30.10.1937
Neðri deild: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 426 í B-deild Alþingistíðinda. (514)

13. mál, sauðfjárbaðanir

Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að gera nokkrar athugasemdir við þetta frv. áður en það fer til 2. umr. Frv. var fram borið í fyrra í Ed. og aftur nú að tilhlutun landbrh., eins og segir í grg., sem fylgir því, og ber það með sér, hvers vegna það er fram komið. Þar segir m. a.: „Lög nr. 58 30. nóv. 1914 eru orðin nokkuð ófullnægjandi, einkum eftir að numin hafa verið úr gildi hin eldri sérstöku ákvæði um útrýmingu fjárkláðans með lögum nr. 90 3. maí 1935, sem gera ráð fyrir útrýmingaráðstöfunum í stórum stíl, sem hinsvegar hefir ekki reynzt fært að framkvæma vegna ýmislegra kvilla og faraldurs í sauðfé landsmanna“. — Ennfremur er tekið fram, að nauðsynlegt sé að skylda „sauðfjáreigendur til að gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að halda fjárkláðanum í skefjum og reyna að útrýma honum, þar sem hans verður vart.“ Loks er gert ráð fyrir, að ef þrifabaðanir yrðu rækilega framkvæmdar, mundi aldrei þurfa „að koma til allsherjarútrýmingarböðunar, sem mundi kosta mikið fé og þó reynast hæpið, að kæmi að fullum notum“.

Ég get fyrir mitt leyti fallizt á þessi rök, það sem þau ná. Það er t. d. nauðsynlegt að skylda menn til að halda fjárkláðanum í skefjum. Og bezt get ég trúað, að það sé hægt með þrifaböðunum, og jafnvel svo að það gangi útrýmingu næst. Ég álít, að það svari kostnaði fremur en að leggja í útrýmingarböðun með þeim tækjum og aðferðum, sem það mundi útheimta.

Einmitt af því, að útrýmingarböðun verður að vera tvíböðun, hefir ekki reynzt fært að framkvæma lagaákvæði um hana vegna ýmissa kvilla í sauðfé. Hver er þá munurinn á einböðun og tvíböðun? Tvíböðun er framkvæmd til öryggis, til þess að uppræta maurana, svo að ekki náist einungis til þeirra, sem lifa undir kláðahrúðrinu, heldur líka til eggjanna. Einböðun nægir hinsvegar ekki til að vinna bug á eggjunum. Nú á að skylda menn til einböðunar undantekningarlaust, en leysa undan tvíböðun. — En ég er þeirrar skoðunar, að sjúkt fé — sérstaklega það, sem haldið er þeim faraldri, sem nú gengur viða um byggðir landsins — sé ekki vogandi að leggja undir böðun. Ég er bræddur um, að einböðun hafi líkar verkanir og tvíböðun á sársjúkt fé. Mér finnst því, að hér þurfi eins og ástatt er um heilbrigði sauðfjárins viða, að setja heimildarákvæði fyrir landbrh., sem leyfi aðrar öruggar eyðingaraðgerðir á óþrifum sauðfjárins. Ég vil í þessu sambandi benda á, að til eru meðul, sem eru saklaus, en þó nokkuð örugg, sem geta komið í staðinn fyrir böðun, þar sem svona stendur á. Þarf þar ekki annað en að benda á smyrsli, t. d. smyrsli, sem ég hefi notað einkum við svín, því að það er talið forkastanlegt að nota baðlyf á svín. Þetta hefir gefizt ágætlega, og ég veit, að í öðrum löndum er þetta notað á sauðfé. Sú aðferð, sem talin er bezt, er brennisteinsgaslækning (SO2), en ég geri ráð fyrir, að þótt hún sé talin öruggasta aðferðin, muni það taka tíma að koma henni á, vegna þess að hún er nokkuð dýr og þarf margbrotin áhöld við hana, en það er leið, sem örugglega má nota, bæði fyrir sjúkt fé og eins það, sem er heilbrigt af öðru en óþrifum.

Þetta er það, sem ég set aðallega út á frv. og ég held, að verði ekki komizt hjá að breyta, en svo eru ýms smærri atriði, sem kunna að vera álitamál, eins og t. d. tímatakmarkið fyrir því, hvenær böðun eigi að fara fram. Í frv. er það sett frá 1. nóv. til 15. jan. Ég er í efa um, að allir telji þetta þann heppilegasta tíma. 1. nóv. er efalaust bezti tími um það, hvenær böðun skuli hefjast, en að láta hana ganga svona langt fram á fengitímann, held ég að sé varhugavert. Ég held líka, að þrifaböðun gæti farið fram á 6 vikna tíma, ef góður vilji er til þess, og mætti því tíminn vera ákveðinn 1. nóv. til 15. des.

Orðalag 1. gr. sýnist mér óviðkunnanlegt, þar sem stendur: „Þrifaböðun skal árlega fara fram á öllu sauðfé á landinu á tímabilinu frá 1. nóvember. til 15. janúar“. Þessar forsetningar eru þarna óviðkunnanlega margar saman, en þessi grein er alveg eins og í l. frá 1914, og mætti laga þetta og færa til betra máls.

Þá finnst mér vanta í þetta frv. mikilvægt atriði, sem er í l. frá 1914, en það er ákvæðið um, hvaða baðlyf skuli nota. Þetta er mikilvægt atriði. Nú mun ekki vera um margar tegundir að ræða, sem menn nota. Aðallega er það Barratts- og Coopers-baðiyf. Barratts-baðlyf er mikið notað, en sumir vilja þó fá Coopers-baðlyf með. Í 3. gr. l. frá 1914 er stjórnarráðinu gefið vald til að ákveða í samráði við dýralækni, hvaða baðlyf skuli notuð. Þetta álít ég alveg rétt. Þess vegna finnst mér það vöntun, að þessu skuli vera sleppt í frv.

Í 4. gr. frv. er svo fyrir mælt, að hreppsnefndir skuli skipa eftirlitsmenn, en í niðurlagsmálsgr. sömu gr. er talað um eftirlitsmenn þá, sem ræðir um í l. frá 1935 og eiga að hafa hér um bil sama starf. Mér finnst heppilegast og eðlilegast, að sömu mennirnir hafi þetta hvorttveggja með höndum og full ástæða til að ætla, að hvorir fyrir sig væru vel til þess fallnir að annast þetta starf allt, og því óþarfi að hafa tvennskonar eftirlitsmenn.

Í 4. gr. er nýmæli, sem ég held, að sé til bóta, en það er sú tilkynningarskylda, sem eftirlitsmönnum er lögð á herðar, þegar grunsöm tilfelli eru á ferðinni. Þetta álít ég mjög til bóta.

Ég hefi þá með þessum fáu orðum reynt að lýsa kostum og löstum þessa frv. Ég óska, að n. taki frv. til athugunar og íhugi einnig þessi ummæli mín, annars neyðist ég til að koma fram með brtt. á öðru stigi málsins.