17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1938

*Frsm. (Bjarni Bjarnason):

Um leið og ég byrja að gera grein fyrir störfum fjvn. nú á milli funda Sþ. vil ég geta þess, að þingstörf ganga yfirleitt með nokkuð miklum hraða af þeim ástæðum, að keppzt er við að slita þingi fyrir jól. Þess vegna vildi ég segja fyrir mitt leyti og fyrir hönd n. í heild, að æskilegt hefði verið, að við hefðum getað athugað ýmislegt viðvíkjandi fjárlagafrv. betur en kostur hefir verið á. Vegna þess, að útgjaldaliðirnir sækja sífellt í það horfið að hækka og ennfremur bætast aðrir við, sem ekki hafa verið í fjárl. áður, eins og oft vill verða, en nú sérstaklega í sambandi við svokallaða mæðiveiki, leiðir það, að erfitt er að finna tekjuliði, sem geta mætt þeim gífurlegu útgjöldum, sem virðast skella á úr öllum áttum, enda hefði verið full þörf á að hækka útgjöld til atvinnuveganna og til þeirra, sem framfleyta sér með almennri daglaunavinnu, og mætti þar heyra undir vinna bæði til sjávar og sveita. Ennfremur má segja, að ýmis styrktarstarfsemi, sem er mjög nauðsynleg og stunduð af mikilli óhlutdrægni af einstaklingum, væri einnig þörf á að styrkja meira en fjvn. hefir séð sér fært að gera.

Af þessari játningu minni má sjá, að reynsla fjvn. varð sú, að mörg útgjöld þyrfti að lækka, og hefir verið gripið til þess ráðs að draga saman allmarga liði og lækka þá alla um 10%, eða um ákveðna upphæð, sem fyrirfram var ákveðin. Við 2. umr. lét ég þess getið, að fjvn. mundi gera það, sem hún gæti, til að skila greiðsluhallalausu fjárlagafrv. Eru ekki miklar ástæður til að ætla, að þau hækki mikið frá því, sem fjvn. leggur til, sérstaklega þar sem mikið hefir verið gert að því að leita eftir því hjá hv. þm., hvaða hækkunartill. þeir myndu leggja fram. Þó skal ég geta þess, að ýmsir þm. munu telja sig knúða til að bera fram hækkunartill., einmitt af því, að fjvn. sá sér ekki fært að taka allar till. þeirra til greina, og er því óséð, hve mikið af þeim till. muni ná samþykki Alþingis.

Á þskj. 406 eru brtt. um hækkun tekna, sem stafar af breyt. þeim, sem vænta má í sambandi við bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs, og sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í þá liði, sem nefndir eru á þessu þskj.; þeir skýrast af sjálfum sér í sambandi við það, sem ég hefi þegar getið um. Því til viðbótar vil ég lesa upp í einu lagi þá liði, sem ýmist hafa verið lækkaðir um 10% eða dregnar hafa verið frá vissar upphæðir: Það eru þjóðvegirnir, hafna- og lendingarbætur, að undanteknum þeim stöðum, sem þegar hafa veðsett þá styrki, sem þeir hafa átt von á úr ríkissjóði, Eimskipafélagið, stórstúkan, styrkur til húsbyggingar, malbikun, þ. e. a s. utan kaupstaðanna, stúdentagarðurinn, viðhald landssímanna, nýbýlastyrkur, verkfærakaupasjóður, fóðurtryggingasjóður; styrkur vegna orma- og riðuveiki fellur niður, vaxtastyrkur til bænda fellur niður vegna ráðstafana um samskonar styrk í sambandi við hjálp vegna mæðiveikinnar, ræktunarvegir, styrkur til kláðalækninga. Ráðstafanir vegna inn- og útflutnings voru felldar niður vegna þess, að lagt verður gjald á innflutningsleyfi, og ennfremur styrkur vegna jöfnunarsjóðs fátækraframfærisins, 250 þús. kr. Þar, sem þessir liðir eru lækkaðir með prósenttölu, er það eingöngu bundið við 10%.

Þá kemur brtt. við 3. gr. a. l. Sá liður er hækkaður úr 60 þús. upp í 75 þús. Till. n. eru að miklu leyti gerðar í samráði við póst- og símamálastjóra, og er gert ráð fyrir, að þessar línur verði lagðar á næsta ári: Munkaþverá Laugaland, Setberg-Hallbjarnareyri, lína til Grunnavíkur og Hesteyrar, úr Langadal að Gautsdal í Laxárdal, Ölfuslína, sem er lína á milli Hveragerðis og Hjalla, Viðfjarðarlína til Stuðla, Svignaskarð-Hjarðarholt, Flókadalslína og línan Sveinseyri-Stóri-Laugardalur. Þessar línur hafa flestar eða allar verið áður ákveðnar af landssímastjóra í þeirri röð, sem ég hefi lesið þær, 2 mun hafa verið bætt við, án ágreinings við hann.

Þá kem ég að 4. brtt., við 12. gr., styrkir til læknisvitjana. Vil ég geta þess, að 1000 kr. styrkurinn til Öxarfjarðarhéraðs er þannig til kominn, að ástæða þykir til að gera það að sérstöku læknishéraði, en þar sem landlæknir taldi það ekki sérstaklega heppilegt að svo stöddu, varð að samkomulagi við hann að veita heldur ríflegan styrk, einkum vegna þess, að yfir síldveiðitímann, eða 4 mánuði ársins, þarf að vera læknir á Raufarhöfn.

Þá skal ég geta þess um 5. brtt., sem er styrkur til Kjartans Guðmundssonar læknis, til að nema geðveikralækningar, að þessi liður hefir verið bundinn við nafn sérstaks manns.

Þá kem ég að styrknum til læknisbústaða og sjúkrahúsa, sem er 6. brtt. Er ætlazt til, að sú hækkun, sem ætluð er til læknisbústaðar á Seyðisfirði, gangi til sjúkrahúss þar; að öðru leyti hefi ég áður gert grein fyrir, hvernig þetta fé skuli skiptast.

Þá kem ég að nokkrum till., sem ég sé ekki ástæðu að eyða tíma til að skýra mikið. Till. eru við 13 gr. 10 till., Vopnafjarðarvegur, skýrist þannig, að til þessa vegar átti áður að fara benzínfé, en því var breytt, það fé var tekið af honum, en hækkað með því framlag til vega út frá Akureyri um 5 þús. kr., og í staðinn voru veittar 5 þús. til þessa vegar og hann síðan lækkaður um 10%, eins og aðrir vegir. Næstu brtt. eru allar um 10% lækkun til þjóðveganna.

Um brúargerðir er það að segja, að liðurinn hækkar um 20 þús. Allmiklar umframgreiðslur hafa verið á þessum lið, og hækkaði n. hann í því skyni, að reynt yrði að rétta við það, sem þegar hefir verið greitt þar umfram, án þess þó að hætt verði brúabyggingum með öllu. Nú þegar hafa verið byggðar nokkrar brýr fyrir umframgreiðslur, og er hætt við, að eftir verði sem svarar einu brúarverði, þegar þær hafa verið greiddar.

Ég sé ekki ástæðu til að fara sérstaklega að tala um næstu liði, fyrr en kemur að 26. brtt., við 13. gr. Það er liður C. VIII, 7–9; þar stendur, að allir liðirnir eigi að hækka um 10%, en á að vera, að allir liðirnir lækki um 10%. Svo eru taldar upp nokkrar hafnargerðir og lendingabætur, og skal ég ekki endurtaka það.

Þá kem ég að 33. brtt. Til utanfarar presta. Þar eru veittar í einu lagi 2 þús. kr., og er ætlazt til, að ráðh. sá, sem fer með kirkjumál, úthluti styrknum. Annar liður er til Tjarnarkirkju, 1500 kr. vangoldið álag. Eignir þessarar kirkju munu hafa lent til þess opinbera, og á þeim grundvelli er talið rétt að leggja þetta fé fram til að endurreisa kirkjuna.

Til sr. Sigtryggs Guðlaugssonar eru ætlaðar 1500 kr., til þess að launa aðstoðarprest. Sr. Sigtryggur er orðinn allaldraður maður og að svo miklu og góðu kunnur, að ekki þykir sanngjarnt að neita þessari beiðni, enda mun hann ekki lengi þurfa á aðstoðarprestinum að halda.

35. brtt., er um hækkun á launaupphæð háskólans, til þess að launa tveim læknum, sem eru þegar ráðnir. Önnur launaaukning er nýr liður um dósentslaun næsta ár handa sr. Birni Magnússyni. Mönnum eru þar málavextir kunnir. Sú skoðun kom fram í n., að óþarfi væri að ætla honum laun lengur en þangað til kennsla hefst að hausti í sept. En 3 menn af 9 í nefndinni töldu ekki ofgert við Björn Magnússon, þó að honum yrðu greidd full árslaun.

Enn er ein brtt. um hækkun á því fé, sem læknadeild háskólans fær til aukinnar og óhjákvæmilegrar tilraunastarfsemi. Áhöld til þess eru dýr, en nemendur geta ekki án þeirra verið við nám í lífeðlis- og líffærafræði.

Þá koma hér tveir liðir við bændaskólana. Annar er um 4000 kr. til að byggja kennarabústað. Því er haldið fram af kunnugum, að brýna nauðsyn beri til að byggja yfir kennara við skólana. Fyrir lágu tvær umsóknir. N. taldi, að í þetta sinn yrði að láta nægja að veita fé til eins kennarabústaðar, en að síðan þyrfti að halda áfram. Það virðist hóflegt, ef hver kennarabústaður kostar uppkominn 10000–12000 kr., að byrja með þessari 4000 kr. fjárvelting. — Þetta þing, sem nú situr, mun afgreiða ný lög um bændaskóla, og kostnaður af rekstri þeirra hlýtur að vaxa vegna laganna, sérstaklega í sambandi við verklega kennslu. Áætlað er, að kostnaðaraukinn nemi um 4 þús. kr. við hvorn skóla um sig á næsta ári, og er lagt til, að það fé sé veitt.

42. brtt. er um 2500 kr. til viðgerðar á skólahúsi kvennaskólans í Reykjavík. Að vísu var óskað eftir allmiklu hærri upphæð. En n. leit svo til, að þetta mundi geta bætt að einhverju dálitlu leyti úr þörfum skólans. — Þá er styrkurinn til kvennaskólans á Blönduósi hækkaður úr 11000 í 12000 til samræmis við sambærilega skóla, sem hafa ríkisstyrk, t. d. húsmæðraskólana. — Geta má þess, að frv. um húsmæðrafræðslu hefir verið lagt fyrir þetta þing, og þó að það nái ekki samþykki að sinni, verður málinu haldið vakandi. Á næsta þingi eða í nánustu framtíð verður að athuga rækilega aðstöðu húsmæðraskólanna og afstöðu þeirra hvers við annan.

Þá skal ég geta þess, að liðurinn til byggingar barnaskóla hefir verið lækkaður, eins og svo margir aðrir, um 10%, úr 50 þús. í 45 þús. kr. Mér var sérstaklega sárt um þann lið, en svo varð að vera.

45. brtt. er um það, að liðurinn til Ríkarðs Jónssonar falli niður, en í staðinn er Ríkarður tekinn upp í 18. gr.

46. brtt. a. fer fram á það að hækka fjárveiting til Íþróttasambands Íslands úr 5000 í 8000 kr. Vitanlega hefir það þörf fyrir enn hærri upphæð, því að það er sorglegt, hvað ríkið leggur litið til íþróttamála. Í flestum skólum er leikfimi ekki kennd nema 2–3 st. á viku. Sundhöll Reykjavíkur er ekki opin nemendum nema sjaldan án borgunar. Og það er ekki hægt að segja annað en íþróttakennsla sé vanrækt. Héraðsskólarnir hafa yfirleitt miklu betri skilyrði til íþrótta, enda ber það af, hve miklu meir þær eru stundaðar þar. — Ég get ekki bent á nokkurt tryggara meðal til þess að berjast við áfengisbölið heldur en leikfimi og fjölbreyttar íþróttir. Það ætti að auka svo íþróttastarfsemina, að vel menntir og hugsandi unglingar lærðu til íþróttakennslu, og svo, að hæfir menn gætu ferðazt um og hvatt fólk til að sinna íþróttum heima fyrir. Ef þetta tækist vel og samvinna næst síðan við bindindishreyfinguna í landinu, stórstúkuna og skólana, sem hafa tekið bindindi á stefnuskrá sína, þá hygg ég, að ekkert gæti orðið viðlíka vörn gegn áfengisbölinu. — Í 46. brtt. er einnig mælt með 750 kr. til róðrarsveitar Ármanns, til þess að standast kostnað af utanför á kappróðramót á síðastl. sumri.

Í 47. brtt. er lagt til, að lækka framlag til stúdentagarðsins um helming. Auðvitað er það ekki tilgangurinn að svipta háskólann 14000 kr., heldur að láta þann helming bíða. Ég er raunar óviss um nema þarna sé samningur um greiðsluna á næsta ári, en ég vona, að ekki verði úr því árekstrar.

Þá kemur að 15. gr., og eru þar fyrst 1600 kr. til kaupa á merkilegu Jónsbókareintaki, sem þegar hefir verið keypt. Næst koma 3000 kr. til Björns K. Þórólfssonar, til þess að hann vinni við Þjóðskjalasafnið. Mér er kunnugt um það, að skjöl safnsins eru ekki í því skipulagi og reglu, sem þau ættu að vera, og liggja ekki í því ámæli til þeirra, sem þarna hafa unnið undanfarin ár, heldur er þetta fyrir það, að skort hefir fjárframlög til þess að hafa kunnáttumenn til að raða skjölunum. Því að forstöðumennirnir, sérstaklega dr. Hannes Þorsteinsson, hafa vitanlega þurft að sinna sínum vísindastörfum, og er ávalt eðlilegt, að forstöðumaðurinn þurfi þess, svo að öðrum verði að ætla daglega afgreiðslu og röðun skjala og skrásetning. Enn mun vera nokkuð mikið óskrásett í safninu. Annar maður, sem þar starfar, auk forstöðumanns, vinnur aðallega að því að gefa út vottorð, sem mikið er spurt um núna í sambandi við alþýðutryggingarnar.

50. brtt. er um dálitlar fjárveitingar til viðhalds á tveimur merkum, fornlegum kirkjum. Víðimýrarkirkju verður að geyma sem forngrip. Þingeyrakirkja þarf einnig styrkinn nauðsynlega.

Þá koma nokkrir liðir til bókasafna, nýir eða hækkaðir, og sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þá. Þó má geta þess, að allmörg lestrarfélög og bókasöfn óskuðu eftir styrk og fengu ekki. En nú liggur fyrir þinginu frv. um sérstakt fyrirkomulag á styrk til þeirra, svo að hagur þeirra batnar mjög, ef að lögum verður. Vitanlega er fyllsta nauðsyn að hlynna að slíkri starfsemi.

55. brtt. er um 1200 kr. styrk til leikskóla frú Soffíu Guðlaugsdóttur. Þessi kona er þegar þjóðkunn fyrir leiklist sína og snilldarlega framsögn. Hún hefir þegar stofnað skóla sinn, og væri gott, að hún næði til þeirra unglinga sem flestra, sem hafa gáfur og áhuga í þá átt að leika eða lesa upp.

56. brtt. er um 2000 kr. til hljómsveitar Reykjavíkur, og þarf varla að mæla með því. Þar næst er styrkur til tveggja Íslendinga, sem stunda músík-nám erlendis, Rögnvalds Sigurjónssonar og Guðmundar Matthíassonar, og eru þeir báðir efnilegir menn, hvor í sinni grein. — Ég vil geta um það í þessu sambandi, hversu mikill sársauki það er að geta ekki styrkt miklu meir en lagt er til í þessum brtt. ýmiskonar menningarlíf á þessu landi. Það er næstum því óbærilegt að geta ekki veitt miklu meira fé í styrki til ungra, gáfaðra listamanna á hvaða sviði sem er. Að vísu munu listamenn víða verr settir en hér, því að yfirleitt munu þeir njóta samúðar þjóðarinnar. Og sem stendur virðist ekki hægt að gera til muna meira en gert er fyrir þá.

58. brtt. er um 2500 kr. styrk til Jóns Leifs tónskálds. Maðurinn er mjög umdeildur. Hann kom hér heim til þess að fá fast starf við ríkisútvarpið og vann þar nokkurn tíma, en fór þaðan aftur. Hvað sem um list hans má segja, sæmir varla að synja honum allrar úrlausnar. og mér fannst rétt að veita honum þennan styrk, hvað sem gert verður í framtíðinni.

Þá er 1500 kr. hækkun á styrk til Sambands íslenzkra karlakóra. Ég tel starfsemi karlakóranna sérstaklega merkilega, bæði fyrir þá menningarlegu þýðingu, sem þeir hafa fyrir þjóðina og hafa sýnt jafnt í utanförum og innan lands, og fyrir það, að þar eru saman menn af öllum stéttum, ýmist með sæmileg laun og skilyrði til að stunda sönglist eða algengir verkamenn. Þeir fórna miklum tíma til æfinga. Þessi aukna fjárvelting er til þess að þeir geti haldið kennara til að raddæfa og þjálfa. Hingað til hefir aðeins einn maður haft á hendi alla kennsluna. En það er ónóg, og nú á að reyna að bæta öðrum kennara við fyrir þennan aukna styrk.

Það er ekki góð aðstaða fyrir fjvn. og Alþingi að neita Karlakór Reykjavíkur um 5 þús. kr. styrk, sem hann hað um. Kórinn hefir lengi getið sér gott orð, og hann hefir boðið þingmönnum á hljómleika, sem hann hélt hér í bænum og fékk mikið lof fyrir. Ég vil lýsa yfir því, að okkur nm. þykir það mjög miður, en sjáum okkur ekki fært að mæla með fjárveitingu, vegna fordæmis. Og ég er hér búinn áður að gera grein fyrir þeim örðugleikum, sem n. átti i, og þeim litlu tekjuöflunarmöguleikum, sem eru til að uppfylla þarfirnar.

Þá er hér styrkur til nokkurra rithöfunda og fræðimanna, sem n. mælir með. Þar eru m. a. 1000 kr. til Boga Ólafssonar, vegna útgáfu kennslubókar í ensku, og b00 kr. ritstyrkur til sr. Eiríks Albertssonar á Hesti, vegna bókar, sem hann ætlar að gefa út um sr. Magnús Eiríksson, og er styrkurinn aðeins lítill hluti af því, sem hann bað um.

66. brtt. er við 16. gr. 1. og er á þá leið, að í stað þess að verja 100 þús. kr. af atvinnubótafé til nýbýla skuli verja 160 þús. kr. af því til Suðurlandsbrautar. Mestu af þeirri fjárhæð, sem til nýbýla var ætluð, man hafa verið varið til þurrkunar á mýri fyrir ofan Eyrarbakka. Þá skal þess getið, að ákveðið var, að 20 þús. af þessu fé yrði varið til atvinnabóta kvenna. En nú er það hækkað t 25 þús., og efast ég ekki um, að það er vel farið.

Því næst er þess að geta, að Búnaðarfélag Íslands varð fyrir miklum kostnaði á þessu ári vegna aldarafmælis síns, bæði vegna gesta, sem hér komu, og útgáfu rits um sögu félagsins. Því vildum við veita 8000 kr. upp í kostnaðinn, en það er aðeins brot af því, sem hann varð.

Þá er 68. brtt., um að lækka styrkinn til nýbýla og samvinnubyggða um 25 þús. kr., og 69. brtt., um 20 þús. kr. lækkun á framlagi til verkfærakaupasjóðs. Er það gert til þess að geta hækkað aðra liði sem því svarar: liðinn til búfjárræktar um 6 þús. kr., til jarðakaupa um 20 þús. o. fl. Auk 200 þús. kr. framlagsins til byggingar- og landnámssjóðs verða veittar 125 þús. kr. til bygginga í sveitum. Um þessar tilfærslur má segja, að lækkun sé alltaf óljúft verk, en hækkanirnar, eins og til búfjárræktarinnar, eru óhjákvæmilegar, ef halda á uppi umbótalöggjöf síðari ára.

Lækkun á styrk vegna ráðstafana um tilbúinn áburð nemur 10%, eins og á svo mörgum öðrum liðum. Styrkur til fóðurtryggingarsjóða fellar niður af því, að þeir ern engir til.

Þá er 75. brtt. um 500 kr. til Rakelar Þorleifsson línræktarkonu. Hún hefir sýnt mikinn áhuga fyrir því að rækta ýmsar merkilegar nytjajurtir, t. d. línfræ, og n. vildi sýna viðleitni til að mæta henni í þessu áhugamáli hennar.

Því næst koma nokkrir styrkir til ólærðra manna til þess að stunda dýralækningar, bundnir við það, að jafnmikið framlag komi annarsstaðar að. Lærðir dýralæknar eru fáir og langt að sækja þá. En til eru ýmsir lagnir menn, sem geta gert mikið gagn á þessu sviði. Ennfremur er lagt til að styrkja ungan námsmann, Guðbrand Hlíðar, sem stundar dýralæknisnám, og er sett það skilyrði, að hann kynni sér loðdýrasjúkdóma. Tveir dýralæknar sóttu um utanferðastyrk í því skyni, en ekki þótti fært að veita til þess fé, heldur stuðla að því, að sérfræðingur fáist innan skamms tíma í þeirri grein, eins og nauðsynlegt er, þegar fótum er komið undir loðdýraræktina. Nú má vera, að Guðbrandur Hlíðar sé ekki það langt kominn í námi, að hann geti snúizt verulega að þessu sérsviði strax, en af honum má vænta alls hins bezta.

Liðurinn til kláðalækninga var lækkaður niður í 8000 kr., og voru ýmsir á því, að hann ætti að falla alveg niður. Má vera, að hann hrökkvi skammt til þess, sem honum er ætlað, að vinna á kláðanum að fullu.

Styrkur til Ungmennafélags Íslands, til eflingar íþróttum, skóggræðslu og bindindi, er hækkaður úr 4000 í 6000 kr. Stefnuskrármál þess félagsskapar eru mikil og merkileg og starfsemin til þjóðþrifa. Það er reynt að fá unga fólkið til að hópast saman og leiða það til drengskapar og dáða, en burt frá spillandi tækifærum. Og hefi ég þá, eins og þegar ég ræddi um íþróttirnar, áfengið í huga. Slík starfsemi verður að aukast og margfaldast, og tel ég, að hún geti orðið drjúg á metunum gegn þeim óhollu straumum, sem nú flæða um skemmtanalif vort. Ungmennafélögin eiga þarna mikið hlutverk fyrir höndum.

84. brtt. er nýr liður, 1000 kr. til klakstöðvar við Mývatn. Fyrir n. lágu margar styrkbeiðnir frá klakstöðvum, en hún sá sér ekki fært að taka aðra en þessa til greina. Annars þarf fjvn. að kynna sér vel þetta mál og athuga, hvort ekki væri tiltækilegt á næstu þingum að veita eina upphæð til þessarar þjóðþrifastarfsemi, og væri henni síðan skipt milli klakstöðvanna að ráðum kunnáttumanna.

Um 86. brtt. er það að segja, að milli hennar og 89. brtt. er millifærsla. Styrkurinn til mjólkurbúa er í fyrri till. lækkaður úr 77000 kr. í 51300 kr., en í síðari till. er styrkur til frystihúsa hækkaður um sömu upphæð.

Þá kemur að stærsta liðnum, en það er kostnaður vegna mæðiveikinnar. Með því að brtt. liggur fyrir, eins og hún er hugsuð nú, sé ég ekki ástæðu til að rekja hana lið fyrir lið. Öllum má vera það ljóst, að það verður að koma einhversstaðar niður á fjárlögunum, þegar ný og óvænt útgjöld koma til sögunnar. Á það má sérstaklega benda, að þessa upphæð má ekki skoða sem hjálp til bændanna til að koma sér upp nýjum atvinnuháttum; til þess væri upphæðin allt of lítil. En þar sem varnir gegn veikinni, og þá ekki sízt fjárfrekar girðingar, standa enn yfir, þá er erfitt að leggja það fé í nýja atvinnuvegi, sem í raun og veru þyrfti. Ef svo giftusamlega til tækist, að hægt yrði að stöðva veikina, segjum við Héraðsvötn og Þjórsá, og kostnaður við girðingar og aðrar varúðarráðstafanir minnkuðu verulega eða féllu alveg niður, þá losnaði jafnframt mikið fé, sem hægt væri að verja til styrktar bændum, sem reyndu að leggja út á nýjar brautir í búnaðarháttum, svo sem rjómabúarekstur, loðdýrarækt, alifuglarækt o. fl.

Árið 1939 er ákveðið að halda heimssýningu í New York. Svo sem ég gat um við 2. umr., hafði n. ákveðið þá 75000 kr. styrk til þátttöku Íslands í þessari sýningu, en n. hefir ákveðið að lækka þetta niður í 62500 kr. og binda fjárveitinguna því skilyrði, að jafnmikið fé komi annarsstaðar að. Það eru skiptar skoðanir um það, hvort við eigum að taka þátt í sýningu þessari. En margir telja, að ekki sé völ á annari betri auglýsingu fyrir framleiðsluvörur okkar en slíkar sýningar, og til þess megum við ekkert tækifæri láta ónotað.

92. brtt. er um 1500 kr. styrk til Gísla Kristjánssonar, upp í sjúkrakostnað hans erlendis. Maður þessi veiktist á námsárum sínum í Kaupmannahöfn af berklum, en komst ekki undir berklavarnalögin. Leggur n. til, að honum verði veitt þessi litla upphæð sem smávegis raunabót. Heimilisfang Gísla er rangt tilfært, á að vera Dalvík.

91. brtt. er nýr liður: Til mæðrastyrksnefndarinnar, til sumarheimilis mæðra í Hveragerði, 1500 kr. Annarsstaðar í frv. er styrkur til mæðrastyrksnefndarinnar, en hann er til skrifstofuhalds í Reykjavík. En nefndin hefir undanfarin sumur haldið uppi merkilegri starfsemi, sem hefir gengið út á það að gera fátækum konum úr Reykjavík kleift að fá sumardvöl í sveit. Ekkert hefir verið til sparað af konum þeim, sem hafa beitt sér fyrir þessu, til að afla peninga og stjórna viðleitni þessari, sem nú þegar hefir gert mikið gagn. Þykir því rétt að veita þeim nokkurn styrk sem viðurkenningu löggjafans á starfi þeirra og sem uppörvun til að halda áfram á sinni braut.

Um 95. brtt., lækkun um 10% á styrk til stórstúkunnar, vil ég geta þess, að hér er miðað við byggingarstyrkinn.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um næstu liði. Sumir þeirra eru kunnir frá fyrri árum. Um hækkun á eftirlaunum embættismanna má segja, að það sé vandræðamál. Þegar menn láta af störfum vegna aldurs, er það vitanlega tilætlunin, að lögskipuð eftirlaun nægi mönnum til lífsframfæris. Reynslan sýnir, að margir þeirra embættismanna, sem láta af embætti fyrir aldurs sakir, eru efnalitlir eða efnalausir menn, og er það hart aðgöngu fyrir þjóðfélagið að verða að kasta þessum mönnum á gaddinn. Því er það, að Alþ. hefir undanfarið tekið upp þann sið, að bæta nokkurri fjárhæð við eftirlaun þeirra embættismanna, sem verst eru stæðir. Þær fjárveitingar til embættismanna, sem hér eru taldar, eru allar veittar í því augnamiði.

Af brtt. við 18. gr. eru aðeins fáir liðir, sem ég sé ástæðu til að nefna. Ég vil þó minnast á tvo þeirra, vegna þess að þeir skera sig úr hinum með upphæðir. Er það 101. liðurinn, 1000 kr. til Margrétar Björnson, ekkju Guðmundar heitins Björnsonar landlæknis, og 103. liðurinn, 2000 kr. til Soffíu Guðmundsson, ekkju Magnúsar heitins Guðmundssonar. Konur þessar hafa báðar þá sérstöðu, að vera konur landsþekktra manna, og er hvorug þeirra vel efnum búin. Yfirleitt er það svo um þá menn, sem framarlega standa í þjóðmálabaráttunni og mikinn þátt taka í opinberum málum, að í hugum almenningsskapa þessi störf eftirlifendum þeirra meiri kröfurétt til þjóðfélagsins en venja er til.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að allmargir menn, sem verið hafa í opinberri þjónustu, svo sem póstar, fiskimatsmenn, ljósmæður o. fl., hafa sótt um styrk eða einskonar eftirlaun á undanförnum árum, og hafa nokkrir þeirra fengið áheyrn Alþ. Ég tel sjálfsagt, að komið verði á föstum reglum um það, hverja verðieika slíkt fólk verði að hafa til þess að komast á 18. gr. Þetta getur orðið endalaust, ef ekki er neitt ákveðið til að miða við, og þá helzt embættisaldur, er hafður væri nokkuð hár. Flestir, sem ráð eiga á fjárveitingum, eru svo gerðir, að þeir vildu með glöðu geði veita þessu fólki þær smáupphæðir, sem það fer fram á, flestir biðja ekki um nema 150–300 kr. En fyrir þessu þingi lágu beiðnir frá 50 mönnum um slík eftirlaun, og sá fjvn. sér ekki fært að taka allan þann fjölda upp á fjárlagafrv. Ég læt þessa getið til skýringar á því, hvers vegna þessum umsóknum var ekki sinnt.

Ég sé ekki ástæðu til að fara út í brtt. við 22. gr. í einstökum liðum; þær skýra sig sjálfar. Annars er það varla annað en formsatriði að vera að mæla með þessum brtt., þar sem hv. þm. eru þær meira eða minna kunnar. Auðséð er líka, að þeir óska ekki eftir frekari skýringum á þeim,fyrst þeir eru aðeins örfáir á fundi.

Ég vil að lokum gefa yfirlit yfir fjárlagafrv. eins og það er nú.

Eftir 2. umr. nam rekstrarhallinn 260128 kr. Samkv. brtt. n. hækka gjöldin sem hér segir: Á 12. gr. 4550 kr., á 13. gr. 35450 kr., á 14. gr. 40550 kr., á 15. gr. 27900 kr., á 16. gr. 701500 kr., á 17. gr. 6000 kr., á 18. gr. 18895 kr., eða samtals 1094973 kr.

Gjöldin hafa verið lækkuð sem hér segir: Á 13. gr. 91900 kr., á 14. gr. 20500 kr., á 16. gr. 244700 kr., á 17. gr. 253500 kr., á 18. gr. 8956.40 kr.

Hækkun tekna á 2. gr. hefir orðið 1493000 kr., og á 3. gr. 75000 kr., og nemur því lækkun gjalda og hækkun tekna samanlagt 2187555.40 kr. Sé þar dregið frá það, sem gjöldin hafa hækkað, verður eftir 1092583.40 kr. Greiðsluhalli frv. er nú eftir till. n. 160000 kr., þó að ég léti skína í það við 2. umr., að n. hefði hug á að afgreiða frv. greiðsluhallalaust. En engin fullyrðing var gefin um, að það mundi takast. N. hefir gert allt, sem hún gat, til að hækka tekjurnar og lækka gjöldin, en ég geri ráð fyrir, að þær till., sem einstakir hv. þm. bera fram við þessa umr., verði heldur í hækkunaráttina. En ég vildi mega óska þess, að fjárlagafrv. yrði afgr. með ekki verri útkomu en því er skilað frá n. Í því trausti slít ég máli mínu og vænti þess, að hv. þm. vinnist tími til að athuga frv. sem heild, þó að stutt sé nú eftir af þingtímanum, og geti gert við það þær aths., er þeim þurfa þykir.