15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

Frsm., (Páll Zóphóníasson) :

Herra forseti! Þetta frv. hefir legið fyrir Alþ. áður í hér um bil sömu mynd og nú. Það er flutt til að stuðla að því tvennu, að sú undanrenna, sem fellst til hér á landi og ekki er til nema takmarkaður markaður fyrir, fái þarna afsetningu í gegnum brauðin, og hinsvegar að stuðla að því, að brauðin sem fæðutegund verði betri og hollari með íblönduninni.

Þetta frv. hefir legið fyrir landbn. þessarar d., og er n. sammála um að mæla með því, að það verði samþ.

Það eru aðallega 2 breyt., sem hafa verið gerðar á frv. frá því að það lá fyrir þinginu í fyrra. Önnur er sú, að nú er heimilt í staðinn fyrir þurrmjólk að setja tiltölulega sama magn af venjulegri mjólk, og hin er sú, að styrkja stöðvar, sem kunna að verða reistar til vinnslu þurrmjólkur, á sama hátt og nú er veittur styrkur til mjólkurbúa. Ég tel báðar þessar breyt. til bóta, en n. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt, í aðalatriðum a. m. k.