22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (779)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hv. frsm. þessa máls hefir rakið mjólkurmálið svo, að ekki er tilefni til fyrir mig að segja nema nokkur orð til að svara því, sem kom fram í ræðu hv. þm. G.-K. um afstöðu þeirra, sem búa nálægt Reykjavík. Það má benda á, að eins og verið hefir undanfarið, þá hefir ekkert réttlæti ríkt í því, hvernig markaðinum hefir verið skipt. Það er ekkert nýtt, að þeir menn, sem hafa setið að markaðinum vestanfjalls, eigi erfiðara með að flytja mjólk sína á markaðinn í Reykjavík en þeir, sem búa austanfjalls, jafnvel þótt þeir eigi lengri leið að flytja hana, og er á því auðséð, að ekkert réttlæti hefir ríkt í þessum málum. Það er ekki af kostnaði við flutninga, sem þetta orsakast, heldur af því, að Mjólkurfélag Reykjavíkur gat veitt önnur kjör en þeir vestanfjalls fengu. Ef bændur fengju þá aðstöðu, sem hv. þm. óskaði eftir, eins og hann orðaði það, til að berjast um markaðinn, þá myndu þeir, sem búa hér nálægt Reykjavík og hafa bezta aðstöðuna, fara verst út úr því, en bændur austanfjalls mundu fara bezt út úr þeirri baráttu. Hér í nágrenni Reykjavíkur er smákaupstaður, sem ekki heyrir undir mjólkurlögin, og þar er ástandið þannig, að verðið til bænda er ekki nema 16–17 aurar á lítra. Þannig er það þar, sem baráttan um markaðinn er frjáls, og ég þori að fullyrða, að ég er ekki oftar heimsóttur í stjórnarráðið af öðrum mönnum en bændunum, sem þarna búa, sem eru að biðja um, að mjólkurskipulagið verði látið ná til þeirra. Sama ætlar að verða á Akureyri og Siglufirði. Sama reynsla er líka erlendis. Þar sýnir það sig, að bændurnir, sem búa á dýrustu jörðunum nálægt kaupstöðunum, þeir fara verst út úr baráttunni. Þegar vegir að markaðinum opnast, svo að bændur geta komið með vörur sínar, þá verða þeir, sem búa næst bæjunum, verst úti í samkeppninni. Þetta skipulag er því ekki sízt fyrir þá, sem næst markaðinum búa, því samkv. þessum lögum hafa þeir betri kjör en hinir. Bændur í nágrenni Reykjavíkur fundu til þessa áður en mjólkurskipulagið kom á; þá stóðu þeir í sífelldum samningum sín á milli til að koma í veg fyrir það, sem hv. þm. G.-K. var að óska þeim til handa, þessa frjálsu baráttu.

Ég held, að menn ættu að geta sameinazt um það, sem reynslan hér heima og einnig erlendis sýnir, að nauðsynlegt er að taka upp slíkt skipulag, að sama verð verði greitt fyrir vöruna á sama sölumarkaði og hver beri það úr býtum, sem kostnaðurinn leyfir. Þetta er ekkert nýtt fyrirkomulag; það er það sama og haft er í Noregi, þar sem viðurkennt er, að þetta skipulag sé komið einna lengst. Hvað viðkemur því, að láta þetta skipulag ná allt norður í mitt kjördæmi, vil ég segja það, að ég mun ekki gera kröfu til, að það verði teygt svo langt norður. Sölumöguleikar takmarkast af því, hvað langt bændum tekst að flytja óskemmda mjólk langan veg á markaðinn. Sé ég ekki ástæðu til að eyða fleiri rökum þessu máli mínu til stuðnings. Það er búið að ræða þetta mál mikið, og væri æskilegt, að menn gætu orðið sammála um lausn þess.

Um hitt atriðið, sem hv. þm. G.-K. minntist á, sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða nánar um. Ég tók eftir einu atriði, sem hann minntist á í sambandi við kaup á þessum 2 eða 3 togurum. Hann taldi, að það mundi fara eftir því, hvort fjármagn væri til í ríkissjóði, hvort þeir togarar yrðu keyptir eða ekki. Eins og skýrt er frá í frv., er gert ráð fyrir, að það fjármagn verði fyrir hendi í fiskimálasjóði. En ég hélt, að hv. þm. hefði tekið eftir því, að gert er ráð fyrir, að einstaklingar leggi fram 15–20% af kaupverði togaranna, svo það fer ekki síðar eftir því, hvort það fjármagn verður fyrir hendi. Um hluta ríkissjóðs hefir verið séð með þeim fjáröflunarfrv., sem þegar liggja fyrir.