15.12.1937
Efri deild: 50. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í B-deild Alþingistíðinda. (696)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Það er aðeins aths., sem ég ætla að gera við 2. gr. frv., þar sem landbrh. er veitt heimild til þess að ákveða með reglugerð, að allt brauð, sem selt er í brauðgerðarhúsum, sé skylt að blanda. Mér finnst þetta of fortakslaust ákvæði og ráðh. gæti misbeitt því með því að fyrirskipa, að það brauð, sem annars ekki þyrfti að ákveða slíkt um, sé blandað með þurrmjólk. En mér skilst, að það séu aðallega hinar algengustu matbrauðstegundir, sem ætlunin er að blanda í þurrmjólk, en að ákveða þetta svo fortakslaust, finnst mér of langt gengið. Ég hefði viljað gera breyt. á þessu í þá átt, að það væru ákveðnar brauðtegundir, sem skylt væri að blanda þurrmjólk í. Það er nú ekki nauðsynlegt að koma með þessa breyt. við þessa umr., en ég ætla að athuga það til 3. umr., hvort ekki sé rétt að draga hér úr, því það getur litið út fyrir, að þetta eigi að ná til alls þess, sem framleitt er í brauðgerðarhúsum og kallað er brauð. En undir það kemur margt fleira heldur en það, sem mér skilst, að sé tilgangurinn með þessu frv., að blanda franskbrauð, hveitibrauð og rúgbrauð með þurrmjólk. — Þessa aths. vildi ég aðeins gera.