið í því að velja menn til að styrkja og í að velja tegundir tilrauna.

Út af þeim styrk, sem ætlaður er til togarakaupa, sagði hæstv. ráðh., og snéri sér þar til hv. þm. Snæf., að hann vildi gjarnan fá samvinnu um það, að framlag þeirra félaga, sem styrk fengju, yrði eitthvað lægra en 15%. Ég tók það fram í minni ræðu, að mér fyndist þetta framlag of lágt, og byggði ég það á því, að enda þótt 25% styrkur fengist og 15% framlag, þá væri eftir að afla 60% af andvirði togaranna, og er ólíklegt, að létt verði að afla þess fjár. Enda er það óeðlilegt, að þeir, sem leggja í fyrirtæki, eigi að leggja fram minna fé sjálfir heldur en styrknum nemur, sem þeir fá úr fiskimálasjóði. — Ég hefi haft tækifæri til þess að ræða þetta mál dálítið áður og hefi lýst mínum vilja í þessu efni opinberlega, og það oftar en einu sinni. Ég hefi skrifað um þetta í fjöllesið blað, og vil þess vegna, að mín afstaða til þessa máls — að styrkja togaraútgerðina — sé alveg tvímælalaus. Ég er alveg sannfærður um, að fiskveiðar Íslendinga eiga enga framtíð, ef togaraútgerðin getur ekki staðið. Það er vissulega sú tegund útgerðar, sem mest er í nýtízkusniði og tryggir langbezt afkomu þeirra, sem að útveginum vinna. En ég hefi lýst því yfir, að mín hugsun sé sú, að bæði bæjarfélög og ríkissjóður styrki menn til þess að halda útgerðinni áfram í nýtízkuhorfi, endurbæta hana og auka. Þar af leiðandi hefi ég ekki viljað, að sett væru nein takmörk fyrir því, hverjir yrðu þessa starfs aðnjótandi, enda er það eðlilegast, að það séu þeir menn og þau félög, sem haldið hafa uppi þessum atvinnurekstri á erfiðum tímum, engu síður en nýir menn. Ég held, að því verði ekki mótmælt, að þeir menn, sem eru starfandi á sviði sjávarútvegsins, standa að ýmsu leyti betur að vígi með að halda áfram rekstrinum heldur en nýir menn, og refsiverðir mega þeir á engan hátt teljast fyrir það, að þeir hafa barizt hinni góðu baráttu á erfiðum tímum. Sjónarmið mitt og þeirra manna, sem að þessu frv. standa, eru að því leyti ólík, að mitt sjónarmið er það, að stuðningur þess opinbera sé einungis miðaður við það, að útvegurinn geti haldið áfram, en þeirra sjónarmið virðist fyrst og fremst vera það, að koma upp einhverjum nýjum atvinnurekendum, án tillits til þess, hvaða skilyrði þeir hafa til þess að halda slíkum atvinnurekstri uppi með góðum árangri. — Það hafa hvað eftir annað verið gerðar ráðstafanir til þess að styðja bændur landsins í baráttu þeirra nú á þessum erfiðu tímum, sem yfir standa, og mér þykir ólíklegt, að þeir menn, sem telja sig sérstaklega málsvara bændastéttarinnar, mundu telja það eðlilegast, að slíkur styrkur væri bundinn við það, að engir núv. bændur fengju að njóta hans, heldur aðeins þeir menn, sem hefjast vildu handa sem nýgræðingar á sviði landbúnaðarins. Það væri t. d. merkilegt, ef stuðningur til bænda út af þessu nýja böli þeirra, mæðiveikinni, ætti að bindast við menn, sem vildu hefja búskap og kynnu að verða fyrir búsifjum af þessari veiki, en hinir, sem staðið hefðu í baráttunni og búnir voru að bíða mikið tjón af þessum sökum, mættu bara fara til fjandans.

Ég þarf ekki að svara þeirri firru, sem fram hefir komið bæði hjá hv. þm. Ísaf. og hæstv. atvmrh., að engar íþyngingar og álögur á sjávarútveginn hefðu átt sér stað síðan núv. stjfl. komu til valda. Hv. þm. Snæf. hefir glögglega sýnt fram á, hver firra þetta er. En jafnvel þótt engar álögur og engar nýjar íþyngingar hefðu átt sér stað, þá er það vitanlegt, að þessi atvinnurekstur er nú á þessum erfiðleika-tímum miklu síður fær um að standa undir sínum álögum heldur en þegar fyrst var byrjað að láta hann bera verulegar álögur. Það er t. d. vitað, að þegar útflutningsgjald af fiski var fyrst lögleitt, þá var hagnaður af því að reka útgerð, og var það því ágóðahluti, sem ríkið var þar að seilast til. En nú er ekki um neinn ágóðahluta að ræða, og það er svo oft búið að sýna fram á erfiðleika útvegsins nú fram yfir það, sem áður var, að óþarft er að bæta þar nokkru við. Aðeins vil ég minna á það, að ekki eru mörg ár síðan verkun á skippundi af fiski kostaði ekki nema 4,50–6 kr., en kostar nú yfir 20 kr., og þó er verðið engu betra, sem fæst fyrir fiskinn. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, að útvegurinn þarf miklu meiri tilhliðrunarsemi og velvilja frá því opinbera heldur en áður. Nú þarf hann stuðnings við, í stað þess að áður gat hann mjög vel stutt ríki og sveitarfélög, sem leggja á hann útgjöld.

Hæstv. atvmrh. vildi vefengja, að rétt væri með farið hjá mér, að í kvikmynd þeirri, sem hér hefir verið rætt um, hafi engar myndir verið af fiskveiðum landsmanna. Í skýrslu n. sjálfrar segir, að mynd þessi hafi verið tekin í þeim tilgangi að sýna hana erlendis, til þess að kynna mönnum fiskveiðar Íslendinga og þá framleiðslu, sem þeir hafa með höndum. En svo segir í framhaldi af þessu: „Engar myndir höfðu verið teknar af fiskveiðunum, og aðeins fáeinar lítilsháttar myndir frá landbúnaðinum, en aftur á móti margar myndir úr samkvæmislífi á Hótel Borg“. — Þetta segir nú n. sjálf, svo að ég hygg, að ég hafi ekki ofmælt mig í minni ræðu. — Hæstv. atvmrh. vildi ekki viðurkenna, að Guðmundur Kamban væri prófessor, af því að hann sjálfur hefði ekki gert hann það. En í skýrslu n. er komizt svo að orði: „Í öndverðum júlí 1935 hóf próf. Guðm. Kamban máls á því við fiskimálanefnd, að nauðsynlegt væri, að tekin yrði kvikmynd frá Íslandi, einkum af aðalatvinnuvegum landsins, fiskveiðum og landbúnaði “. . . . Nú er það viðurkennt, að þessi kvikmynd hefir mistekizt. En mér skilst á hæstv. ráðh., að n. eigi ekki að vera ámælisverð fyrir það, vegna þess, að maðurinn, sem fyrir þessu verki stóð, hafi ekkert vit haft á því. En hverjir áttu að sjá um að velja til þessa hæfan mann? Var það ekki einmitt n. sjálf, sem lagði í þetta fé? En þetta er í samræmi við ýmislegt fleira, sem n. hefir látið gera, því að það virðist flest hafa verið gert af mönnum, sem heldur lítið vit höfðu á sínu verki.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að þetta frv. hefði í sér fólginn hinn stórfenglegasta styrk, sem enn hefði verið veittur útgerðinni, og þótti það undarlegt, að við sjálfstæðismenn, sem annars hefðum haldið mjög stíft á málum sjávarútvegsins, skyldum berjast á móti þessu frv. En það stafar aðeins af því, að við teljum ekki, að þessi leið, sem hér er farin, horfi til verulegs stuðnings fyrir sjávarútveginn. Og það er ekki aðeins álit okkar, heldur og þeirra manna, sem við útgerðina fást, að fiskimálanefnd hafi á margan hátt orðið útgerðinni til ógagns. Hinu er sjálfsagt ekki að neita, að í einstökum atriðum hefir hún haft viðleitni til þess að vinna útgerðinni gagn, en þar hefir henni bara oft mistekizt leiðinlega.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv., að ég hefði alveg gengið framhjá því, að fiskimálanefnd ætti eignir. Þetta er ekki rétt. Eftir reikningum n. hefir hún sér eignareikning og sér rekstrarreikning, og það var rekstrarreikningurinn, sem ég rakti. Ég lét það gott heita, að það, sem n. telur til eigna, væri eignir. En ég ræddi aðallega um það, hvernig hún hefði varið því fé, sem hún hefði eytt fram yfir tekjur sínar. En úr því að hv. þm. vakti máls á þessu, skal ég gjarnan taka það fram, að það fé, sem n. hefir haft til umráða, er miklu meira en fram kemur á rekstrarreikningnum, því að þar er yfirleitt ekkert talið, sem til eignanna heyrir. En því er ekki að neita, að þessar eignir, sem n. nú telur, eru að langmestu leyti líka tapað fé. Það eru taldar á annað hundrað þúsund kr. í fiskhjöllum. Ég hygg, að við getum nú verið sammála um það, að jafnvel þótt þessir fiskhjallar hafi orðið framleiðslu landsmanna til einhvers stuðnings, þá sé þar ekki um neitt nýmæli að ræða. Og enda þótt svo hefði verið, þá munu þessar fúnandi spýtur víðsvegar um landið ekki vera verulegu mikið verðmæti fyrir nefndina. En við því væri ekki mikið að segja, ef féð hefði að öðru leyti komið að verulegu gagni. — Svipað er að segja um þau lán, sem n. hefir veitt, rúmar 100 þús. kr., að ganga má út frá því sem vísu, að mest af þeim sé tapað fé. Annars er þetta ekki sundurliðað hér á eignareikningi, svo að ekki er vert að kveða upp um það ákveðinn dóm. En þar sem þetta fé mun að langmestu leyti hafa verið veitt til ýmissa tilrauna, þá mun það, hvort hægt er að endurheimta þetta fé eða ekki, vera undir því komið, hvernig þau fyrirtæki, sem féð hafa fengið, bera sig í framtíðinni.

Þá sagði hv. 3. þm. Reykv., að S. Í. F. hafi í ýmsu tekizt illa, og virðist sem hann vilji telja, að okkur farist ekki að ámæla fiskimálanefnd, því að þar hafi ekki tiltölulega verið um meiri misheppnanir að ræða. Við höfum nú báðir verið í stjórn þessa fyrirtækis, og ættum því að vita. hvernig fisksölurnar hafa tekizt. Vitanlega væri það ekki óeðlilegt, að á jafnerfiðum tímum, sem undanfarin tvö ár hafa verið, hefði einhver óheppni átt sér stað. En ég man ekki eftir einni einustu sölu, sem stjórn S. Í. F. hefir verið sérlega óánægð með, og svo mikið er áreiðanlegt, að eigendur fisksins hafa yfirleitt lokið miklu lofsorði á sölurnar. Það væri þess vegna viðkunnanlegra, að hv. 3. þm. Reykv. reyndi að færa einhver rök fyrir þessu máli sínu.

Það er útúrsnúningur hjá hv. flm. frv., er hann reynir að láta það svo heita, að við sjálfstæðismenn viljum ekki styðja sjávarútveginn. Það er vitað af öllum, að stuðningur við sjávarútveginn er fyrsta krafa okkar sjálfstæðismanna. Ágreiningurinn milli okkar og stjórnarflokkanna liggur í því, að við teljum, að stjórnin hafi ekki sýnt nægan skilning á þörfum útvegsins og þýðingu hans fyrir þjóðfélagið. Ágreiningurinn liggur ennfremur í því, að við álítum rangt að láta taka mikið fé frá útvegnum og ráðstafa því svo, að allar líkur séu til, að það komi þessum atvinnuvegi að sáralitlu gagni.