06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 494 í B-deild Alþingistíðinda. (785)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Herra forseti! Landbn. hefir ekki getað orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. vill afgr. það óbreytt í öllum aðalatriðum, en gerir ráð fyrir að koma með brtt. um nokkur smærri atriði. Minni hl. taldi sig mótfallinn málinu, en kvaðst mundu bera fram brtt., þegar sýnt væri, hvort málið gengi í gegn, og hefir hann skilað sérstöku nál. Það er því ekki reynt til þrautar, hvort n. geti staðið saman um einhverjar brtt. Meiri hl. áleit rétt að afgr. málið óbreytt til 3. umr., til þess að flýta fyrir því, þar sem nú er áliðið þings og mjög stór mál eftir. Hann áleit, að ekki skipti máli, hvort brtt., sem fram yrðu bornar, kæmu fram við 2. eða 3. umr.

Eins og hv. alþm. er kunnugt, þá felur þetta frv. í sér þá aðalbreyt. frá núgildandi l., að í stað þess, að nú gildir það, að verðjöfnunarsjóðsgjald er takmarkað við ákveðið hámark, að það sé ekki yfir 8%, þá verði nú samkv. þessu frv. gjaldið lagt þannig á, að ákveðinn verðmunur verði á neyzlumjólk bænda og viðurkenndra búa á nærliggjandi svæði og hinsvegar búa í fjarliggjandi sveitum og þessu verðjöfnunargjaldi varið til að bæta upp þá mjólk, sem fer til vinnslu í viðurkenndum búum. Verðmunurinn á mjólk í nærliggjandi og fjarliggjandi búum á að vera sem næst því, sem kostar að flytja mjólkina frá markaðsstað fram yfir það, sem kostar að flytja vöruna unna. M. ö. o. á að taka upp þá reglu, sem nokkuð hefir verið rædd í sambandi við þetta mál, að sama verði gildi fyrir samskonar vöru, komna á sama sölustað.

Ég vil ræða ofurlítið um þá mótspyrnu og umr., sem um þetta mál hafa orðið utan þings og innan. Sumir hafa haldið fram, að með þessu móti sé verið að ganga á rétt þeirra manna, sem nú njóta aðallega mjólkurmarkaðsins hér í Reykjavík og til skamms tíma hafa svo að segja einir haft sölu á neyzlumjólk. Því hefir verið haldið fram, að með setningu þessara l. og framkvæmd þeirra væri verið að ganga á rétt þessara manna.

Nú vil ég ekki neita því, að í mjólkursölunefnd hafa komið fram árekstrar milli þeirra manna, sem næst markaðnum eru, og þeirra, sem fjær honum búa. En þessi ágreiningur hefir ekki komið fram vegna þess, að mjólkurlögin voru sett, heldur var hann til áður og hlaut að koma fram fyrr eða síðar. Og ástæðan var sú, að skapazt hafði aðstaða til þess að flytja inn á markaðinn meiri mjólk en hægt var að selja sem neyzlumjólk, og þess vegna varð að vinna úr nokkrum hluta hennar. Og þá hlaut að koma fram sú spurning, hverjir ættu að fá að selja mjólk sína sem neyzlumjólk og hverjir ættu að láta vinna úr sinni mjólk og búa þar með að því lakara verði, sem vinnslumjólkin gefur. En ástæðan til, að þessi aðstaða skapaðist, var sú, að á síðari árum hafa fengizt stórfelldar samgöngubætur á fjarlægum svæðum, bæði sem vegabætur og líka vegna þeirra nýju flutningatækja, sem þekktust ekki áður, sem sé bifreiðanna. Þessi mikla breyt. gerði mönnum kleift að flytja mjólk til markaðanna miklu lengri veg en áður, og ríkið hjálpaði bændum, sem bjuggu á fjarliggjandi stöðum, til þess að koma upp vinnslubúum, sem gerði enn kleifara að nota markaðinn. En hin bætta sala, hin bætta aðstaða gegnum mjólkursölunefnd, aukin ræktun, bættar engjar og tún gerðu það að verkum, að bændur hafa komið sér upp kúabúum, þar sem slíkt þekktist ekki áður.

Þetta er ástæðan til, að árekstur hlaut að myndast milli þeirra, sem áður höfðu markaðinn, og hinna nýju manna, sem voru að sækja inn á hann. Þessi hagsmunastreita var komin áður en mjólkurlögin voru sett og farið að framkvæma þau. Að vísu var þessi árekstur ekki orðinn mjög áberandi, því að harðvítug samkeppni um mjólkurmarkaðinn hlýtur ætíð að verða báðum aðiljum til stórtjóns. Þess vegna var um nokkurt skeið einskonar vopnaður friður, af því að menn sáu hilla undir skipulag, sem mundi bæta það ástand, sem komið var. En það er vitað, að ef þessi l. hefðu ekki komið þá bráðlega, hefði hlotið að koma harðvítugt stríð milli þessara aðilja, sem svo andstæðra hagsmuna höfðu að gæta, þeirra, sem höfðu markaðinn fyrir, og þeirra, sem voru að sækja inn á hann, og við höfum reynslu fyrir því frá síðustu árum, hvað slíkt stríð hefir í för með sér. Slíkt stríð átti sér stað milli mjólkurbús Mjólkurfélags Reykjavíkur og mjólkurbús Thor Jensens. Þessi tvö bú settu upp hverja búðina á fætur annari til þess að ná undir sig mjólkurmarkaðnum hér í bæ. Þannig voru stundum tvær búðir hvor við hliðina á annari eða hvor á móti annari í sömu götu, og kostnaðurinn hjá framleiðendunum við að halda uppi öllum þessum búðum var orðinn stórkostlegur. Þessi samkeppni var þess valdandi, að á stuttum tíma lækkaði útsöluverðið um 10 aura, af því að hver setti niður fyrir öðrum. Þessi saga hefði endurtekið sig í miklu stærri stíl en nokkru sinni áður, ef ekki hefði verið hafizt handa og komið á skipulagi, sem varnaði mjólkurstríði. En hefði það ekki verið gert, er sýnilegt, hvernig endirinn hefði orðið. Það hefði endað með fullkominni verðjöfnun milli þessara aðilja, en bara þannig, að mjólkin hefði farið neðst niður í það, sem framleiðendur hefðu séð sér hag í að selja hana móts við að vinna úr henni, eða m. ö. o., verðjöfnunin hefði farið langt niður fyrir það, sem hugsanlegt var, að framleiðendur stæðust við að selja hana. Nú komu mjólkursölulögin í veg fyrir þetta, en sumir hafa haldið því fram, að það hafi verið ógæfa, að l. komu svo snemma, því að ef samkeppnin, með því tjóni, sem henni hlaut að fylgja, hefði fengið að sýna sig til fulls, hefði l. verið tekið með miklu meiri ánægju en raun bar vitni um, af sumra hálfu að minnsta kosti.

Eins og ég hefi sýnt fram á, þá er aðstaðan orðin þannig hjá bændum, bæði uppi í Borgarfirði og eins austanfjalls, að ómögulegt er að halda þeim úti af markaðinum. Það er ekki hægt að vernda sérréttindi okkar, sem nær búum, nema með l. um, að þeir, sem næstir byggju markaðnum, skyldu einir hafa rétt til hans, en það væri fjarstæða, sem ekki þýðir að ræða um. Það næði vitanlega engri átt, að Alþingi færi að lögbjóða, að viss hluti bænda skyldi búa að bezta markaðnum, enda er alveg útilokað, að slík l. yrðu nokkurntíma samþ. á Alþingi. Þess vegna er ekki um annað að ræða en að setja mjólkursölulög og framkvæma þau á þeim grundvelli, sem aðstaða til mjólkursölu var búin að skapa þessum mönnum; þeir fengju svipaða íhlutun um mjólkursölu, en verkaskipting yrði viðhöfð þannig, að þeir, sem fjær byggju, skyldu vinna úr sinni mjólk, en þeir, sem nær byggju, annast söluna. En til þess að finna form fyrir þetta, verður að koma á verðjöfnunarsjóðsgjaldi, sem bætir þeim, sem vinnsluna annast, nokkuð upp það, sem þeir bera minna úr býtum fyrir sína vöru en þeir, sem framleiða sölumjólkina.

Því hefir verið haldið fram, og ég skal ekki bera á móti því, að þau rök hafa við sannleika að styðjast, að mjólkurframleiðendur í nærsveitum Reykjavíkur væru ekki það vel staddir, að þeir mættu við, að mjólk þeirra lækkaði frá því, sem hún er nú. Ég skal ekki bera á móti, að það sé rétt. En ég vil halda því fram, að það sé ekki aðalatriðið, því að alveg eins má segja með sanni um þá, sem í fjærsveitunum eru, að þeir séu ekki betur stæðir en það, að þeir megi ekki við, að allt verðfallið komi niður á þeim, en þeir sem næst búa, fái að halda verðinu sömu og jöfnu. Það verður að taka tillit til hagsmuna beggja. Það væri hart búið að héruðum, sem nú byggja afkomu sína að miklu leyti á mjólkurframleiðslu, eins og Borgarfjarðar- og Mýrasýsla, ef þannig væri gengið frá mjólkurl., að öll afföll, sem stafa frá aukinni framleiðslu og vinnslu, lentu á búendum þar, en öðrum væri tryggt fullt verð. Því að þótt sýnt yrði fram á, að bændur, sem notið hafa mjólkurmarkaður Reykjavíkur, þoli ekki mjólkurverðlækkun, þá má sýna fram á það engu síður, að hinir þola ekki verð, sem færi niður í 12 eða 11 aura.

Því hefir verið haldið fram, að mikill verðmunur sé á jörðum, er bændur í nágrenni Reykjavíkur hafa orðið að kaupa, og jörðum bænda í fjarlægari sveitum. Það er rétt, að jarðir í nærsveitum Reykjavíkur hafa verið dýrari en t. d. austanfjalls eða í Borgarfirði. En verðjöfnunin gengur svo langt, að þessi verðmunur er þurrkaður út. Frv. ákveður, að verðmunur á mjólk til bænda í nærsveitum og fjarsveitum skuli samsvara flutningskostnaði á nýmjólk. Segjum, að hann væri 3 aurar á lítra. Bóndi, sem ætti 10 kýr og fengi úr þeim 25000 líra á ári, fengi þannig 750 kr. meira á ári í nærsveit en fjarsveit. En þetta er 15% af 15000 kr., eða ef verðmunur þessi væri reiknaður 4 aurar, þá væri upphæðin 5% af 20000 kr. Eða m. ö. o., jörð nálægt Reykjavík með 10 kúm mætti vera 20 þús. kr. dýrari en jafngóð jörð fjær, að öðru jöfnu, án þess að eigandi hennar væri verr settur.

Ég sé ekki, hvernig hægt er að finna sanngjarnari grundvöll að l. um þetta efni en þann, sem lagður er með frv. Það er auðvitað eðlilegt, að hver aðili reyni að teygja sinn tota, og vitanlega mætti ég, sem einn framleiðandi á svæðinu hér umhverfis Reykjavík, óska að þeir væru almennt betur settir. En sem maður get ég ekki annað en viðurkennt, að þeir, sem fjær búa, hljóti að eiga sama rétt á sér og hinir. Og ég býst við því, að þótt bændum í fjarsveitunum verði veitt þessi réttindi, þá yrðu þeir yfirleitt ekki betur settir en bændur nærsveitanna. Um glímu bænda um markaðinn má segja það, sem haft er eftir meistara Jóni, að það sé svipað því að gaddhestar rífist um illt fóður. Þar er hvorugum gefin sérréttindi, sem þeir eiga ekki tilkall til samkv. okkar l. og landsvenju.

Ég mun geyma að bera fram brtt. mínar til 3. umr., og fer því ekki út í það að þessu sinni, hvaða breytingar ég teldi æskilegar.