22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (772)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Ólafur Thors:

Þetta mál er gamalkunnugt og þarf því ekki langra umræðna. Því geri ég ekki allar þær misfellur, sem komið hafa á framkvæmd mjólkurmatsins frá öndverðu, að umtalsefni nú, er sumpart hafa verið eðlilegar og sumpart stafað af viljaleysi þeirra, er lögin hafa framkvæmt.

Aðalkjarni þess frv., er hér liggur fyrir, er sá, að réttast sé og öllum fyrir beztu, að komið sé á allsherjarverðjöfnun. Ég hefi aðrar skoðanir á þessu og rökstuddi þær rækilega í lok síðasta Alþingis. Það kann að vera rétt hjá hv. aðalflm. að svipað fyrirkomulag gildi í 23 löndum. (SvbH: Ég get lánað hv. þm. skýrslu um þetta). Það er ekkí nema eðlilegt, að ég taki upplýsingum þessa hv. þm. með varfærni, eftir þá kynningu, sem ég hefi haft af honum í þessu máli. En hvað sem í þessu efni kann að gilda annarsstaðar, þá veit ég, að hv. þdm. hljóta að viðurkenna, að meginmunurinn í þessu máli, að því er snertir íslenzka staðhætti annarsvegar og hinsvegar það, sem mun vera annarsstaðar, er sá, að annarsstaðar, þar sem slíkri löggjöf hefir verið komið á, eru svo góðar samgöngur, að framleiðendur geta alltaf verið öruggir með að koma mjólkinni á neyzlustaðinn sem óskemmdri vöru og í óbreyttu ástandi, nema hvað hún kann að vera gerilsneydd, en hér er þetta öryggi um aðflutninga frá héruðunum austanfjalls ekki fyrir hendi. Þetta tel ég skipta ákaflega miklu máli, ef hægt er að fullyrða það, sem ég tel hægt að fullyrða, að þessar sveitir geti ekki veitt öryggi um aðflutninga á hverjum degi, og ef svo aðrar sveitir geta veitt fullkomið öryggi í þessu efni, þá breytir það eftir mínu viti ákaflega mikið eðli málsins. Þessu held ég fram fyrir mitt leyti. En þar við bætist svo líka það, sem einnig er vitað, að bændur vestanfjalls hafa stofnað til síns búskapar á miklu dýrari grundvelli en bændur austanfjalls og þurfa þess vegna á öðru og hærra verði að halda, ef þeir eiga að hafa sæmilegar líkur fyrir svipaðri afkomu af búrekstri sínum og bændur austanfjalls.

Ef það á við rök að styðjast, sem ég held fram, að ekki ríki öryggi um flutninga frá héruðunum austanfjalls, og ef það hefir líka við rök að styðjast, að bændur vestanfjalls þurfi hærra mjólkurverð en bændur austanfjalls, og hærra verð en hægt er að áætla, að þeir fái, ef þetta frv. verðu samþ., þá færist hér inn í málið nýr aðili, sem hefir mjög mikilla hagsmuna að gæta, en það eru neytendurnir, sem búa á sölusvæðinu, þ. e. a. s. neytendurnir í Reykjavík og Hafnarfirði. Ég veit að menn gera sér vonir um. að bættar samgöngur kunni að geta skapað þetta öryggi, en um það liggur engin reynsla fyrir enn, og þá sýnist mér eðlilegast að draga slíka lagabreyt., þangað til hægt er að rökstyðja hana með því, að þeir bændur, sem hlutfallslega eiga sömu aðstöðu til markaðsins, þeir geti á hverjum tíma komið vörum sínum á markaðinn þannig, að þær séu óskemmdar.

Mér sýnist fljótt á litið, að nokkru meiri skilningur á bágri afkomu bænda vestanfjalls komi fram í þessu frv. en því, sem borið var fram í fyrra, þar sem þessi eyrismunur er gerður hér, sem hv. flm. gat um, en það var ekki í frv. í fyrra. En þó að það kunni að sýnast einhver litur á svolitlum vilja til sanngirni, þá er það ekki nægilegt frá mínu sjónarmiði.

Hér var lagt fram á Alþingi í fyrra frv. frá núv. hv. þm. Dal. og þáv. 2. þm. Rang. Þetta frv. hné að því að koma á verðjöfnun á mjólk án þess að útborgun til bænda vestanfjalls lækkaði, með því móti að afla verðjöfnunarsjóði nýrra tekna þannig að hann reyndist þess megnugur að standa undir hækkuðu verði austanfjalls án þess að af því þyrfti að leiða lækkun á útborguðu verði vestanfjalls. Ég gerði þá við útvarpsumr. allýtarlega grein fyrir muninum á því, sem fólst í því frv. og hinu frv. Sé ég ekki ástæðu, a. m. k. við þessa umr., að lengja umr. með því að fara út í það, en ég geri ráð fyrir, að hv. landbn., sem mun fá þetta mál til athugunar, muni einnig taka til umr. þá hugmynd, sem fólst í hinu frv. Það er mín skoðun og studdist ég þar við umsögn þeirra bænda, sem ég er fulltrúi fyrir á Alþingi, að þeir megi ekki við að taka á sig neina aukna verðlækkun frá því, sem nú er, og ég held, að þetta sé í raun og veru á vitund þeirra manna, sem eitthvað þekkja til þess búskapar, sem hér er rekinn. A. m. k. ætti hv. þm. Mýr., sem er einn af flm. þessa frv., að geta upplýst sína meðflm. um það, að hann hefir fengið fulla reynslu á því, að hann má ekki við því í sínum búskap að missa neitt af þeim tekjum, sem hann hefir fengið, og alveg sama gildir um aðra bændur á þessu svæði. Þeir eru fjárhagslega mjög illa staddir og langt frá því, að þeir megi við, að tekjur þeirra minnki, heldur þvert á móti ríka þörf fyrir, að tekjur þeirra verði auknar.

Það er náttúrlega skoðun á móti skoðun um, að það sé fyrir þessa bændur gert, að koma allsherjarverðjöfnun á, en þó trúi ég varla, að það standi skoðun á móti skoðun, heldur full¬yrðing annarsvegar á móti skoðun hinsvegar. Ég held það. Og það er mesti misskilningur hjá hv. flm., þegar hann leyfir sér að staðhæfa, að varla muni til sá bóndi, sem hér á hlut að máli, að hann vilji ekki heldur, að þetta frv. sé samþ. en að löggjöfin verði upphafin. Ég er sannfærður um, að almennt hafa menn ekki betri reynslu en það af mjókurlögunum hér vestan¬fjalls, að mjög margir bændur, kannske heildin, vildu heldur, að l. væru afnumin en að þetta frv. yrði samþ. Þeir vildu kannske helzt, að l. yrðu endurbætt, en þó á öðrum grundvelli en hér er farið fram á.

Ég mun svo reyna að koma á framfæri við umr. málsins í n. þeim till., sem við sjálfstæðis¬menn stóðum að eða studdum á síðasta þingi, en það kann að vera, að þetta sé eitt af þeim málum, sem búið er að semja um milli stjórn¬arflokkanna og þar fáist engu um breytt. Og ég vil leyfa mér að nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. forsrh., sem ég hefi nú þá ánægju að sjá framan í, hvort þetta sé eitt af þeim málum, sem stjórnarflokkarnir hafa samið um, að skuli ganga fram óbreytt. Og í því sambandi vil ég leyfa mér að spyrja hæstv. forsrh., hvort það sé satt, sem við alþm. lásum í blöðum stjórnarflokka, að búið sé að gera málefna¬samning og semja um áframhaldandi stjórnar¬samvinnu á þessu þingi, því að það er óviðfelldið fyrir okkur stjórnarandstæðinga að við skulum þurfa að lesa í blöðum um það, hvað þinginu sé ætlað að gera. Það er vel viðeig¬andi, þegar stjórnarflokkar hafa gert með sér samning, að forsrh. fyrir hönd stj. leyfi okkur alþm. einhverja þá skýrslu um slíkan málefnasamning.

Ég skal í þessu sambandi leyfa mér að minna hv. alþm. á, að nýlega fór borgarstjóri, sem á sæti hér á þingi, til útlanda. Það var upplýst við umr. í bæjarstjórn, að hann hefði ekki gefið bæjarráði skýrslu um það,hvað hann hefði í hyggju að afreka fyrir hönd Reykjavíkurbæjar í þessari fyrirhuguðu utanför, og einn bæjarráðs¬maður, Stefán Jóhann Stefánsson, fyrrv. alþm., lét falla um það orð, að ef borgarstjóri hefði farið til að semja um eitthvað fyrir hönd Reykja¬víkurbæjar án þess að tala um það fyrst og fremst við þá, sem ættu sæti í bæjarráði Reykja¬vikur, þá sæi hann ekki, að meðlimir bæjarstj. ættu erindi í bæjarráð, og jafnvel ekki í bæjar¬stjórn. Svona leit hann á þetta mál. En við, sem höfum verið meðlimir Alþingis síðan þessi stj. tók við völdum, við hefðum getað minnt þennan gleymna þm. á, að það er ekki langt síðan þessi salur, sem er talinn salur allra flokka, var not¬aður til þess af stjórnarflokkunum á þingi að afgr. í sinn hóp svo að segja hvert málið á fætur öðru, og þar voru teknar ákvarðanir, t. d. í fjárl., þar sem var ákveðið svo að segja krónu fyrir krónu, hvernig ætti að útbýta þeim hálfum öðrum milljónatug, sem ríkissjóður greiðir af hendi, gersamlega án þess að stjórnarandstæðingar hefðu um það nokkra umsögn eða áhrif þar á. Og ef borgarstjóri má ekki ætla sér að fara utan án þess að hafa þar í samráði við sig jafnvel andstæðinga sem samherja, þá þykir okkur undarlegt, a. m. k. þeim, sem erum um¬boðsmenn fyrir meiri hluta þjóðarinnar en nokkur annar þingflokkur, að gerðir skuli samningar án þess að við höfum nokkra hugmynd um það og ekkert fá um það að vita, annað en það, sem við tínum saman í blöðum, að búið sé að ákveða, að þetta eða hitt skuli verða samþ. á Alþingi.

Þó að segja megi, að þetta sé ekki beint við¬komandi því máli, sem hér liggur fyrir, þá vona ég, að hæstv. forseti telja ekki óeðlilegt, að ég hreyfi þessu við fyrstu umr. fyrsta málsins, sem kemur nú fyrir þessa d. og samið hefir verið um af stjórnarflokkunum. Ég vil svo endurtaka þessa fyrirspurn, að ég leyfi mér að spyrja um það og þykist eiga kröfu til að fá að vita, hvort núv. stjórnarflokkar eru búnir að gera með sér málefnasamning, og þá um hvað sá samningur er.