18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 120 í B-deild Alþingistíðinda. (74)

1. mál, fjárlög 1938

*Bjarni Snæbjörnsson:

Ég á eina brtt. á þskj. 427, við 14. gr., og er það nýr liður, 1000 kr. og 500 kr. til vara, til Friðgeirs Grímssonar, til þess að nema útreikning og tilbúning véla. Eins og hv. þm. vita, hefir á siðari árum verið gert allmikið til að bæta skilyrði iðnaðarins í landinu. Leiðir þá af sjálfu sér, að brátt verður skortur á hæfum mönnum til að taka að sér ýms störf í sambandi við aukningu iðnaðarins. Þessi maður, sem hér er nefndur, er mjög duglegur og hefir ágæt meðmæli frá forstjóra iðnskólans, og þar lauk hann námi með góðri 1. einkunn. Síðan fór hann í vélstjóraskólann í Reykjavík og lauk þar prófi með hárri 1. einkunn. Hann hefir einnig tekið sveinspróf í járnsmíði með góðum vitnisburði. Friðgeir hefir nú hugsað sér að sigla til Þýzkalands, og hefir fengið upptöku á góðan iðnskóla þar í landi. Er það þriggja vetra skóli. En vissa er fengin fyrir því, að hann kemst í annan bekk skólans nú þegar, og ætti því að geta lokið námi á tveimur árum. Styrkbeiðnin kom seint til þingins, því að hlutaðeigandi var bundinn við atvinnu sína — hann er annar vélstjóri á togaranum „Garðar“ í Hafnarfirði. Gat hann því ekki undirbúið umsókn sína fyrr en störfum fjvn. var lokið, og gat nefndin því ekki tekið afstöðu til umsóknarinnar. En ég vona, að hv. fjvn. og eins aðrir hv. þdm. taki vel undir þessa beiðni og minnist þess, að þetta er bláfátækur maður, sem þarf að kosta sig til tveggja ára náms erlendis. Þetta er eina brtt., sem ég ber fram við fjárlögin að þessu sinni, og vænti ég þess, að henni verði vel tekið.