24.11.1937
Efri deild: 34. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 457 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Þorsteinn Þorsteinsson) :

Það er alveg rétt hjá hv. frsm. meiri hl. landbn., sem hann sagði, að ekki hefði komið fram neitt álit frá mþm. í bankamálum né till. í þessu máli. En sú n. hefir sagzt ætla sér að gera till. á sínum tíma um starfsmannahald bankanna í heild. Því hefir heldur ekki verið mótmælt hér, að það geti vel farið svo, að einhver hluti till. þessarar mþn. geti legið fyrir næsta Alþ. Og er ekki ólíklegt, að einmitt till. um það, sem frv. fjallar um, muni þá liggja fyrir.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hér væri um óverulegar breyt. að ræða í þessu frv. Það er rétt. Og þó að þetta mál biði eftir rækilegri endurskoðun í þrjá mánuði eða svo, þá sýnist ekki mikið í húfi. En hitt er óviðkunnanlegt, að hlaupa til og grípa fram fyrir hendurnar á starfandi mþn., grípa inn í verksvið hennar áður en hún gerir þær till. um þetta mál, sem hún hefir lýst yfir, að hún muni gera.

Þetta kemur alveg í bága við skoðanir framsóknarmanna, því að í hv. Nd. var hér á dögunum af framsóknarmönnum haldið fram — og ég geri ráð fyrir að það komi ekki í bága við stefnu meginhluta Framsfl. —, að alveg óviðeigandi væri að koma fram með frv. á Alþ., sem starfandi mþn. ætti að fjalla um. Þetta var í umr. um frv. til l. um sumarvinnuskóla alþýðu, en um svipað mál fjallaði milliþn. Ég býst nú við, að hv. framsóknarmenn vilji vera sjálfum sér samkvæmir og segi ekki eitt í Nd. og annað í Ed. um þessa hluti. Í þessu efni ætti þeim því ekki heldur að þykja viðeigandi að grípa inn í störf starfandi mþn. (PZ: Ég hélt, að hv. þm. hefði séð, að ekki eru allir framsóknarþm. á sama máli, og ekki heldur sjálfstæðismenn).

Þar sem ekki er komið fram álit frá mþm. um breyt. frv. á l., sé ég ekki ástæðu til að falla frá dagskrártil. minni. En fari svo í þessu smámáli, að ekki verði gefinn kostur á að bíða álits mþn. um það, áskil ég mér rétt til að koma við 3. umr. málsins fram með rækilega sparnaðartill. við það. Því að ef á annað borð á að byrja á breytingum á þeim stutta tíma þangað til milliþn. skilar áliti um málið ... (PZ: Veit hv. þm., hvenær það muni koma?) Það er skjalfast yfirlýst, að mþn. ætlar að gera till. um starfsmannahald bankanna, þó ekki sé til tekinn neinn sérstakur tími. Og ef út í sparnað er farið í þessu efni, áður en álit n. kemur fram, þá er sjálfsagt að ganga vel frá og koma fram rækilegum sparnaði. Ég sé t. d. ekki ástæðu til að lögfesta hjá aðalbankastjóra dýrtíðaruppbót, ótakmarkaða, eftir því sem ráðh. ákveður, úr því einu sinni er búið að semja við hann — til bráðabirgða a. m. k. — um það, að hann fái ekki dýrtíðaruppbót. Eins mun ég leggja til, að lögákveðin verði laun gæzlustjóra. Þessar till. mun ég gera, svo framarlega sem dagskrártill. mín verður felld.