27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (628)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

*Magnús Jónsson:

Það er að nokkru leyti fallin burt ástæðan fyrir því, að ég taki til máls, við það, að hv. 1. þm. Eyf. tók til máls. Ég hafði hugsað mér að beina til hans fyrirspurn um það, hvað liði till. þessarar milliþn. Það er þó ekki svo skammur tími síðan sú n. var skipuð. Maður gat því vel hugsað sér, að a. m. k. eitthvað af hennar till. væri nú þegar annaðhvort orðnar til eða þá í þann veginn að verða til. Nú hefir hv. formaður þessarar milliþn., 1. þm. Eyf., upplýst, að till. n. muni naumast liggja fyrir næsta þingi (BSt: Ja, ég vil ekki lofa því), eða a. m. k. vill hann ekki lofa því.

Er það þá ætlun þessarar n. að skila engu frá sér fyrr en hún treystir sér til að koma með allar þær till., sem hún gerir um öll bankamálin í landinu, sem henni hefir verið falið að rannsaka og gera till. um? Ég get hugsað mér, að n., sem hefir svo ákaflega umfangsmikil mál með höndum til álits og rannsóknar, gerði mjög rétt í að skila till. sínum nokkurnveginn jafnóðum og hún kemst að niðurstöðu um þær. Það væri hentugra vegna vinnubragða hér á Alþ. heldur en að demba inn á þing allt of mörgum umfangsmiklum till. í einu. Bankamálin hafa reynzt þingunum mjög erfið og hafa tekið mikinn tíma þing eftir þing. Það væri því hentugt að fá till. milliþn. í bankamálum til meðferðar á Alþ. nokkurnveginn jafnóðum og þær verða til.

Út af því, sem hæstv. forsrh. sagði, að bankastjórar Búnaðarbankans hefðu ekki hreyft andmælum gegn ráðstöfun þeirri, sem gerð er með frv., vil ég segja, að ég get vel hugsað mér, að þeir séu meðmæltir þessu. En um það lá ekkert fyrir, þegar milliþn. var skipuð. Mér þætti ekkert óeðlilegt, þó að þeir séu með þessum sparnaði, sem frv. gerir ráð fyrir, þá vildu þeir samt ekki flýta afgreiðslu þessa máls meðan milliþn. um bankamálin situr á rökstólum, með því að vera að samþ. þessa káktill.

Allir, sem nú hafa talað um þetta mál, segja, að það sé einfalt og lítið mál; sumir leggja áherzlu á, að það sé einfalt, en aðrir, að það sé ákaflega lítið mál. Hvað liggur þá á að afgreiða það endilega nú? Ég er sammála hv. minni hl. landbn., að einmitt því minna sem málið er, því minni ástæða sé til að afgr. það nú. Mér skildist á hv. 1. þm. Eyf., sérstaklega því, er hann sagði; þegar hann greip fram í mína ræðu áðan, að hann alls ekki vera fjarri því að leggja eitthvað af till. milliþn. fyrir næsta Alþ., og því hygg ég réttara að fresta þessu máli til næsta þings. Mun ég því greiða atkv. með þeirri rökst. dagskrá, sem fyrir liggur.