27.10.1937
Efri deild: 12. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 455 í B-deild Alþingistíðinda. (630)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Bernharð Stefánsson:

Milliþinganefndin starfar nú ekkert síðan Alþ. kom saman, en vitanlega get ég kallað hana saman á fund og borið málið undir hana, ef hv. d. sýnist að senda það mál til umsagnar hennar áður en þingi lýkur. En vitanlega get ég ekkert um það sagt fyrirfram, hvaða till. n. kunni að gera um málið. — Annars hefir n. enga ákvörðun tekið um það enn, hvort hún skilar áliti sínu öllu í einu, eða einhverju á næsta þingi og svo því, sem eftir verður, á þinginu 1939. Þau störf, sem enn hafa farið fram í n., eru aðeins rannsóknir á ýmsum atriðum, sem snerta þessi mál, en till. hafa engar verið samdar enn. Ég get því engar upplýsingar gefið hv. 1. þm. Reykv. um það, hvort koma muni fram frv. um einstök atriði frá n. á næsta þingi eða ekki, en mér þykir það þó líklegt, þó að ég geti ekkert um það fullyrt. En ef einhverjar till. verða gerðar til breyt. á stjórn bankanna, þá tel ég víst, að þær mundu koma frá n. allar í einu, og að því sé ekki líklegt, að lögð verði fram till. um þetta sérstaka mál, ef n. þá væri ekki tilbúin með till. um stjórn annara banka. En þetta er, sem sagt, aðeins það, sem mér þykir líklegt. Ég er ekki nema einn af 5 nm. og get því ekki um það sagt, hverjar eða hvers eðlis endanlegar till. n. verða.