17.12.1937
Sameinað þing: 15. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

1. mál, fjárlög 1938

*Gísli Sveinsson:

Ég vildi nota hinn stutta tíma til að gera grein fyrir þeim brtt., sem ég flyt á þskj. 427, sem nú var verið að útbýta.

Á ég fyrst brtt. undir IX. lið, við 13. gr. frv., um vegi. Ég skal taka það fram um einn af þessum vegum, sem ég flyt till. um, þ. e. a. s. Skaftártunguveginn, að hann er þegar kominn í till. fjvn. Get ég eftir atvikum sætt mig við þá till., þó að ég hinsvegar skilji ekki, hvers vegna sú upphæð hefir ekki verið tekin, sem er í minni brtt. og vegamálastjóri hefir talið vera það minnsta til þess að hægt væri að framkvæma nauðsynlegustu aðgerðir á þessum vegi. En ég mun að svo stöddu ekki fetta fingur út í þetta, heldur sætta mig við till. n., þó að hún sé 300 kr. lægri.

Í annan stað flyt ég svo undir þessum sama lið till. um veg, sem búið er að taka í þjóðvegatölu, og er það Meðallandsvegur, sem mjög mikil nauðsyn er á, eins og háttað er fyrir austan Mýrdalssand. Ég hafði hugsað mér að koma með nokkuð hærri till. um þann veg heldur en hér er farið fram á. En ég hugsaði sem svo, að lítið væri betra en ekki neitt, og vænti ég, að hv. þm. og sérstaklega fjvn. liti á það sem sanngirnismál að byrja á því að veita eitthvað til þessa vegar, til þess að gera hann a. m. k. það hæfan, að almenningur geti hugsað sér að nota hann.

Loks flyt ég svo, einnig undir IX. lið, hækkunartill. við Mýrdalsveg. Ég býst við, að fyrir fjvn. hafi legið till. vegamálastjóra um þennan veg, sem voru í samræmi við mína till. Við 2. umr. hafðist lítilsháttar hækkun á þennan veg, þ. e. a. s. úr 4 þús. kr. upp í 5 þus. kr., og þykir mér það satt að segja mjög lítið, með tilliti til þess, hvernig ýmsir aðrir liðir hjá fjvn. hafa hækkað og nýir liðir verið teknir inn, sem enginn sér, að eigi meiri rétt á sér heldur en vegagerð, sem þegar er byrjuð og mjög aðkallandi er fyrir bráðnauðsynlegar samgöngur heils héraðs, því að vegurinn í Mýrdalnum er fyrir allt héraðið, og ef honum er ekki sæmilega haldið við, má búast við því, að samgöngur við héraðið stöðvist, og sjá þá allir, í hvert óefni er komið, sérstaklega á haustin, þegar afurðaflutningarnir fara fram, því að ef þeir stöðvuðust, er farið forgörðum allt það, sem lagt hefir verið í það merkilega mál að koma upp frystihúsi, til þess að geta notað markaðinn hér í Reykjavík.

Ég vil sem sagt vænta þess, að líka sé litið með sanngirni á þær till., sem koma úr V.- Skaftafellssýslu, sem vitanlega eiga sammerkt öðrum till. í því að hækka lítillega þær fúlgur, sem ætlaðar eru til verklegra framkvæmda. En ég hefi ekki viljað bera fram lækkanir við þær till., sem ég er viss um, að ekki eiga neitt til líka rétt á sér við þær till., sem ég ber fram, því að ég tel það ekki hlutverk þm. að klípa af öðrum, heldur reyna að jafna fjárveitingarnar svo, að ekki verði þar áberandi misræmi.

Svo á ég hér till. á sama þskj., undir XV. lið, samkvæmt erindi, sem legið hefir fyrir fjvn., en með því að ég hefi ekki séð þess vott, að n. tæki til greina þær óskir, sem þar komu fram, þá hefi ég borið sjálfstætt fram þessa brtt., þar sem farið er fram á, að veitt sé úr ríkissjóði nokkuð af stofnkostnaði brimbáts í Vík í Mýrdal. Ég þarf í raun og veru ekki að fara mörgum orðum um þessa till., því að allir, sem þekkja þarna til, vita, að ef það tækist með árangri að nota slíkan bát, þá væri það hin mesta framför. Og þar sem þeir aðiljar, sem hér standa að með þessar tilraunir, eru sjálfir ekki aflögufærir, þá er farið fram á hlutdeild hins opinbera, enda er það í fullu samræmi við þær miklu útgjaldaupphæðir, sem veittar eru til lendinga og samgöngubóta yfirleitt. — Ég vil því vænta þess, að fjvn. sjái sér fært að mæla með þessari fjárveitingu, enda þótt hún hafi ekki af sjálfsdáðum viljað taka hana upp.

Ég þykist nú eiginlega ekki þurfa að fara fleiri orðum um þær brtt., sem ég flyt á þessu þskj., og út í einstakar brtt. n. mun ég ekki — eins og tímanum er háttað — fara mikið, og allra sízt út í einstaka persónulega styrki, sem alltaf hljóta að verða nokkuð misjafnir dómar um. En í ræðu hv. frsm., 2. þm. Árn., komu fram nokkur atriði, sem vert er að gefa gaum, en það er út af brtt. n. undir 46. og 83. lið á þskj. 402, sem eru styrkir til Íþróttasambands Íslands og Ungmennafélags Íslands. Út af fyrir sig eru þetta vitanlega góðar stofnanir, sem hér er um að ræða. En þegar því er haldið fram, að þær eigi fyllsta rétt á sér út frá því sérstaka sjónarmiði, að þær geti orðið einskonar hjálparhella gagn- vart ýmiskonar spillingu meðal æskulýðs landsins, t. d. áfengisbölinu, og verið er á þeim grundvelli að mæla með styrkjum til þeirra, þá tel ég, að fjvn. og raunar Alþ. í heild sinni verði að kynna sér þetta nokkuð nánar og krefjast þess, að skilríki séu lögð fram fyrir því, að þessar stofnanir, Ungmennafélag Íslands og Íþróttasambandið, séu virkilega mikils megnugar í þessum efnum.

Í sambandi við þetta vil ég geta þess, að svo er komið með ungmennafélagsskapinn í landinu, að hann er orðinn hin mesta hneykslunarhella í samkvæmis- og útilífi landsins. Það er sem sé alkunna, að höfuð-íþróttamót ungmennafélaganna, t. d. í Borgarfirði og eins á Suðurlandi, Þjórsármótið, er eitt sökkvandi áfengisdíki. Og annað tveggja er, að þeir, sem að þessum mótum standa, reynast þess ekki umkomnir að halda uppi nokkurri reglu, eða þeir eiga sjálfir mikla sök á þessu. En því miður hefir það farið svo með ungmennafélagsskapinn í landinu, að hann hefir „degenerast“. Hann hafði áður bindindi á sinni stefnuskrá eða einskonar bann við neyzlu áfengra drykkja. En þetta stefnuskráratriði hefir farið út um þúfur, og nú eru einstök ungmennafélög að reyna að rífa sig upp úr þessu aftur og stofna með sér deildir, sem eiga að vera bindindissinnaðar. — Þegar maður því ber þennan nokkuð fullorðna félagsskap saman við ýmsar aðrar uppvaxandi stefnur, þá stenzt hann því miður ekki samanburðinn. Vil ég í þessu sambandi t. d. minnast á skátahreyfinguna, sem hefir ýms tæki til uppeldisáhrifa, sem almennt hafa ekki verið notuð hér á landi, en alstaðar fara í vöxt og fá hinn bezta byr. Þessi hreyfing er því hin líklegasta til þess að geta rétt nokkuð við hinn uppvaxandi æskulýð landsins, og verður því að ætlast til þess, að hann fái meiri aðhlynningu frá því opinbera heldur en hingað til hefir verið. En svo er þessi félagsskapur kurteis, að enda þótt meðlimir hans hafi farið utan nú í sumar með mjög miklum kostnaði sjálfs sin, og gert okkur mikinn sóma og sjálfum sér gagn og ánægju, þá hafa þeir ekki viljað fara fram á hækkaðan styrk til sín, en hafa látið það orð falla, að þeir mundu koma á næsta þingi með þá málaleitun. — Nú hafði ég búizt við, að beðið yrði með að veita ungmennafélagsskapnum frekari styrk, þó að ég vildi allt gott um hann segja, en ég get því miður ekki sagt annað en það, sem ég hefi sagt. Ég skil að vísu röksemdafærslu hv. frsm.: hann vill láta þetta vera svona með ungmennafélagsskapinn, og þess vegna segir hann, að það sé, sem ekki er. — Ég er ekki heldur að áfellast hv. frsm., en er bara að segja sannleikann, sem hann líka sjálfur þekkir. Og vitanlega væri tilvinnandi að veita 2 þúsund kr. í viðbót til þessa félagsskapar, ef ástandið batnaði eitthvað við það, en mín orð eru einungis töluð til þess að leiða athygli manna að því, að það ber að krefjast skilríkja fyrir þessari starfsemi og hafa eftirlit með því, sem þar er að gerast, ef um áframhaldandi styrkveitingar verður að ræða.

Í þessu sambandi vildi ég einnig minnast á það — með tilliti til þess, að styrkurinn til stórstúku Íslands var hækkaður við 2. umr. —, að ég hefi aldrei séð nein skilríki fyrir því, til hvers sá styrkur gengur. Hvað er það, sem stórstúkan gerir, að hún þurfi á að halda til sinnar starfsemi svo þúsundum skiptir? Ég veit ekki betur en að allar stúkur, sem starfræktar eru, fái tiltölulega mikið fé frá sínum meðlimum, því að þeim er leyfður ríflegur aðgangur að því að fá af almennu fé, og er ekkert við því að segja, ef það einungis kemur að tilætluðum notum eða — svo maður ekki segi meira — nokkrum notum. En nokkrar efasemdir eru nú um það hjá mér og öðrum, að þetta komi alltaf að því haldi, sem látið er í veðri vaka. Nú vil ég biðja hv. frsm. að skilja mig ekki svo, að ég sé að gerast neinn dómari í þessum efnum, en ég tel skylt, að ekki einungis fjvn., heldur og ríkisstj. og Alþ. í heild, fái að fylgjast með í því, hvað gert er við allt þetta fé og hver sé árangurinn. Það kemur alls ekki til mála fyrir Alþ. að gangast undir það ok við eina stofnun að halda áfram að hækka og hækka styrkinn til hennar, án þess að fá nokkru sinni skilgreiningu á því, hvernig honum sé varið.

Ég býst við, að hv. frsm. athugi þetta og gefi sín tilsvör eftir því, sem hann er þess um kominn, en sérstaklega er þetta þó talað til viðvörunar og leiðbeiningar framvegis.