14.12.1937
Neðri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

14. mál, Búnaðarbanki Íslands

Frsm. minni hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Hv. þm. A.-Húnv. sagði, að það hefði ekki verið rétt með farið hjá mér, að ég hafi ekki vitað um hans afstöðu í n., því að hann hefði talað um það á fundi að afgr. málið með rökst. dagskrá. En ég sagði, að enn væri ekki komið neitt nál. frá hinum hl. n., og mér var ekki kunnugt um þessa rökst. dagskrá, enda er hún nú fram komin skrifleg.

Þessi rökst. dagskrá er byggð á því, að ekki sé rétt að taka þennan þátt bankamálanna út úr, þar sem nú sé starfandi mþn. í þeim málum. Ég hygg nú, að það geti ekki valdið neinni truflun á störfum þeirrar n., þó að þessi breyt. sé gerð á stjórn Búnaðarbankans, svo að ég fyrir mitt leyti vil mæla á móti hinni rökst. dagskrá, sem hér er fram komin.

Hv. þm. gat þess, að hann væri mótfallinn því ákvæði, að búnaðarbankastjórinn hefði 12 þús. kr. laun og dýrtíðaruppbót að auki. Út af fyrir sig get ég verið hv. þm. sammála um þetta, en hinsvegar verð ég að halda því fram, að miðað við þau laun, sem öðrum bankastjórum eru greidd hér á landi, þá geti þau ekki verið lægri. Ég hefi þann metnað fyrir hönd Búnaðarbankans, að ég get ekki sætt mig við, að hans bankastjóri sé settur mjög miklu lægra heldur en aðrir bankastjórar. (BB: Það er nú gert samt). Já það er gert, og ég álit, að hér sé of mikill munur á hvað þetta snertir. Ég er því hissa á hv. þm. A.-Húnv., sem er landbúnaðarmaður fyrst og fremst, að hann skuli álita rétt að lækka laun þessa bankastjóra út af fyrir sig. Mér virðist þetta því ekki nein rök fyrir því, að frv. eigi ekki að ná fram að ganga.