16.12.1937
Efri deild: 51. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í B-deild Alþingistíðinda. (707)

100. mál, þurrmjólk í brauð o. fl.

*Jón Baldvinsson:

Það getur ekki verið ætlun dr. Jóns Vestdals, þó að hann segi svo í áliti sínu, að það beri að blanda allt það hveiti og rúgmjöl, sem til landsins flyzt, með þurrmjólk. Hér eru engar hveitimyllur, þar sem hægt væri að blanda hveitið. Rúgmjöl mun eitthvað vera malað hér, en eigi að fara að blanda það strax um leið og malað er, þarf vísindalega rannsókn á því. hvernig mjöl geymist, sem blandað er þurrmjólk löngu áður en það er notað. Mér skilzt, að bezt sé að framkvæma blöndunina um leið og hveitið eða mjölið er tekið til bökunar. Ég vil vara við því, að þurrmjólkin sé tekin í stað nýmjólkurinnar, vegna þess að ég hygg, að brauðin verði lakari vara. Það gæti leitt til þess, að minna mjókurmagn yrði haft í brauðunum og þau samt seld dýrar. Þessu vildi ég vara við. Og ég skil till. mína sem takmörkun á rétti hæstv. ráðh. til að tína upp allar tegundir brauða og fyrirskipa þurrmjólkurblöndun í þær, og held því fram, að það sé hinn eðlilegasti skilningur, sem hægt sé í hana að leggja. Annars er ég ánægður með yfirlýsingu hæstv. ráðh. um, að framkvæmd málsins muni verða hagað eins og ráð er gert fyrir í brtt. En brtt. á engu að síður fullan rétt á sér.