14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (561)

122. mál, tunnuefni og hampur

*Frsm. (Jón Baldvinsson):

Iðnn. hefir athugað þetta mál, sem er í rauninni aðeins framlenging á l. nr. 5 frá 9. jan. 1935. Í þeim l. eru nokkur undanþáguákvæði, sem gilda til ársloka 1937, og taldi n. nauðsynlegt, að þau ákvæði yrðu framlengd, þar sem nokkur iðnaður er kominn upp hér á landi í þessum greinum, svo sem tunnuverksmiðjur á Akureyri og Siglufirði og hampiðjan hér í Reykjavík, og töldum við, að þessi iðnaður væri bezt verndaður með því að láta þau fá tollundanþágu af óunnu efni, þar sem tollur er annars jafnhár af unnu sem óunnu efni í þessar vörur.

Telur iðnn. því, að samþ. eigi frv. eins og það liggur fyrir á þskj. 216.