22.11.1937
Neðri deild: 32. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 492 í B-deild Alþingistíðinda. (782)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Ólafur Thors:

Hæstv. ráðh. mun hafa misskilið mig algerlega. Orð mín féllu þannig,að ég sagði, að sumir bændur vildu heldur engin mjólkurl. en þessi. Ég gerði það ekki að mínum orðum. Ég hefi líka sýnt skoðanir mínar á þessum málum í verkinu, með því að bera fram fyrstur manna frv. til mjólkurlaga sama árið og hæstv. ráðh. var kosinn á þing. Hinsvegar hefi ég verið andvígur mjólkurlögunum eins og þau nú eru, af því að ég tel með þeim gengið á rétt umbjóðenda minna.

Ég veit ekki hvort ég á að taka það hátíðlega þegar hv. 1. þm. Rang. fer að þenja sig út af því með miður geðslegri helgislepju, að ég hafi sagt, að hann hefði meiri skynsemi en fram kæmi í ræðum hans. Hann um það, hvort honum þykir betra að búa undir því, að hann skorti skilning, heldur en að venjulegri kappgirni hans, sem að vísu oft getur orðið að rangsleitni, sé um framkomu hans að kenna. Allir vita, að kappgirni og ofsi þessa hv. þm., sem annars er vel mælandi víð undir fjögur augu, leiðir hann oft í gönur, svo að hann vill alls ekki setja sig inn í málin. Mér þætti æskilegt að hann hefði fært einhver rök fyrir því, að þetta frv. væri réttlætismál, því að staðhæfingar hans einar nægja mér ekki, af þeim ástæðum, er ég hefi þegar tilkynnt. Það sýnir m. a., hve vandaður þessi hv. þm. er í málflutningi, að hann hélt því fram, að ég hefði sagt, til að gera sem mest úr volæði umbjóðenda minna, að meðalkýrnyt hjá þeim væri 3–4 lítrar á dag. Ég sagði, að hjá sumum bændum væri kýrnytin 2000 og allt niður í 1600 lítra nú. En með því að nota litlu margföldunartöfluna, sést, að þótt lægri talan sé tekin, verður nytin þó ca. 4,5 lítrar á dag. Þetta sýnir návæmnina og ráðvendnina í röksemdafærslum þessa hv. þm. Öllum er kunnugt, að þessi dæmi eru til, og að orsakirnar eru fyrst og fremst vond hey og bann á innflutningi á erlendu kraftfóðri. Ég hefi margsýnt það og sannað með fullum rökum, að ástæða er til þess að bera kvíðboga fyrir afkomu bænda hér vestanfjalls, ef þeim er ekki sýnd full sanngirni.