18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í B-deild Alþingistíðinda. (71)

1. mál, fjárlög 1938

*Þorsteinn Briem:

Herra forseti! Ég á hér brtt. á þskj. 427,V við 13 gr. fjárlaga A. II. a. 9. Fyrri liður hennar er um framlag til Laxárdalsvegar, 3000 kr. Laxárdalsvegur liggur milli tveggja kauptúna, Borðeyrar í Strandasýslu og Búðardals í Dalasýslu, og hefir þar frá fornu fari verið fjölfarinn þjóðvegur, en vegna þess að hann hefir orðið útundan með endurbætur og viðhald í seinni tíð, hafa samgöngur þar um orðið allmjög að teppast, og hefir það orðið til mikils baga fyrir viðkomandi sveitir og jafnvel fyrir langferðafólk. Yfir sjálfa Laxárdalsheiði er vegurinn sæmilegur, en eftir Laxárdalnum má heita alger vegleysa. Kemur það sér mjög illa þar sem fjölmenn byggð á í hlut, og einkanlega verður þetta tilfinnanlegt nú, á þessum tímum, þegar Laxárdalurinn er orðinn eitt af fjársýkisvæðunum, en eitt af bjargráðunum, sem menn hugsa sér fyrir slík svæði, er stofnun rjómabúa. En fyrir þessar fjölmennu sveitir er engin leið að taka þátt í stofnun rjómabúa, meðan ekki eru gerðar þar meiri vegabætur en nú er.

Áður fyrr, eða fram til síðustu 3 ára, var það föst venja, að í þennan veg væru lagðar 2–3 þús. kr. árlega, annaðhvort í fjárl. eða með beinni fjárveitingu af viðhaldsfé. En nú síðustu árin hefir ekkert fé verið veitt í þessu skyni. Nú er vegurinn þannig, að oft verður að fara yfir Laxá, til þess að þræða þurr holt. En sú leið verður ófær, ef úrkomur eru miklar, jafnvel þó um mitt sumar sé, og er botn mjög slæmur í Laxá. Nú stendur svo á, að sá nýi vegur, sem byrjað hefir verið á í þessu héraði, er nú í miðri mýri, og er mikil nauðsyn á því, að hægt verði að halda áfram vegagerðinni, þó ekki væri nema lítinn kafla. Og því er farið fram á þetta litla framlag til þess að geta nú lítið eitt haldið áfram vegagerðinni. Vegna þess, hversu afskiptur þessi þjóðvegur hefir verið seinustu árin, verð ég að vænta þess, að Alþingi líti á þetta sem sanngirnismál.

Þá er á sama þskj. brtt. við sama lið 13. gr., A. II a. 9, um 2 þús. kr. fjárveiting til Staðarfellsvegar. Vegna þess að hann er nýkominn í þjóðvegatölu, en hefir síðan ekkert verið gert til góða, er þörfin brýn fyrir vegalagning á köflum þeirrar leiðar. En menn kannast við, að ómögulegt er hjá þeim kostnaði að komast, eftir að vegir hafa verið teknir í þjóðvegatölu. Vegurinn liggur að skólasetri og kemur stórri sveit að notum til allskonar flutninga, og auk þess langferðafólki að gagni, strax þegar vegasambandið er komið og ferðamenn taka að heimsækja þessar fögru sveitir.

Þessar tillögur eru bornar fram til þess að jafna mismuninn, sem er á framlögum til héraðanna. Ég vonast til þess, að hv. Alþingi sýni þeim sanngirni, þar sem þetta hérað hefir svo mjög verið afskipt undanfarin ár.

Því næst á ég brtt. á þskj. 428, VIII lið, við 16. gr. 2, um að hækka styrk til Búnaðarfélags Íslands úr 180 þús. í 200 þús. Till. þessi er borin fram í samráði við fleiri þm., þó að það atvikaðist svo, að ég einn yrði flm. hennar. Eins og hv. þm. vita, var framlagið til félagsins hærra áður, og um nokkurt skeið 200 þús. kr. á ári. Samtímis því, að framlag er lækkað, bætast óhjákvæmileg útgjöld á félagið. Starfsemi þess og búnaðarsambandanna eykst, því að verkefnin fara alltaf sívaxandi með auknum vandamálum landbúnaðarins og fjölgandi möguleikum. Sú aukning tekur ekki aðeins til sveitanna, heldur vaxa engu síður búnaðarfélagsstörf í nágrenni kaupstaðanna, þar sem ræktun og mælingar, sem henni þurfa að fylgja, hafa aukizt mjög síðustu árin. Einnig hafa búnaðarfélögin aukið mjög tilraunastarfsemi sína, og nú er í undirbúningi stórfelld aukning og skipulagning, sem auðvitað krefst meiri fjár. Þar sem svo miklu fé er varið til að styrkja framkvæmdir, er koma mættu landbúnaðinum að beinu eða óbeinu gagni, virðist sízt mega skera við neglur sér þau framlög, sem tryggja, að hitt komi að notum. Og það er öllum ljóst, að sú trygging fæst ekki nema með auknum tilraunum. Ræktunarframkvæmdir landsmanna síðustu hundrað árin eru ekki aðeins því að þakka, að styrkir hafa verið veittir til þeirra, heldur hafa verið teknar upp nýjar aðferðir, sem menn hafa lært fyrir tilraunir. En þó sést það æ og æ betur, hversu þeim tilraunum er í rauninni skammt komið og bráðnauðsynlegt að auka þær. Vegna þessa er Búnaðarfélagi Íslands alveg sérstök nauðsyn á að fá aukið framlag frá ríkinu.

Búnaðarfélagið hefir ráðizt í það í fullu samráði við landbúnaðarráðuneytið að gefa út búnaðarblaðið Frey. Og því var í upphafi lofað af hæstv. landbrh. að veita til þess þann styrk, sem þyrfti. En nú er til kom, hefir hann ekki talið sér skylt að greiða styrkinn. Því hefir orðið stór halli á útgáfunni. Búnaðarfélagið má ekki við því að taka fé frá öðrum þörfum upp í hallann. Og þar sem allir skynbærir menn eru sammála um, að Freyr sé til ómetanlegs gagns, ætti hvorki að þurfa til þessa að koma né hins, að leggja ritið niður.

Auk þessa er það vitað, að stjórn Búnaðarfélagsins hefir látið gefa út sögu félagsins í tveim bindum í tilefni af 100 ára afmæli þess. Ritið er stórmerk heimild. En það kostar félagið kringum 27 þús. kr. og veldur því miklum erfiðleikum þetta ár og lengur. En þar sem þess er væntanlega heila öld að bíða, að til þvílíkrar útgáfu komi aftur, er þess .að vænta, að Alþingi telji ekki eftir styrk upp í kostnaðinn. Aðrar tillögur hafa að vísu verið fluttar um styrk vegna afmælisins. En sá styrkur mun ekki vera meira en til að standa straum af öðrum kostnaði, svo sem samanköllun búnaðarþings og öðru fleira, sem ekki varð hjá komizt í sambandi við afmælið.

Hv. 2. þm. Skagf. sýndi fram á það við 2. umr. fjárl., hver nauðsyn væri að hækkun styrksins. Ég vil því ekki auka þetta fleiri orðum. Vil aðeins vænta þeirrar sanngirni, að styrkurinn verði ekki gerður lægri en hann var, meðan heildarupphæð fjárl. var miklu lægri en nú, — þar sem réttmætt væri, að hann hefði hækkað í hlutfalli við hana.