04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (568)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

*Ísleifur Högnason:

Það er víst enginn vafi á því, að nauðsyn er á að herða tolleftirlitið frá því, sem nú er, og mun ýmislegt í þessu frv. standa til bóta frá því, sem nú er. En það er eitt atriði í þessu frv., sem ég hefði óskað, að n. sú, sem um málið fjallaði, hefði tekið til athugunar. Með þessu frv. er gengið lengra en áður í því að rannsaka farangur manna, og það má jafnvel ganga svo langt að rannsaka, hvort menn hafi nokkuð á sér, þegar þeir koma til landsins úr ferðalagi. Ég hefi orðið var við, að þessi skoðun hefir verið framkvæmd nú í seinni tíð. En eftirlit þetta er mjög þungalamalegt og orsakar oft töf fyrir farþega.

Farangurinn er tekinn á tollstöðina, og það fer eftir geðþótta manna, hvenær hann fæst afgreiddur. Ef þessi tollskoðun verður að l., þá verður tolleftirlitið að sjá um, að farþegar á skipum verði ekki tafðir um of vegna tollskoðunar. Mér er kunnugt um, að erlendis, þar sem menn fara með farangur í gegnum tollbúðir, þá gengur þetta mjög fljótt og ferðamenn eru ekki tafðir þess vegna. Mér finnst það vanta í l., að þess sé gætt, að eftirlitið gangi greiðlega og það sé tryggt, að farþegar eða þeir, sem þurfa að komast leiðar sinnar, verði ekki fyrir óþarfa töfum af hendi tolleftirlitsmanna. Þetta verður að vera tryggt, þegar gengið er eins langt í því að rannsaka farangur manna eins og þetta frv. fer fram á. Það er auðvitað mikið undir tollstjórunum og tollskoðunarmönnum komið, að kurteislega sé komið fram við þá, sem fyrir skoðuninni verða. Þetta er mjög misjafnt.

Ég óska, að n., sem fjallaði um málið, taki þessi atriði til athugunar og reyni að fá úr þessu bætt annaðhvort með sérstökum l. um það, hvernig þessir starfsmenn skuli haga sér gagnvart almenningi, eða þá fellt inn í l., að aldrei megi tefja för manna vegna tollskoðunar.