18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1938

*Sigurður Kristjánsson:

Herra forseti! Ég á 2 brtt. á þskj. 427. Önnur þeirra er við 13. gr. og er um hafnargerð. Þar er farið fram á, að til hafnargerðarinnar á Þórsh. sé hækkað tillagið úr 11 þús. kr. upp í 16 þús. kr. Þetta stendur þannig af sér, að hreppsnefndin hefir gert sínar áætlanir og byggt á þeim sínar ráðstafanir til fjáröflunar. Nú voru samþ. í fyrra hafnarlög fyrir Þórshöfn, og þar var ákveðið, að ríkið legði fram 2/5 til hafnarinnar, eins og reglan er nú orðin. En það er náttúrlega óbundið, hversu ört fé er veitt til þessa. Það er eðlilegt, að þetta fari nokkuð eftir getu staðarins sjálfs til þess að leggja fram sinn hluta. Það er viðurhlutamikið að raska áætlunum fyrir hreppsnefndinni, og ef kauptúnið sér sér fært að leggja fram verulegt fé í eitt skipti, þá er nauðsynlegt fyrir ríkissjóðinn að koma á móti því heldur en að vera að láta 2–4 þús. á ýmsa staði. Það virðist miklu óeðlilegra heldur en að gera þetta dálítið myndarlega í eitt skipti. Það munar ekki mikið um 5 þús. kr., en þær geta haft mikla þýðingu fyrir framgang verksins, og þess vegna vil ég leggja áherzlu á, að hv. þm. taki það til athugunar, hvort þetta er ekki heppilegri ráðstöfun. En það er alveg víst, að hér er ekki um að ræða fé, sem annars myndi ekki vera veitt. Það er aðeins um tímaspursmál að ræða.

Á sama þskj. er brtt., sem ég hefi borið fram, við 14. gr. viðvíkjandi héraðsskólunum. Þar er um að ræða beina hækkun, sem stafar af því, að ég treysti mér ekki til þess að fara fram á, að þingið ákveði meira en helming af þeirri fjárhæð, sem þar er veitt til stofnkostnaðar héraðsskóla, til eins skóla. Mér hefir skilizt, að fjvn. ætlist til, að tillagið, sem er 28 þús. kr., skiptist milli 4 skóla . En nú stendur þannig á, að Reykjanesskólinn hefir engan eða lítinn byggingarstyrk fengið. Þessi skóli hefir starfað í nokkur ár og farið mjög myndarlega af stað, og sýnist ætla að verða höfuðskóli Vestfirðinga. Ég vil nefna sem dæmi um það, hversu myndarlega skólinn hefir farið af stað, að síðasta ár starfaði hann í 10 mánuði og hafði 241 nemanda alls. Skólinn er bæði fyrir bóklegt nám og fyrir íþróttir. Að sumrinu er ætlazt til, og enda fastákveðið, að þar verði verklegt nám, bæði lært sund og ýmiskonar jarðyrkjustörf, og þá sérstaklega garðyrkja, sem þessi staður er vel til fallinn, þar sem geysilegur jarðhiti er þar. Samanborið við starf annara héraðsskóla þá er ekki hægt að neita því, að það er geysimikið, sem þessi skóli hefir fyrir stafni, og það hefir sýnt sig, að hann þarf ekki að bresta nemendur.

Nú standa að þessum skóla það myndarlegir menn, að þeir treysta sér til að standa straum að sínu leyti af byggingum skólans eða þeim viðaukum, sem nauðsynlegir eru nú. Það er fastákveðið að byrja nú þegar í vetur á verklegu námi, sem getur að nokkru leyti orðið undirbúningur undir þessar byggingar. Það er víst og ekki hægt að mótmæla því, að þessi skóli mun fá ríkisstyrk, eins og reglan er í l., á móti framlagi héraðsins eða þeirra sveitarfélaga, sem að honum standa, og því er það, að þetta fé, sem farið er fram á að auka við upphæðina, eða þessi hækkun úr 28 þús. kr. upp í 38 þús. kr., er fé, sem verður veitt á sínum tíma. Það er því ekki hér að ræða um annað en tímatilfærslu. Það stendur alveg sérstakl. á með þennan skóla, að það er ekki hægt annað en eyða því fé á næsta ári, sem áætlunin fer fram á eða gerir ráð fyrir, svo héraðið yrði annars að leggja þetta fé fram í bráðina. En það getur verið óþægilegt fyrir héraðið að verða að fá lán upp á ríkisstyrkinn á fjárl. fyrir 1938, og það væri miklu æskilegra, að ríkissjóður gæti komið á móti héraðinu með fjárframlag nú þegar.

Það er að sönnu ekkert ákveðið um það í fjárlagafrv., hvernig þessu fé verði skipt, svo það væri eftir rekstri þessa skóla ekki óeðlilegt, að hann fengi þessar 10 þús. kr., sem hér er farið fram á, af fénu óskiptu, en það er þó ekki hægt að treysta því, að svo verði. Það getur ekki orðið nema með því móti, að um leið verði nokkuð skertur hlutur hinna héraðsskólanna, sem ætlazt er til, að eigi hlutdeild í þessari fjárveitingu. Ég hefi því heldur kosið að fara þá leið, að bera fram till. um þennan viðauka, 10 þús. kr., heldur en að hinir skólarnir yrðu ef til vill afskiptir, svo það raskaði fyrirætlunum þeirra um byggingar eða aðgerðir húsa.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli á því, að það er ákaflega óheppilegt að vera alltaf að smáklístra viðaukum við þessa skóla, en gera ekkert hreinlega í einu. Ég hefi veitt því athygli, að hús, sem byggð eru þannig smátt og smátt, verða dýrari, og það getur jafnvel dregizt svo lengi, að ein byggingin sé farin að fúna áður en hin er fullgerð, og verður að telja slíkt óheppilegt.

Þá á ég hér brtt. við 15. gr., sem eru smástyrkir til 4 manna. Ég hefi áður gert það, við 2. umr. fjárl., að mæla fyrir þessum till., sem ég tók þá aftur til 3. umr. Ég þarf ekki í raun og veru að endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá. Það er hv. þm. kunnugt, að allir þessir menn eru mjög maklegir þessara styrkja, og ég geri ráð fyrir, ef hv. þm. greiða atkv. á móti þeim, þá sé það í sparnaðarskyni. En sá sparnaður er ákaflega lítilfjörlegur, þegar það er athugað, að sú hækkun, sem verður á fjárl. með þessum till., nemur ekki nema kringum 5 þús. kr. alls, til allra þessara manna.

Það eru nýir liðir til þriggja söngvara, Eggerts Stefánssonar, sem farið er fram á 2 þús. kr. styrk til, en til vara 1200 kr., Sigurðar Skagfields sömuleiðis 2 þús. kr. og til vara 1200 kr., og til Einars Markans 1000 kr. Svo er till. um 1000 kr. styrk til Eggerts Guðmundssonar listmálara.

Allir þessir menn eru þekktir í sinni list, og eins og ég sagði áður, þá þarf ekki að efa það, að hv. þm. álíta þessa menn vel verða þessara styrkja, og þó þeir væru miklu riflegri. Það getur ekki verið af sparnaðarástæðum, ef menn skera þessa styrki niður.

Þá fer ég fram á, að styrkurinn til Guðbrands Jónsonar prófessors sé hækkaður. Hann er þjóðkunnur maður fyrir sín fræðistörf, og það er ekki hægt að neita því, að þessi maður er kominn í röð hinna merkari fræði- og vísindamanna í sinni grein. Eftir því sem ég bezt veit, þá gefur hann sig eingöngu við rannsóknum og ritstörfum, og er hann talsvert afkastamikill maður. Hann hefir 1500 kr. styrk á fjárl., en ég fer fram á, að hann hækki upp í 2400 kr., og í samanburði við ýmsa aðra, sem njóta styrks til svipaðra hluta, er þetta of lág heldur en of há upphæð.

Ég gæti sagt margt um verðleika þessara manna, hvers um sig, en ég ætla ekki að tefja tímann með því. Ég vil vísa til þess, sem ég hefi áður sagt við 2. umr. um þetta efni almennt eða um styrki til listamanna. Ég vil undirstrika það, að eitt af því, sem ber einna bezt hróður Íslands til annara þjóða, eru verk listamanna okkar, en auk þess eru þeir og list þeirra einskonar skóli, einskonar háskóli fyrir þjóðina, og þess vegna er það ekki rétt að mæla þá á neinu lúsarmælikvarða. Ég vil treysta hv. þm. til þess að gera það ekki. Það er ekki aðeins smækkandi fyrir listina að mæta slíku skilningsleysi, heldur er það smækkandi fyrir þá menn sjálfa, sem leggja svo vitlausan mælikvarða á listina, eins og gert er með því að vera að myrða smástyrki til þessara manna, sem vitanlega eru allt of smáir.

Þá á ég hér brtt. við 16. gr., ásamt hv. 2. þm. Reykv. Það er ekki um nein ný fjárframlög, en ég vil leyfa mér að fara um þessa till. nokkrum orðum. Hún er um það, að af atvinnubótafénu, sem er ½ millj. kr., verði 60 þús. kr. varið til þess að vinna að íþróttasvæðinu hér við Öskjuhlíð. Það er orðið alveg ljóst allri þjóðinni, hversu geysilega mikilsvert það er fyrir þjóðina, að íþróttalíf eflist hér og verði sem heilbrigðast, og nú er þó svo langt komið, að íslenzkir íþróttamenn eru farnir að sækja mót í öðrum löndum, og einnig að bjóða mönnum og taka á móti mönnum og flokkum frá öðrum þjóðum, og það frá stórþjóðunum, til keppni hér á Íslandi. Það er út af fyrir sig mjög mikils virði, en hitt er þó aðalatriðið, hversu stórkostlega þýðingu það hefir fyrir uppeldi þjóðarinnar, að íþróttalífið eflist og verði almennt. Það er líklegt, að við munum græða meira á því að efla þessa hlið menningar heldur en nokkra aðra, sem einhver rækt er lögð við hér á landi. Líkamleg heilbrigði manna er svo mikils virði, og ekki sizt fyrir það, að henni fylgir einnig andleg heilbrigði. Það hefir verið á það minnzt og fyrir því færðar fullar sannanir, að mjög mikið af því, sem miður fer í fari manna, ýmsir lestir og brestir, sem ungir menn hafa, stafi af því, að þeir hafi ekkert fyrir stafni. Þá brestur atvinnu og þá brestur einnig verkefni, en íþróttalífið hrífur menn frá gjálífi og ýmsu, sem miður fer, og gerir þá að manndómsmönnum og styrkum stoðum í þjóðfélaginu.

Nú er það gefinn hlutur, að hér í Reykjavík eða í nánd við Rvík hlýtur að verða miðstöð þessarar íþróttamenningar, þar sem öll landsmót eru haldin hér, og svo þegar útlendir íþróttamenn koma hingað, þá fremja þeir aðallega listir sínar hér og hafa sína kappleika hér. Af þessu er það alveg ljóst, að hér í Reykjavík eða í nánd við hana verður að vera fullkomið íþróttasvæði, og vitanlega ekki aðeins fyrir Rvík, heldur einnig fyrir alla þjóðfélagsheildina. Reykjavíkurbær hefir litið á þessa nauðsyn og lagt út fé fyrir landssvæði, sem er 80 hektarar að stærð og liggur sunnan við Öskjuhlið og alla leið suður að Skerjafirði. Þetta hefir kostað 80 þús. kr., sem Rvík hefir þegar tekið að sér að greiða. Auk þess hefir Rvíkurbær veitt til vinnu á þessu svæði 30 þús. kr. á fjárhagsáætlun þessa árs, og eru allar líkur til þess, að því verði haldið áfram og að þessi upphæð verði jafnvel aukin.

Ef mönnum er forvitni á að vita, hvað þarna eigi að gera, þá má í stórum dráttum segja, hvernig þessu mikla svæði á að skipta niður og hvað það er helzt, sem þar á að gera. Það er ætlazt til, að það komi sundskáli suður við Skerjafjörð, fullkomlega útbúinn eins og tíðkast erlendis, og það er ætlazt til, að þar komi jafnframt bátaskýli, svo menn geti iðkað kappróður suður á Skerjafirði. Það er ætlazt til, að þar komi fullkomnir knattspyrnuvellir, og eiga æfingarvellir að vera út af fyrir sig, og svo fullkominn knattspyrnuvöllur, sem við getum boðið útlendum knattspyrnufélögum að keppa á. Það hefir ekki verið vansalaust, að þegar við höfum fengið ágæta knattspyrnuflokka í heimsókn, þá er það svo, að þegar þeir eiga að fara að leika á vellinum, þá er hann frá þeirra sjónarmiði eins og urð, svo þessir menn njóta sín ekki af því þeir eru vanir grasvelli. Þar eiga líka að vera tennisvellir og hlaupabrautir. Svo á að koma almennur leikvangur, þar sem á að vera hægt að halda stór leikmót, og hægt á að vera að taka á móti 30–40 þús. manna, ef svo vill verkast. Loks er ætlazt til þess, að kappreiðar, sem fara vanalega fram 3–4 sinnum á ári, geti farið þar fram á sérstakri hlaupabraut fyrir hesta.

Ég hefi hvorki fræðilega menntun né tíma til þess að skýra þetta nánar, en vænti þess, að hv. þm., sem flestir munu að vanda hlusta á það, sem verið er að segja hér, muni sjá, að fyrirætlunin er ekki smá og heldur ekki óþörf.

Nú er það vitað um þetta atvinnubótafé, sem ríkissjóður veitir, að það fara misjafnar sögur af því, að hve miklu gagni þau verk verði, sem unnin eru fyrir það. En ég er sannfærður um, að þarna eru svo margháttuð verkefni, að það er ekki hætt við öðru en að vinnan muni verða þarna að fullu gagni, og að miklu meira gagni en verða mundi við ýms önnur störf, sem eru þess eðlis, að þau verði ekki unnin nema að sumri til. En þarna má vinna svo, að vinnan komi að fullu gagni jafnt sumar og vetur, vegna þess, að verkefnin eru svo fjölbreytt. Af því að hér er ekki um að ræða neina nýja fjárveitingu, en sennilega eitt stærsta menningarmál íslenzku þjóðarinnar, þá þykist ég fulltreysta því, að hv. þm. muni líta á þetta með fullkomnum velvilja og skilningi.

Ég á aðra brtt. við 16. gr., sem ekki er fyrirferðarmikil. Hún er um Gilsnámu í Hólshreppi. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá hefi ég flutt till. um rannsókn á Gilsnámu. Sú till., er enn ekki komin neitt áleiðis, en ég hefði talið heppilegast, að sú till. hefði verið samþ., svo það hefði ekki þurft að vera nein sérstök fjárveiting til þess að rannsaka þessa námu, því það er erfitt að setja ákveðna upphæð, vegna þess, að við þm. erum varla bærir að dæma um, hversu mikið fé þarf til að rannsaka þessa námu. En það er álit margra, sem meira vit hafa á þessu máli en ég, að þarna sé um verulega arðvænlega námu að ræða, og ef til vill séu þar miklu fleiri jarðefni heldur en beinlínis brennsluefni.

Nú hefir fjvn. lagt til, að ætlaðar verði 1500 kr. til rannsóknar á þessari námu og fleiri námum, en ég held, að n. hafi ekki gert sér grein fyrir, hvað námurannsókn þýðir. Það þýðir ekki að vera að senda Pétur eða Pál í námu og segja honum að rannsaka hana. Það verður að fá fullkominn vísindamann á því sviði til þess að framkvæma það verk og það er mjög líklegt, að það þurfi að fá útlendan sérfræðing til þeirra hluta. En þá er sýnilegt, að þessar 1500 kr. hafa litið að segja. En þegar svo er orðað, að veitt sé allt að þessari upphæð, sem farið er fram á, þá er þar með tryggt, að ekki sé meiru til þess varið heldur en þarf og ríkisstj. er fært.

Ég hefi leyft mér að fara fram á, að þessi liður hækki upp í 5 þús. kr., því ég er alveg sannfærður um, að það er alveg eins gott að fella liðinn niður eins og að hafa hann með upphæð, sem engar líkur eru til, að bægt sé að vinna verkið fyrir, svo að það verði að nokkru gagni. Ef það er þess vert að rannsaka það, hvort dýrmæt jarðefni og vinnanleg eru til hér á landi, þá verður að haga undirbúningnum þannig, að hann sé ekkert kák, svo ekki fáist ályktanir, sem ekki eru byggðar á þekkingu og leiða menn kannske afvega í málinu.

Þá á ég hér tvær brtt. við 18. gr., báðar mjög fyrirferðarlitlar. Önnur þeirra er um það, að hækka skáldalaun Guðmundar Friðjónssonar úr 1800 kr. upp í 2400 kr. Ég hefi einhverntíma áður farið fram á hækkun á skáldalaunum Guðmundar, og fékk ég þau þá hækkuð úr 1500 kr. upp í 1800 kr. Ég vil nú minna á það, án þess að fara að endurtaka mikið af því, sem ég sagði þá, að þessi maður mun nú kominn nálægt sjötugu. Hann er heilsulítill maður og ekki líklegur til að verða þungur á fóðrunum hjá ríkissjóði úr þessu. En þetta er sá maður úr íslenzku bændastéttinni, sem langsamlega mest hefir lagt til íslenzkra bókmennta, auk þess er hann mikill fyrirmyndarmaður sem bóndi og heimilisfaðir. Hann hefir setið föðurleifð sína og bætt hana og prýtt á allan hátt. Hann hefir komið upp mörgum börnum, auk þess sem hann hefir lagt mikinn skerf til íslenzkra bókmennta og orðið til hins mesta sóma fyrir íslenzka bændastétt á því sviði einnig.

Hinn maðurinn, sem farið er fram á, að fái aukinn styrk, er Jakob Thorarensen. Hann er merkilegt skáld og rithöfundur, og eru honum ætlaðar 1200 kr. á fjárlögum. Þegar ég ber þennan mann saman við aðra rithöfunda og skáld, og þegar ég ber styrk hans saman við styrk ýmsra annara manna, sem að mínu áliti ættu sannarlega ekki að fá styrk, þá undrast ég það mat, sem kemur fram í þessu hjá hv. þdm., og ég veit satt að segja ekki, hvar þeir hafa fengið þann mælikvarða, sem þeir leggja á Jakob Thorarensen. Ég held helzt, að þeir hafi nagað hann; a. m. k. er hann ákaflega stuttur.

Þar sem hér er ekki um að ræða nema 800 kr. hækkun, eða upp í 2000 kr., þá vænti ég þess, að hv. þm. líti á þetta með sanngirni og vilji gera sér það til sóma að leggja dálítið réttlátari mælikvarða á þennan mann.

Ég hefi farið hratt yfir þessar till., til þess að tefja ekki mjög tíma hv. þm., en ég ætlast til þess, að þeir taki engu að síður tillit til þeirra vegna þess og sýni þeim verðskuldaða veðvild.