18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (68)

1. mál, fjárlög 1938

Jón Pálmsson:

Hv. fjvn. hefir við þessar umr. ekki skilað neinu framhaldsnál. um sínar till., og skal ég taka það fram að því er snertir afstöðu okkar sjálfstæðismanna í n., að ég get í aðaldráttum vísað til þess, sem ég sagði við 2. umr. fjárl. Til viðbótar skal ég geta þess, að þegar komu til meðferðar þær lækkunartill., sem fjvn. leggur til, að gerðar séu frá því, sem ákveðið er í fjárlagafrv., þá var um þær hin bezta samvinna. En hinsvegar töldum við sjálfstæðismenn mjög eðlilegt, að úr því að farið væri að lækka um 10% framlag til opinberra framkvæmda, þá væri talsvert fleira tekið undir þann lið en gert er, og skal ég tilnefna benzínvegi, sem er ætlað 275 þús. kr., til atvinnubóta, sem 500 þús. eru ætlaðar til, skuldaskilasjóð útvegsmanna, sem ætlaðar eru 160 þús. kr., og auk þess lögðum við til, að felldur yrði niður af fjárlfrv. liðurinn til vinnumiðlunar, 15 þús. kr. Þetta er samtals 109 þús. kr. En það kom í ljós, þegar þetta var rætt í n., að það voru um alla þessa liði það fastir samningar á milli stjórnarflokkanna, að það gat ekki náðst samkomulag um þessa lækkun.

Það segir sig vitanlega sjálft, að við stjórnarandstæðingar berum enga ábyrgð á slíkum hlutum og stöndum utan við það að binda okkur við samninga stjórnarflokkanna á einn eða annan hátt. En þrátt fyrir það, þó að ég og flokksbræður mínir í n. lítum svo á, sáum við ekki ástæðu til þess að fara að koma með brtt. við þessa liði, þar sem fyrir fram var vitað, að þær yrðu allar drepnar.

Fyrir mig persónulega skal ég taka það fram, að ýmsar af smærri till. n. eru á þann veg, að ég var á móti þeim í n. og geri ráð fyrir að greiða atkv. á móti þeim, þegar þar að kemur, en ég taldi þær ekki svo miklu varða, að gild ástæða væri til þess að fara að kljúfa n. vegna þeirra og koma með sérstakt nál.

Að öðru leyti skal ég ekki tala nánar um þessa útkomu, sem hér liggur fyrir, þar sem bæði er búið að minnast á hana í eldhúsdagsumr. og verður sjálfsagt gert frekar. En ég vil um leið mæla með nokkrum brtt., sem ég hefi gert við 18. gr. fjárlfrv. Í þessum brtt. legg ég til að lækka styrk til nokkurra manna, sem í 18. gr. eru ætlaðar upphæðir til og kallaðir eru rithöfundar og listamenn. Ég skal nefna þessa menn. Það eru: Kristmann Guðmundsson, Theodór . Friðriksson, Ólafur Friðriksson, Þorbergur Þórðarson og Guðmundur Hagalín. Gert er ráð fyrir í mínum till., að öllum þessum mönnum sé gert jafnt undir höfði, og eru þeim ætlaðar 1000 kr. hverjum. Ég skal taka það fram, að Guðmundi Hagalín eru annarsstaðar í fjárlagafrv. ætlaðar 2 þús. kr., og með þessari lækkun eru honum þannig ætlaðar 3000 kr. Tel ég ekki, að hann hafi sýnt slík afrek, að hann eigi meira skilið.

Að því er hina snertir skal ég taka það fram, að ég tel vafasamt, hvort nokkur þeirra ætti að standa með listamannsstyrk í fjárl., en ég tel meiri von um, að þessar till. geti náð fram að ganga, ef ekki er farið fram á, að styrkurinn verði alveg felldur niður.

Þá á ég hér eina hækkunartill., og er hún um það, að Jakob Thorarensen fái 1500 kr. styrk í stað 1200 kr. Hv. 6. þm. Reykv. á brtt. um það, að styrkurinn verði færður upp í 2000 kr., og gæti ég fallizt á það. Og sannleikurinn er sá, að þegar maður er að vega og meta, hvað sanngjarnt sé í þessu sambandi gagnvart þeim mönnum, sem njóta rithöfunda- og listamannastyrks hjá Alþingi, þá rekur maður augun í það og undrast, að þetta merkilega skáld skuli hafa lægri styrk en margir þeir menn, sem að mínu áliti eiga ekki skilið að fá nokkurn styrk. Hvort hækkunin til þessa manns er 300 eða 800 kr., skiptir ekki miklu máli. Ég skal geta þess, að ég veit ekki til, að hann hafi sent neina beiðni til Alþingis um styrkhækkun, og persónulega þekki ég manninn ekki neitt, að öðru leyti en af hans skáldverkum.

Þá skal ég að síðustu víkja að till., sem ég flyt með hv. þm. V.-Húnv. um það, að styrkurinn til Halldórs Kiljans Laxness sé færður úr 5 þús. niður í 2 þús. kr. Ég skal taka það strax fram, að þessi till. er ekki flutt af því, að við teljum, að þessi maður eigi að hafa nokkurn eyri í fjárl., því við erum báðir sammála um, að hann eigi að fella niður.

Fyrir mig persónulega skal ég taka það fram og ítreka það, sem ég sagði siðast þegar fjárl. voru til umr. hér á þingi., að ég tel, að það, að veita þessum rithöfundi 5 þús. kr. skáldlaun, sé svartasti bletturinn á okkar ríkisfjárlögum. Að öðru leyti er það svo, að við flytjum þessa till. um niðurfærslu niður í 2 þús. í von um, að það nái frekar fram að ganga en hitt, að fella manninn alveg niður. Og frá mínu sjónarmiði er fyllilega ástæða til þess að fara ekki lengra í þessum efnum, vegna þess, að ég hefi á 2 þingum lagt til, að styrkurinn yrði felldur alveg niður, en það hefir ekki náð samþykki meiri hl. þm. Til frekari áréttingar skal ég taka það fram sem mikilsverða ástæðu í þessu sambandi, að það virðist svo sem þessi maður hafi það miklar tekjur nú af bókasölu, að það sé út frá því sjónarmiði ekki ástæða til, að hann fái ríkisstyrk sem rithöfundur.

Að öðru leyti er ágreiningur um þetta það kunnur, að ég sé ekki ástæðu til að fara um það fleiri orðum. Og þessar fáu og smáu till., sem ég hefi hér minnzt á, legg ég svo undir dóm hv. þm., gerandi ráð fyrir, að þeir taki til þeirra afstöðu, eftir því sem efni standa til.