22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 482 í B-deild Alþingistíðinda. (773)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. þm. G.-K. spurðist fyrir um það, hvort mjólkurmálið svokallaða væri eitt af þeim málum, sem ættu að ganga fram á þessu þingi. Hann lét svo sem þetta kæmi sér að einhverju leyti á óvart. Ég held, þó að sjálfsagt sé að svara þessum fyrirspurnum, sem hann hefir borið fram, þá geti tæplega verið, að hann hafi spurt vegna þess, að ástæða hafi verið til að spyrja. Þetta mál, sem hér liggur fyrir nú, var borið fram á síðasta þingi og var þá yfirlýst, af mér að því er ég hygg, að málið ætti að ganga fram þá á þinginu, ef störfum yrði lokið á þinginu með þeim hætti, sem gera mátti ráð fyrir, áður en samvinnunni milli stjórnarflokkanna lauk. Ég lagði áherzlu á, að málið gengi fram svipað því, sem það var borið fram á síðasta þingi, og það hefir verið lögð áherzla á það í blöðum Framsfl. a. m. k. í heilt ár, og þær meginreglur allar, sem koma fram í frv., sem eru 3 og ég þarf ekki að telja upp hér. Jafnframt hefir verið tekið fram í blöðum flokksins, að þetta væri eitt af þeim málum, sem hefðu verið borin fram hér á þingi, eins og yfirleitt öll þau mál, sem Framsfl. bar fram fyrir síðustu kosningar, og eins var því lýst yfir, að engin mál væru borin fram, nema ætlazt væri til, að þau yrðu látin ganga fram. Þess vegna kemur það nú engum á óvart, ekki heldur þessum hv. þm., að þetta frv., sem hér liggur fyrir, á að ganga fram, og ég er viss um, að það kemur engum óbrotnum kjósanda í landinu á óvart, sem fylgist með landsmálum. Þess vegna er það gefið mál samkv. þeim yfirlýsingum, sem liggja fyrir frá Framsfl. á Alþingi og á fundum og í blöðum hans nú í hálft annað ár, að einmitt þetta mál yrði eitt af þeim aðalmálum, sem við framsóknarmenn beittum okkur fyrir, að næði fram að ganga, því að þótt ég ætli ekki að rökræða það nú, þá er það frá okkar sjónarmiði fullkomið réttlætismál fyrir bændur landsins.

Um hitt atriðið, hvort gerður hafi verið málefnasamningur milli stjórnarflokkanna og ekkert tilkynnt um það hér á þingi, heldur eins og hv. þm. segir hafi þm. orðið að tína það upp úr blöðum stjórnarflokkanna, þá vil ég segja, að það hefir hingað til, þegar stjórnarflokkar hafa gert með sér samninga, aldrei verið venja að tilkynna það á Alþingi, og það hefir ekki heldur verið venja fyrr en hjá núv. stjórnarflokkum að tilkynna opinberlega í blöðum landsins, um hvað hefir verið samið. Það er ekki heldur hægt, nema þá með því að taka upp sérstaka vinnuaðferð hér á þingi, að taka slíkan málefnasamning fyrir sem sérstakt mál. En það má á það benda, að þessi mál, sem samið er um, skipta ekki aðeins þm. máli, heldur allan landslýð miklu máli. Þess vegna voru samningarnir birtir í blöðum beggja stjórnarflokkanna, undir eins daginn eftir að samningarnir voru gerðir, og talin upp þau mál, sem samningar höfðu verið gerðir um. Jafnframt var birtur í útvarpinu útdráttur úr blöðum beggja flokkanna, þar sem skýrt var frá, um hvað hefði verið samið. Það er þess vegna fjarri því, að þurfi að tína þetta upp úr blöðum stjórnarflokkanna, og það er ekki hægt að gefa tilkynningar, sem koma betur til vitundar almennings en með því að birta þær í blöðum og jafnframt í útvarpi. Það hvílir þess vegna engin hula yfir um hvað hafi verið samið, og það hefir verið tekið fram bæði í blöðum og útvarpi, að þetta mál sé eitt af þeim, sem samið hefir verið um og ætti að ganga fram í aðalatriðunum og á svipaðan hátt og það hafði verið borið fram af framsóknurmönnum á síðasta þingi. Þetta liggur því svo ljóst fyrir, að það er að mínu áliti ástæðulaust að kvarta undan því, og ég get því ekki skilið, að þessi hv. þm. hafi nokkra ástæðu til þess, og ég veit, að hann fylgdist eins vel með í þessu máli og hver annar. Þess vegna er það jafnframt með þriðja atriðið, sem var uppistaðan í ræðu hv. þm., að borgarstjórinn mætti ekki fara utan án þess að tilkynna það í bæjarráði, að þar er ólíku saman að jafna, því að ég veit ekki til, að borgarstjóri hafi tilkynnt neitt um utanför sína, ekki heldur bæjarstjóri, og ég hefi enga tilkynningu séð frá honum í blöðum um það, hvað hann ætlaði að gera, og því síður hefi ég heyrt það í útvarpi, en ef þetta væri sambærilegt, hefði hann átt að birta bæði í blöðum og útvarpi, í hvaða erindagerðum hann færi utan. Annars býst ég ekki við að koma með neina umkvörtun út af því, að hann skyldi ekki tilkynna neitt um erindi sitt. og mér dettur ekki í hug, að hann hafi þurft að gera það, þó að ýmsir séu þeirrar skoðunar, að það hefði verið viðkunnanlegra, án þess að ég ætli að leggja neinn dóm á það, hvort hann hefði átt að skýra frá því í bæjarráði, sem er yfir hann sett. Annars vil ég ekki draga það mál inn í þessar umræður og hefi ekki gert nema að því leyti, sem hv. þm. G.-R. gaf tilefni til.

Ég álít að ég hafi þá með þessum fáu orðum svarað þessum fyrirspurnum. Ég ætla, að það hafi komið nægilega greinilega fram fyrr og síðar nú í síðastl. 1½ ár, að það er ætlazt til, að málið gangi fram, og í öðru lagi, að málefnasamningurinn hefir verið birtur á þann hátt, að ekki er ástæða til að kvarta í því efni, meðan ekki er tekin upp sú venja, sem ég get vel fallizt á að væri rétt, að tilkynna hér á Alþingi stjórnarsamninga og ræða um þá í útvarp frammi fyrir alþjóð, en það er langt frá, að slíkt hafi tíðkazt hingað til, því að það hefir ekki einu sinni verið venja, að stjórnarflokkarnir hafi birt samning sinn fyrr en núv. stjórnarflokkar gerðu það 1934, heldur var það meira og minna á huldu og kom meira fram í afgreiðslu mála, svo að það hefir verið samið um málin eitt og eitt, en ekkert tilkynnt um slíkt. Þess vegna hefir orðið í þessu tilfelli fremur framför en hitt, síðan núv. stjórnarflokkar tóku við.