08.12.1937
Neðri deild: 44. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (601)

103. mál, verðlag á vörum

*Emil Jónsson:

Ég ætla að víkja nokkrum orðum að brtt. hv. 8. landsk. Að vísu hefir síðasti ræðumaður, hv. þm. N.-Þ., að nokkru leyti tekið af mér ómakið. En ég vil bæta við nokkrum rökum fyrir því, að Landssamband iðnaðarmanna er í raun og veru félag iðurekenda, án þess að fara langt út í það mál, en sem dæmi því til sönnunar, að svo hefir verið litið á af hv. Alþingi, að eðlilegra væri, að Landssamband iðnaðarmanna fremur en Félag ísl. atvinnurekenda skipaði sæti í hliðstæðri nefnd, er fulltrúi Iðnaðarsambandsins í kjötverðlagsnefnd, sem situr þar sem fulltrúi neytenda. Í öðru lagi er ekki úr vegi að benda á það, að auk þess, sem Iðnsambandið skoðast fulltrúi neytenda, hefir það mjög góða aðstöðu til að gera sér ljóst, hvert sé hæfilegt verð á íslenzkum iðnaðarvörum. Þetta eru fagmenn, sem hafa betra vit á því en þeir, sem selja vörurnar. Hv. þm. spurði, hverjir væru fagmenn í iðnaði. Það eru áreiðanlega ekki iðnrekendurnir heldur þeir, sem búa til vörurnar. Þá spurði hann, hvaða „interessu“ þessir menn, Iðnsambandið, hefðu fyrir iðnaði. Það er ofuraugljóst, að þessir menn hafa atvinnu sinnar vegna „interessu“ fyrir því, að atvinnugreinin beri sig.

Þá vil ég að síðustu benda á það, að Iðnsambandið er sú stofnun, sem ríkisstj. hefir jafnan leitað til um öll iðnaðarmál, og þessi hv. þm. og hans flokksbræður hafa mjög gengið eftir því, að til þess væri leitað um þau efni, svo þess vegna kemur mér framkoma þessa hv. þm. ókunnuglega fyrir sjónir.