30.11.1937
Neðri deild: 39. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 442 í B-deild Alþingistíðinda. (588)

103. mál, verðlag á vörum

*Garðar Þorsteinsson:

Ég og hv. þm. Snæf. höfum skrifað undir nál. um þetta mál með fyrirvara. Það er ekki vegna þess, að við séum raunverulega andvígir þessu frv., en hinsvegar var á síðasta þingi, þegar þetta frv. var lagt fyrir, ákveðið af meiri hl. allshn. að leita umsagnar Verzlunarráðsins og fleiri stofnana og fá fram till. til breyt. frá þeim. Þetta mun ekki hafa verið gert og þeirri ósk okkar nú, að frv. yrði sent til umsagnar, var ekki sinnt. Við vildum því að þessu leyti hafa frjálsar hendur, ef það kæmu fram brtt. frá þessum stofnunum við frv.

Þetta frv. gengur aðallega, eins og það er orðað, inn á það, að heimila verðlagsnefnd að ákveða útsöluverð á vörum eða hámark verzlunarálagningar. Frv. gengur því í þá átt að tryggja rétt neytandans að þessa leyti og það mun að sjálfsögðu hafa vakað fyrir um nefndarskipunina á sínum tíma og þeim, sem sömdu frv. En þó er það þannig, að vegna þess, að í landinu rennur nú upp íslenzkur iðnaður, sem að verðlagi til getur ekki keppt við erlenda vöru, þá myndast þarna nýtt sjónarsvið að því er snertir framkvæmd þessara 1., sem sé að taka hæfilegt tillit til beggja, þeirra, sem standa að íslenzkri framleiðslu, og hinna, sem kaupa hana, og þó sérstaklega með tilliti til þess, hvað sá sami kaupandi getur fengið erlenda vöru fyrir miklu lægra verð.

Í frv. er gert ráð fyrir, að skipuð sé verðlagsnefnd, sem skipuð sé 5 mönnum: 1 tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands, 1 af Landssambandi iðnaðarmanns, 1 af Sambandi ísl. samvinnufélaga, 1 af Verzlunarráði Íslands og 1 skipuðum af ríkisstj.

Nú er það eins og þessi upptalning sé hugsuð þannig sérstaklega, að S. Í. S. og Verzlunarráðið tilnefni menn í n. með tilliti til þeirra, sem verzla með vöruna, Alþýðusambandið sérstaklega með tilliti til neytendanna. Sá fjórði er tilnefndur af Landssambandi iðnaðarmanna. Ég hygg, að hér sé um misskilning að ræða hjá þeim, sem sömdu þessa gr., vegna þess að það hefir væntanlega vakað fyrir þeim, að Landssambandið ætti að tilnefna mann, sem sérstaklega gætti hagsmana iðnrekenda, en Landasambend iðnaðarmanna er ekki slíkur félagsskapar. Það er sem sé ekki framleiðendur, sem mynda Landssamband iðnaðarmanna. Þar eru félög eins og Bakarameistarafélag Reykjavíkur, Félag bókbandsiðnrekenda, Félag pípulagningameistara, Hárgreiðslukvennafélag Reykjavíkur, Málarafélag Hafnarfjarðar, Rakarameistarafélag Reykjavíkur, Úrsmiðafélag Íslands, Matsveina- og veitingaþjónafélag Íslands o. s. frv. En félag framleiðendanna heitir Félag íslenzkra iðnrekenda. Í þeim félagsskap eru nálega allir þeir, sem framleiða íslenzkar iðnaðarvörur. Ég held það hljóti að vera misskilningur að setja hér Landssamband iðnaðarmanna í staðinn fyrir Félag íslenzkra iðnrekenda. Og vonast ég til, að hv. meðnm. mínir í allshn. eigi eftir að átta sig á þessu. En að öðrum kosti áskil ég mér rétt til að bera fram brtt. um þetta atriði fyrir 3. umr. Eins og tilgangur þessa frv. er að vernda neytandann, hlýtur það að miða um leið að því að vernda hinn unga iðnað, og samkv. því er sjálfsagt, að Félag íslenzkra iðnrekenda eigi þar fulltrúa til þess að gæta réttar íslenzks iðnaðar.