18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 105 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1938

*Frsm. samgmn. (Gísli Sveinsson) :

Herra forseti. Samgöngumálanefndir Alþingis hafa á þskj. 427 XIII borið fram brtt. við 13. gr. fjárl., um að hækka framlagið til flóabátaferða úr 76 þús. kr. upp í 80 þús. kr. Nú hefðu n. gjarnan viljað, að ekki hefði þurft að hækka þetta framlag, eins og nú er ástatt. En vegna brýnnar nauðsynjar á þessum ferðum, sem treglega gengur að halda uppi, hafa samgmn. ekki séð sér fært annað en að leggja til, að þessi hækkun verði samþ.

Samgöngumálan. hafa gert grein fyrir þessum till. sínum í nál. á þskj. 422. Hafa þær ekki séð sér fært að sinna öllum umsóknum um hækkanir, jafnvel þó að þær hafi átt mikinn rétt á sér, eða ekki öðrum en þeim, sem í nál. greinir. Mestu munar um svokallaðan Skagafjarðarbát, sem er nýr og ætlazt er til, að haldi uppi ferðum milli Siglufjarðar og Skagafjarðar, með viðkomu í Fljótum. Norðurlandsbáturinn hefir áður gengið vestur á Skagafjörð og austur á Langanes. En ætlazt er til, að hann losnaði við þetta og gæti tekið upp ferðir alla leið austur til Seyðisfjarðar, en það er í samræmi við umsóknir frá þeim þarna á austurkjálkanum. En á þessum nýju Skagafjarðarferðum frá Siglufirði með viðkomu í Fljótum teljum við brýna nauðsyn vegna mjólkurflutninga og annars. Báturinn er til, og hann mun treysta sér til að taka upp þessar ferðir með því að fá þennan 3000 kr. styrk, sem við gerum ráð fyrir.

Stykkishólmsbáturinn hækkar hjá okkur úr 2600 kr. upp í 3200 kr. og hefði þó hækkunin þurft að verða meiri. En það sáum við okkur ekki fært. Fljótabáturinn hækkar úr 400 upp í 500 kr., og Gilsfjarðarbáturinn, sem er nýr, ætlumst við til, að fái 300 kr.

Nefndirnar ætlast til, að sérstaklega verði samið um heppilegar ferðir og flutninga, þar sem nú er ekki til skipakostur til að annast þetta.

Eins og í nál. segir, lágu fyrir umsóknir frá aðiljum í Vestmannaeyjum og við Eyjafjörð um styrk til nýrra bátaferða: Annarsvegar milli Siglufjarðar og Dalvíkur, um Ólafsfjörð, og mætti þannig tengja bílferðir frá Akureyri til Dalvíkur, sem um alllangt skeið hafa átt sér stað, við bátaferðir frá Dalvík til Siglufjarðar, og hinsvegar ferðir milli Vestmannaeyja og Stokkseyrar, sem hafa lagzt niður um hríð, þó að þeirra sé óefað mikil þörf. N. hafa þó ekki haft tök á að rannsaka þetta mál nánar, en vilja mælast til þess við ríkisstj., að hún láti Skipaútgerðina athuga möguleika á þessu fyrir næsta þing.

Báðar n. leggja mikið upp úr því, að samræmdar verði ferðir flóabátanna og strandferðirnar, enda virðist það vera sjálfsagt mál.

Þá segir í nál. frá nýju atriði, þar sem n. leggja til, að þessir flóabátar, sem allir berjast í bökkum, séu losaðir við að annast flutning milli skips og pósthúss á pósti þeim, sem þeir eru annars skyldir að flytja yfir sjóinn, og jafnframt losaðir við kostnað af þeim flutningi. Þessi flutningur hefir sumstaðar reynzt miklum örðugleikum háður, t. d. hjá Borgarnesbátnum, að flytja póstinn á bílum til og frá skipinu.

Þá vil ég geta þess, að fyrir nefndirnar kom skylt efni þessu, strandferðamál, þar sem farið var fram á, að athugað væri, að hve miklu leyti væri hægt að leggja niður ferðir v/b Skaftfellings, sem fer með suðurströndinni, og. til hvers þá ætti að verja styrknum, sem hann hefir fengið. Þegar um þetta hefir verið rætt í Skaftafellssýslum, sýnist helzt hafa verið ráð fyrir því gert, að fénu yrði varið til samgöngubóta á landi. N. hafa þó komizt að þeirri niðurstöðu, að enn sé ekki tími til kominn að leggja niður ferðir Skaftfellings. En það hefir orðið að samkomulagi að leggja til, að þetta verði athugað fyrir næsta þing, svo að þá sé hægt að leggja fram skýrslu um það atriði. Það eru verzlanir, bæði kaupfélag og aðrar verzlanir í Skaftafellssýslu. Það er því ekki hægt að rasa að þessu, heldur verður undirbúningur að hafa átt sér stað, og fyrr má ekki aftaka þetta en sýnt er, að hægt sé að fullnægja þörfinni á annan hátt.

Ég hefi ekki talið tiltækilegt að minnka þennan styrk, því þessi útvegur, eins og reyndar fleiri útvegir, ber sig engan veginn og vinnur með stöðugu tapi. Hlutaféð er, eins og vant er að vera við slíkar stofnanir, allt tapað, og þeir, sem standa þarna að, hafa sumpart með lánum orðið að standa undir þessu. Styrkurinn var líka hærri á tímabili heldur en hann er nú. Ef klipið er af þessu og það minnkað nú með sömu „1 rósentu“, sem fjvn. ætlast til að tekin sé af styrkjunum, bæði á sjó og landi, þá minnkar þetta af sjálfu sér. En það er ekki hægt að færa það beinlínis niður. Ég mun annars, og aðrir með mér, reyna að sjá um, að frekari skýrslur um þetta atriði liggi fyrir þinginu, þegar það kemur næst saman.