22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (770)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Flm. (Sveinbjörn Högnason):

Það er óþarfi að fara mörgum orðum um frv. þetta, því að það gengur í sömu átt og frv. um sama efni, er lá fyrir síðasta þingi að tilhlutun landbúnaðarráðherra. Þá fylgdi með frv. ýtarleg grg., sem sýndi, hverra breytinga og bóta þyrfti við á mjólkurlöggjöfinni. Þetta mál hefir verið rætt mikið hér og á fundum, bæði austanfjalls og vestanfjalls, og get ég því látið mér nægja að stikla á stærstu atriðunum.

Eins og kunnugt er, voru mjólkurlögin upphaflega sett sem bráðabirgðalög 1934. Tilgangur laganna var í fyrsta lagi sá, að lækka kostnað við sölu og dreifingu mjólkurinnar. Þetta hefir heppnazt svo vel, að sölukostnaðurinn er nú kominn úr 16 aurum niður í 3-4 aura pr. lítra. Í öðru lagi var það tilgangur laganna að koma á verðjöfnunargjaldi, sem jafnaði aðstöðumun framleiðenda, og í þriðja lagi að koma á þeirri verkaskiptingu milli mjólkurbúanna, sem hagkvæmust væri fyrir báða aðilja, þá, er selja mjólk til neytenda, og hina, er láta vinna úr henni.

Það kom þá bráðlega í ljós, að svo mikill vöxtur var hlaupinn í mjólkurframleiðsluna, að verðjöfnunargjald það er áætlað hafði verið, reyndist þegar á næsta ári yfir 52 þús. kr. of lágt. Þessi mismunur var fyrir það ár greiddur af tekjum verðjöfnunarsjóðs 1936. Langmestur hluti mjólkuraukningarinnar hefir eðlilega lent á vinnslumjólkinni, og þá einkum farið í verðminnstu mjólkurafurðirnar, svo sem osta til útflutnings. Í stað þess að upphaflegu var ætlað, að vinnslumjólk næmi árlega 3 millj. lítra, er hún komin upp í 6,7 millj., og sjá þá allir, hve fjarri því er, að hið upphaflega verðjöfnunargjald hrökkvi til. En alls hefir mjólkurframleiðslan aukizt, síðan lögin voru sett, um 87%, eða úr 6,4 millj. lítra upp í 11,7 millj.

Þessi gerbreytta aðstaða hlaut að leiða til þess, að annaðhvort varð að fella verkaskiptingu búanna niður með öllu, eins og heimild var til, eða fá frekari heimild í lögum um fullkomnari verðjöfnun. Vegna hinnar auknu framleiðslu fór bilið milli þeirra, er selja mjólk til vinnslu og mjólk til neyzlu, sívaxandi. Upphaflega var gert ráð fyrir, að neyzlumjólk yrði goldin 2 aurum lægra, en reynslan sýnir, að bilið var orðið allt að 6 aurum. Árið 1936 hafði mjólkursamsalan tekjuafgang á 2. hundr. þús. kr. Það var tekið til bragðs að greiða af þessu það, sem vantaði 1935 upp á verðjöfnunargjaldið fremur en leggja niður verkaskiptingu mjólkurbúanna, enda hefði sú ráðstöfun komið langþyngst niður á mjólkurbúunum í og við Reykjavík og Hafnarfjörð, sem ekki geta framleitt skyr né osta nema með ærnum kostnaði.

Það er því auðsætt, að lögin sníða verðjöfnuninni of þröngan stakk, ef halda skal áfram á sömu braut og áður, að halda verkaskiptingu búanna. Því að það er öllum ljóst, að framleiðendur þeir, er selja mjólk sína til vinnslu, geta ekki gert sig ánægða með það, að afurðaverð þeirra skuli sífellt vera að hrapa meðan aðrir mjólkurframleiðendur halda sama verði, enda hafa komið fram ríkar kröfur um það, að verkaskiptingin félli niður, eins og heimilt er samkv. lögum. En slík breyting kæmi langþyngst niður á mjólkurbúunum í og við kaupstaðina, og því verður það að teljast heppilegast, að það fyrirkomulag haldist, að bæði verðjöfnun og verkaskiptingu sé beitt. Í 23 löndum, þar sem ég þekki til mjólkurlöggjafar, er þessu þannig fyrir komið, og sá einn munur á verði neyzlu- og vinnslumjólkur, að þeir, er vinnslumjólk selja, verða að greiða flutningsgjald til sölustaðar. Í Englandi, er 1 penny á gallon sett sem hámark í þessu skyni, og í Rínarhéruðunum eru dæmi til, að þeir, sem næstir eru sölustað, fá 1–1½ pf. meira en hinir fyrir mjólkurmagn. sem jafnt er árið í kring. Við höfum tekið þau ákvæði upp í þetta frv., að mjólkurbúin kosti sjálf flutning mjólkur og mjólkurafurða frá sölustað, og þetta gerir það að verkum, að þeir, sem skemmst eru frá sölustað (Rvík, Hafnarfirði), njóta aðstöðu sinnar í hækkuðu verði fram yfir hina, enda þótt fullri verðjöfnun sé komið á.

Ég býst ekki við því, að nokkur hv. þm. sé svo ósanngjarn, að hann geti ekki fallizt á þetta frv., og ég held, að mér sé óhætt að fullyrða, að enginn bóndi sé því andvígur, að verkaskiptingin og verðjöfnunargjaldið nái sínum upphaflega tilgangi, eins og tryggt er í þessu frv.

Til þess er ætlazt, að mjólkursölunefnd megi breyta verðjöfnunargjaldinu eftir því sem þurfa þykir. Þetta er í samræmi við þá nauðsyn, sem viðurkennd er víða erlendis. Þar eru afurðasölulögin aðeins heimildarlög, sem hreytt er árlega eftir þörfum. — Annars er þetta mál svo þrautrætt, að ég tel óþarfa að ræða það nánar.