06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

103. mál, verðlag á vörum

*Frsm. (Gísli Guðmundsson) :

Ég tel rétt að geta þess, að allshn. hefir á þskj. 230 borið fram eina brtt. við frv. Þetta er þó aðeins orðalagsbreyting, sem ekkert snertir efni frv. og er aðeins gerð vegna þess, að við álitum það þannig í betra samræmi við almenna málvenju í ísenzkum lögum.

Í sambandi við það, sem hv. 8. landsk. vakti máls á hér, um að það væri heppilegra, að í stað Landssambands iðnaðarmanna, sem á að skipa fulltrúa í n., kæmi Félag íslenzkra iðnrekenda, þá mun það rétt, að á þetta hefir verið minnzt í n., en engin afstaða tekin til þess. Ég fyrir mitt leyti er í vafa um, að breyta eigi þessu þannig. Ég álít ekki, að Félag íslenzkra iðnrekanda hafi innan sinna vébanda alla iðnrekendur landsins, heldur aðeins nokkurn hluta þeirra, og virðist því vafasamt, að í þeim félagsskap væru færari menn til þess að gegna þessum starfa heldur en í hinum. Í Landssambandi iðnaðarmanna eru aftur á móti menn, sem hafa yfir að ráða þeirri þekkingu, sem ætla má, að sé nauðsynleg til þess að geta gert sér grein fyrir, hvaða verðlag sé rétt, og þess vegna vil ég segja fyrir mitt leyti, að ég mun vera því andvígur, að þessi breyt. verði gerð.