15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (502)

107. mál, fiskimálanefnd o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Sigurjón Á. Ólafsson) :

Það verður að virða mér það til vorkunnar, þó ég geti ekki á 10 mín. svarað öllu því, sem ég þyrfti að svara, en ég byrja á því að snúa máli mínu að þeim hv. þm., er síðast talaði.

Það, sem ég áðan vék að Póllandssölunni, byggði ég á skýrslu frá fiskimálan. fyrir árin 1935 og 1936. Nefndin segir, að leitað hafi verið til hv. þm. sem fulltrúa ríkisstj. í Miðjarðarhafslöndum um möguleika á fisksölu til Póllands, og að hv. þm. hafi ráðið n. til að senda fisk þangað, og bendir á ákveðinn mann sem umboðsmann eða kaupanda. Svo komst maður inn í þetta í Kaupmannahöfn sem millimaður. (JJós: Það var ekki eftir minni till.). Hvað hv. þm. hefir svo gert með bréfum og skeytum getur skýrslan ekki um, en það er sýnt, að hv. þm. hefir mikið verið viðriðinn þessa sölu sem ráðgjafi n. Hv. þm. þótti óþarft, að ég væri að gagnrýna skýrslur útgerðarmanna. Hann segir, að einn okkar manna hafi reynt að gera það á fundi útgerðarmanna, en hafi verið hrakinn lið fyrir lið. Þetta er ekki rétt; þessi maður gat ekki gagnrýnt skýrslu þeirra, af þeirri einföldu ástæðu, að hann hafði ekki skýrsluna undir höndum. Síðan hefi ég litið ofan í þessa skýrslu og fundið þar ýmislegt, er mér hefir þótt athugavert. Það er rétt hjá hv. þm., að útgerðin þarf að bera sig, en það er margt, sem kemur til greina í sambandi við það, að bera sig. Ég hefi ekki tíma til að fara út í það nú, því það væri efni í langa ræðu.

Þá var hér nokkuð minnzt á bæjarútgerðina í Hafnarfirði af hv. þm. Hafnf., sem vitnaði hér. Hann segir, að ýmss útgerð sé spegill af því, hvernig útgerð yfirleitt beri sig. Ég hefi ekki reikninga þeirrar útgerðar, en ég efast ekki um, að þær upplýsingar, sem hann gaf, eru réttar, það sem þær ná. Hitt er vitað, að eftir að bæjarútgerðin í Hafnarfirði bætti við sig öðru skipi, gekk miklu verr en áður. Þetta skip aflaði mjög illa og var langt fyrir neðan meðallag. Slíkt getur vitanlega komið fyrir fleiri útgerðarfyrirtæki. Þetta skip, sem mjög voru skiptar skoðanir um, hvort rétt væri að kaupa, olli því, að útgerðin gekk eins illa og raun varð á. Hinu er ekki hægt að neita, að Hafnfirðingar hefðu verið mun fátækari, ef þessi útgerð hefði engin verið, því hún hefir veitt atvinnu upp á marga tugi þúsunda fram yfir það tap, sem orðið hefir á útgerðinni. Og fyrir bæjarfélagið hefir sú atvinna, sem útgerðin veitti, verið mikil hjálp á þessum þrengingatímum.

Þá sagði hv. þm., að einn togari bjargaði ekki almenningi í landinu. Ég skýrði það í fyrri ræðu minni, hvað þessi tilraun gæti þýtt. Hún getur þýtt algerða umsköpun á togaraútgerðinni og beint henni inn á réttar brautir. Hann minntist einnig á mótorbátaútgerð í Hafnarfirði, sem flokksbræður mínir hefðu óskað eftir ríkisábyrgð fyrir. Ég er sammála honum um það, að slík útgerð sé ekki álitleg. En ég get sagt honum, að það voru flokksmenn hans, sem beittu sér fyrir mótorbátaútgerð hér í Reykjavík, til þess að reyna að drepa niður togaraútgerðina.

Þá var þessi hv. þm. að tala um það, að áður en saltfisksmarkaðurinn brást hafi verið sæmilegt verð á saltfiski og því ekki eðlilegt, að útgerðarmenn legðu mikla áherzlu á útvegun nýrra markaða. Ég held nú, að enginn vilji halda því fram í alvöru, að saltfisksverðið hafi verið sæmilegt árin 1934 og 1935. Fólkið sá og fann, að svo var ekki, þó útgerðarmenn virtust ekki koma auga á það. Svo kom styrjöldin á Spáni. Hana sá enginn fyrir, en þá bar Alþfl. fram till. á Alþ. um, að ríkissjóður legði fram fé til hjálpar útveginum. Þá till. studdu útgerðarm. ekki.

Þá minntist hv. þm. á karfann og sagði, að í þá veiði hefði verið ráðizt fyrir forgöngu eins ungs vísindamanns, Þórðar Þorbjarnarsonar. Það er að vísu rétt, en í fyrstu ætlaði allt að stranda fyrir tregðu útgerðarmanna á að leigja skip til þessara nýju veiða. Þá var það einn velviljaður útgerðarmaður, sem lánaði eitt af sínum skipum til hinna fyrstu tilrauna, sem gerðar voru. Aðrir vildu ekki leigja skip sín í þessum tilgangi.

Hv. þm. var að tala um, að þetta væri kosningabomba. Það er eins og menn sjái kosningabombu í öllum málum. En þetta mál er flutt af Alþfl. aðeins sem þjóðþrifamál, fyrst og fremst fyrir fiskimannastéttina, en ekki sem neitt kosningamál, eins og sagt er um eitt mál, sem nú er ofarlega á döfinni hjá sjálfstæðismönnum, hitaveituna.

Þá talaði hv. 11. landsk. hér langt mál og hélt uppi vörnum fyrir sitt heimili, sölusambandið, sem hann taldi allt til ágætis og miklu fremri heldur en fiskimálanefnd. Ég minntist nú aðeins á sölusambandið í sambandi við þann mikla kostnað, sem sú stofnun hefði í för með sér, enda er því ekki að neita, að hann er í augum landsmanna yfirleitt óeðlilega hár. (Forseti: Tíminn er búinn). Ég verð þá að láta ósvarað ýmsum atriðum, sem fram komu hjá hv. 11. landsk., sem þörf hefði verið að gera nokkur skil.

En ég vil aðeins að lokum geta þess, þar sem umr. um þetta mál hafa þótt nokkuð langar, að það er ekki hægt að komast hjá því að ræða nokkuð ýtarlega mál, sem eru jafnofarlega í hugum landsmanna eins og einmitt þessi mál, og ég vænti þess, að frv., sem hér liggur fyrir, eigi eftir að sýna, að hér er stefnt inn á rétta, en ekki ranga braut.