22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (771)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Sigurður E. Hlíðar:

Ég hefi borið hér fram frv. viðvíkjandi þessu máli, á þskj. 94, og hefir því þegar verið vísað til 2. umr. Þetta frv. var ekki fyrirferðarmikið og ég sé að önnur till., sem í því fólst, hefir verið tekin upp í þetta frv. Hún er um það, að framleiðendur skuli vera undanskildir gjaldi af þeirri mjólk, er þeir nota til eigin þarfa. Þetta er orðað svo í þessu frv. 3. gr.: „Heimilt er þó hverjum framleiðanda, sem undanþágu þessarar nýtur, að undanskilja til heimilisþarfa ½ lítra á dag á hvern heimilismann“. Ég get gert mig ánægðan með þetta þar sem þessi skammtur á að vera nægur frá strangheilbrigðislegu sjónarmiði. Hin till. mín kemur hinsvegar ekki fram í frv. Ég tel það ekki samkv. raunveruleikanum að reikna 3000 l. ársnyt eftir kúna hvar sem er, en hefði kosið, að nythæðin væri miðuð við lögsagnarumdæmi. Ég gæti fellt mig við það að draga frv. mitt til baka, ef ég gæti komið inn í þetta frv. brtt. um þetta, enda þótt ég bindi mig ekki við þetta frv. að öðru leyti.