04.12.1937
Neðri deild: 42. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

119. mál, tollheimta og tolleftirlit

*Einar Olgeirsson:

Ég verð að segja, að mér finnst dálítið slæmt að láta svona stóran lagabálk fara í gegn án þess að rætt sé nokkuð um hann. Ég segi fyrir mig, að mér hefir ekki gefizt tími til að athuga þennan lagabálk sem skyldi. Ég vil aðeins vekja athygli á einu. Eftir þessum lagabálki er réttur þeirra manna, sem skoðað er hjá, ekki á nokkurn hátt tryggður. Eins og þetta hefir verið framkvæmt upp á siðkastið, þá er hægt að taka farangur manna og fara með hann upp á tollstöð, en þar er maðurinn, sem farangurinn á, ekki viðstaddur, þegar hann er rannsakaður, og. það er engin trygging fyrir því, hvað kann að vera gert í sambandi við skoðunina. Ég veit, að það er rétt, sem síðasti ræðumaður tók fram, að alstaðar þar, sem svona skoðun á sér stað, eru þeir, sem farangurinn eiga, látnir opna hann sjálfir, og hann er rannsakaður að þeim viðstöddum. Ég vil vekja eftirtekt á því, að ef þeir menn, sem eru með farangur, hafa engin réttindi, þá er hægt að framkvæma allskonar óréttlæti í sambandi við skoðunina, þar sem enginn er viðstaddur nema yfirvaldið. Í svona lagabálk þarf að vera ákvæði um það, að hver farþegi, sem skoðað er hjá, hafi rétt til þess að heimta að vera sjálfur viðstaddur, þegar farangurinn er skoðaður. Það er ekki rétt að taka af mönnum farangur þeirra og fara með hann á tollstöðina og skoða hann þar án þess að þeir séu viðstaddir. Ég get hugsað mér, að undir sérstökum kringumstæðum g:eti þetta haft alvarlegar afleiðingar. Það er ef til vill hægt að bæta úr þessu í sambandi við reglugerð, en ég tel rétt að vekja athygli á þessu þegar verið er að setja stóran lagabálk um atriði, sem áður hafa verið mjög lítilfjörleg l. um.