08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (596)

103. mál, verðlag á vörum

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil beina því til hv. allshn., hvort hún gæti ekki fallizt á þá breyt. á brtt. á þskj. 230, að fella niður orðið „nauðsynjavörur“, þannig að það væri eins og frv. var upphaflega, að heimilt sé að ákveða útsöluverð og verzlunarálagningu á tilteknum vörutegundum, en binda ekki við nauðsynjar. Að sjálfsögðu er til ætlazt með ákvæði þessara laga, að þeim sé aðallega beint gegn háu verði á nauðsynjavörum, en þrátt fyrir það geta komið fyrir þau tilfelli, þar sem um er að ræða alveg óhæfilega álagningu á vörum, sem hæpið er, hvort hægt sé að telja nauðsynjavörur. Slík brtt. kom fram á síðasta þingi í Ed., en varð að samkomulagi þar að fella till., vegna þess að talið var, að slíkar heimildir yrðu aldrei notaðar, nema alveg í sérstökum tilfellum, þegar um mjög áberandi misfellur væri að ræða. Ég vil taka það fram, að þessum ákvæðum er ætlað að takmarka hámarksverð og hámarksálagningu á vörum, sem ekki munu allir vera sammála um, að sé beint nauðsynjavörur. Mönnum er t. d. í fersku minni, að þau epli, sem kostuðu í fyrra í innkaupi um 70 aura kg., voru seld í útsölu á 3 kr. kg. Ég verð að segja það, að ég er þó ekki viss um, að það yrði litið svo á, að nýir ávextir yrðu taldir nauðsynjavörur. En ef meiningin er sú, að leggja svo freklega á vörur eins og nýja ávexti, þá er fullkomin ástæða til að hafa heimild í lögum til þess að takmarka slíka álagningu. Ég vil þess vegna mælast til þess við hv. n., að hún gæti fallizt á þessa breytingu, og legg ég fram skrifl. brtt. til hæstv. forseta.