06.12.1937
Neðri deild: 43. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 505 í B-deild Alþingistíðinda. (789)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Sveinbjörn Högnason:

Ef litið er á þann ágreining, sem hefir verið um þetta mál, þá væri til ofmikils ætlazt af minni hl. landbn., þeim hv. þm. Borgf. og hv. þm. A.-Húnv, að þeir fari að brjóta í bága við þá stefnu, sem þeirra flokkur hefir tekið í málinu að undanförnu með miklu offorsi, þó að auðséð sé á nál., að þeir séu farnir að linast í sókninni, enda held ég, að mér sé óhætt að segja, að þeir séu að hálfu leyti með frv., þó að hv. þm. Borgf. hafi talað á þennan hátt fyrir brtt. og nál. minni hl.

Hv. þm. Borgf. talaði um það í sinni framsögu, og eins er það sagt í nál. minni hl., að ef frv. ætti að ná fram að ganga, þyrfti að gera ýmsar breyt. á því. Ég get vel fallizt á, að þetta frv. sé ekki svo mjög aðgengilegt fyrir þá, sem ekki hafa kynnt sér málið til hlítar, vegna þess að l. um þetta efni eru mjög flókin, og verður að hafa allmikið svigrúm við slíka lagasetningu fyrir framkvæmdina í einstökum tilfellum, þar sem ekki er hægt að setja ákvæði, sem ná yfir öll einstök atriði.

Hv. frsm. minni hl., þm. Borgf., benti á nokkur atriði, sem hann vildi fá skýrara fram tekin

í l., og getur sumt af því haft eitthvað til síns máls, en þó ekki nærri því allt.

Hv. þm. benti fyrst á, að í 1. gr. væri talað um, að verðjöfnunarsjóðsgjald væri lagt á alla neyzlumjólk frá mjólkurbúum, félögum, eða einstökum mönnum. Hv. þm. sagði, að ekki væri nógu skýrt, til hverra þetta næði. Þessi gr. er ákveðin eins og í fyrri l., og eru þar ákvæði, sem gr. byggist á, sem sé að hér sé um að ræða þá staði, þar sem fram geti farið dagleg sala frá mjólkurbúum, sem viðurkennd verða til þess af landbrh. Þetta er m. ö. o. takmarkið, sem sett er fyrir því, hvar það sé, sem þetta gjald beri að innheimta, og hingað til a. m. k. hefir þetta ekki valdið neinum misskilningi eða ágreiningi um það, hvert væri það raunverulega sölusvæði, þar sem ætti að greiða verðjöfnunargjald, enda eru það starfsfélögin á sölusvæði Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem afmarka þetta, þótt mjólkursölunefnd geti ákveðið að taka einstakar sveitir undir sölusvæðið, ef hún telur það æskilegt. Þetta hlýtur að verða grundvöllurinn fyrir því, hvort sem þessar breyt. ná fram að ganga eða ekki, hvar þetta gjald beri að innheimta, og hlýtur það að vera nægilega skýrt fyrir hverjum manni, sem kynnir sér þessi ákvæði.

Þá taldi hv. frsm. minni hl., að væri óskýrt orðalag í 3. málsgr. 1. gr., þar sem stendur, að tekjuafgangur mjólkurbús eða mjólkursamsölu, á sölusvæðinu skuli renna í verðjöfnunarsjóð, en það er vegna þess, að hann hefir ekki athugað frv. nógu rækilega í sambandi við mjólkurl. frá 1935, en samkv. þeim skal á því sölusvæði, þar sem aðeins er eitt mjólkurbú, fela því framkvæmd mjólkurl., en þar sem eru fleiri bú, skuli það vera samsalan. Þess vegna er þetta þannig tekið fram um báða þessa aðilja, sem eiga að annast sölu og dreifingu og er þetta tekið fram í samræmi við l. sjálf. Á Akureyri er þá átt við mjólkurbú, en aftur á móti mjólkursamsölu hér. Það er aðeins átt við það fyrirtæki eða þá stofnun, sem annast sölu og dreifingu á hverju sölusvæði. Hitt er vitanlega fjarstæða, sem engum dettur í hug, að láta tekjuafgang einstakra búa á sama sölusvæði koma inn í þetta líka, því að þá væri burtu fallið eitt meginákvæði frv., sem er að ákveða jafnt gjald í öllum búum, sem skipta við samsöluna, þannig að þau fái fullt aðhald til þess að fá rekstrarkostnað sinn sem minnstan, því að þau bú, sem eru vel rekin, njóta þess þá sjálf, en hjá þeim, sem eru rekin verr, kemur það fram í lægra mjólkurverði. Þetta er alstaðar framkvæmt þannig til þess að skapa hjá búunum fullkomið aðhald um að hafa sem hagkvæmastan rekstur. Ég held því, að ef hv. frsm. minni hl. athugar þessi ákvæði betur og ber þau saman við l. frá 1935, hljóti hann að sjá, að ekki orkar tvímælis, við hvað er átt.

Ég vil ennfremur benda á í þessu sambandi, að nú eru liðnar upp undir 3 vikur síðan þetta frv. fór til landbn. Hefir því verið nægur tími til að koma með brtt. Nú telur hv. minni hl. n. þörf á skýrara orðalagi í frv. og ber fram sérstakt nál., en kemur ekki með neina brtt. Ég verð því að líta svo á, að ef minni hl. telur þörf á brtt., en ber þær þó ekki fram eftir 3 vikur, þá sé með því verið að reyna að tefja framgang málsins, því að tími til að athuga málið og bera fram brtt. hefir sannarlega verið nógur.

Þá minntist hv. frsm. ennfremur á það ákvæði, sem stendur síðast í 1. gr., en það er um 1 eyris uppbót á þá mjólk, sem framleiðendur á sölusvæðinu geta tryggt til sölu og selja jafnt allt árið. Það hafa komið flutningateppur úr nærsveitunum, eins og ég sagði við 1. umr., svo að þær geta í raun og veru ekki gefið fulla tryggingu fyrir mjólk í bæinn hvenær sem er. Ég þekki ekki til þess, að aðrar takmarkanir séu gerðar fyrir þessari upphæð en að hún skuli greidd á þá mjólk, sem tryggt er, að er alltaf hægt að hafa til sölu til þess að reyna að tryggja, að bærinn verði ekki mjólkurlaus. Ef hinsvegar ætti að fara lengra og taka einstakar nærsveitir undir þetta þá væri það spurning, sem ég treysti mér ekki til að svara, hvar ætti að draga slík takmörk. Þó farið yrði eftir fjarlægðum, þá yrði ekkert réttlæti í því, því að sumstaðar er hægara með flutninga frá fjarlægari stöðum en þeim, sem nær eru.

Annars gekk ræða hv. þm. Borgf. mest út á, að ekkert réttlæti væri í þessari verðjöfnun milli fjarsveitanna, og minnihl.-menn taka fram í nál. sínu, að þeir geti ekki fallizt á þá stefnu, sem frv. er byggt upp á, og það er í sjálfu sér aðalatriðið. M. ö. o., þeir geta ekki fallizt á þá stefnu, sem nú er tekin upp í löggjöf annara þjóða, alstaðar þar, sem þessum málum hefir verið skipað, að allir, sem sama markaðs geta notið, séu jafnréttháir, en aðeins hinn mismunandi flutningskostnaður skapi mismun á verði. Nú er vitanlegt, að þetta hefir verið gert alstaðar annarsstaðar, hvaða stjórnmálaflokkar sem hafa ráðið, hvort sem íhaldsmenn hafa ráðið eða sósíalistar. T. d. er nú íhaldsstjórn í Englandi, og þar eru þessi mál framkvæmd þannig, að sett eru takmörk um, hvað mikið megi draga frá mjólkurverðinu vegna vegalengdar. Það er mest sem svarar 2 aur. á lítra. Ég ætla, að hv. þm. minni hl. telji sig í stjórnmálaskoðunum skyldasta þeim aðiljum, sem þessa löggjöf hafa sett í Englandi. Þetta hefir verið gert í Noregi af sósíalistum, í Svíþjóð af sósíalistum, og í Þýzkalandi af öfgaflokki eins og nazistum, svo að allir hafa talið sér skylt að láta menn njóta jafnréttis í þessum efnum sem öðrum. Þess vegna furðar mig á, að fulltrúar bænda utan af landsbyggðinni skuli ekki geta fallizt á það réttlæti, að bændur, hvar sem þeir eru staddir með sína framleiðslu, skuli njóta fullkomins jafnréttis.

Hv. þm. sagði, að með þessu frv. væri verið að stefna í tvísýnu afkomu bænda í nærsveitum Reykjavíkur og ganga á þeirra rétt. Ég fullyrði, að um það sé engum hlöðum að fletta, að með þessum l. sé fyrst og fremst verið að vernda hagsmuni framleiðenda í nærsveitunum, sem eingöngu verða að byggja á sölu neyzlumjólkur, en hafa enga möguleika til að vinna úr sinni mjólk. Ég vil ennfremur í því sambandi benda á það, sem hv. frsm. minni hl. minntist á, að ef svo er, að þessir menn þurfi sérstaklega hærra verð en aðrir, þá liggur það líka í hlutarins eðli, að engir eru verr við því búnir að fá samkeppni um markaðinn, sem hefði sömu afleiðingar í för með sér og heima hjá hv. þm. Borgf., á Akranesi, þar sem samkeppni var um mjólkurmarkaðinn, og verðið hrundi niður úr öllu valdi, þangað til það var komið niður í 16–17 aura, og bústjórinn þar hefir sagt mér, að það sé þó meira en þeir geti borgað. Þeir m. ö. o. safna skuldum á því.

Það er því rangmæli, að þetta skipulag komi harðast niður á nærsveitamönnum, heldur er það fyrst og fremst til varnar fyrir þá. Það hefir verið það hingað til, eins og berlegast kemur í ljós á því, að nú skuli eiga að skapa meira jafnrétti en áður. Í því liggur viðurkenning á því, að þeir hafi fengið ívilnanir meira en góðu hófi gegnir. Það, sem minni hl. fer hér fram á, er því ekkert annað en að vernda þá sérhagsmuni, sem þessir menn hafa haft fram yfir aðra framleiðendur. Ég hélt að hv. þm. Borgf. mundi fremur sjá ástæðu til að skapa jafnrétti fyrir bændur í sveitum; a. m. k. munu svo að segja allir bændur í hans kjördæmi vilja það jafnrétti, að allir bændur á þessu framleiðslusvæði hafi við svipuð kjör og skilyrði að búa með framleiðslu sína.

Annars er rétt að benda á það, sem hv. frsm. meiri hl., þm. Mýr., tók fram, að þótt þetta frv. verði samþ., þá verða framleiðendurnir í nærsveitunum eftir sem áður langbezt settir með framleiðslu sína. Eins og sjá má af því dæmi, sem hann tók, þá nemur sá munur hvorki meira né minna en rentum af 20 þús. kr. Nú sér hver maður, að ekki er rétt í þessu sambandi að taka tillit til dýrleika býlanna að öðru leyti en því, sem í jörðinni sjálfri liggur. Það er ekki rétt að taka tillit til þess, þó að dýrar byggingar séu á jörðum hér í nágrenninu, því að ekki er dýrara að byggja hér en í fjarsveitunum, nema síður sé, því að flutningskostnaður er þó alltaf miklu meiri hjá þeim, sem búa langt frá kaupstað. Ég ætla, að fáar jarðir séu í nærsveitunum, sem eru 20 þús. kr. hærri að dýrleika en jarðir uppi í Borgarfirði eða austur á suðurlandsundirlendi. Ég efast um, að meðaljörð uppi í Mosfellssveit eða á Kjalarnesi sé einu sinni metin á 20 þús. kr. Ég hygg, að aðeins örfáar jarðir nái því, hvað þá að það sé dýrleikamunurinn á þeim og meðaljörðum í fjarsveitunum.

Þetta sýnir ekkert annað en það, að frá þessu frv. er gengið þannig, og þannig búið að þeim mönnum, sem nær búa, að miklu meiri ástæða væri til óánægju fyrir þá, sem fjær búa, að þeir séu ennþá afskiptir fram yfir það, sem réttlæti mælir með.

Þá talaði hv. frsm. ennfremur um, að ef þessar brtt. næðu fram að ganga, þá vildi hann tryggja betur framleiðendunum sjálfum yfirstjórn þessara mála. En eins og allir vita, þá er í l. frá 1935 það ákvæði til bráðabirgða, að mjólkursölunefnd skuli fara með þessi mál þar til samkomulag sé fengið milli mjólkurbúanna um, hvernig stj. skuli skipuð. Honum er kunnugt um, að samkomulag náðist ekki um, að búin færu með stjórnina, vegna þessara mismunandi hagsmuna. Mun voru ekki jafnréttháir, og þess vegna hafa hvorugir treyst öðrum. En þegar búið er að mynda jöfnuð milli búanna. þá er enginn vafi, að samkomulag næst þegar í stað, að framleiðendur fari sjálfir með stjórn og framkvæmd þessara mála, því að þegar þeir hafa sömu hagsmuna að gæta, þá hafa þeir enga hagsmuni nema að samsalan sé rekin sem bezt fyrir alla. Þá er horfinn sá mismunur, sem felst í l. eins og þau eru nú, þar sem hver togar sinn skækilinn, aðrir reyna að halda þeim sérréttindum sem þeir nú hafa, en hinir eru óánægðir með, hvað þeir eru miður settir en þeir, sem næst búa.

Þegar hv. þm. vitnar í, að ég hafi sagt við 1. umr., að nú sé svo komið hjá okkar nágrönnum, að framleiðendurnir sjálfir fari með stjórn þessara mála, þá er það alveg rétt, — en vegna hvers er það? Vegna þess, að þeir hafa allir komið á hjá sér fullkominni verðjöfnun, og meira að segja á sumum stöðum, er eins og ég sagði, takmarkað, hvað mikið megi draga frá vegna vegalengdar. En í þessu frv. er þó gengið lengra um þennan mismun, þar sem við leggjum til, að þeir fái hærra verð, sem á bæjarlandinu búa. Við höfum þannig gengið svo langt í því efni sem við þekkjum nokkur dæmi til, að lengst sé gengið, til samkomulags við þá, sem sérhagsmuni hafa í þessu máli. Þess vegna getur hvorki minni hl. landbn. né aðrir borið okkur á brýn, að hér sé farið lengra en góðu hófi gegnir, og ég mun fagna, þegar búið er að koma þessu réttlæti á, því að það verður til þess, að framleiðendur fara að treysta betur hver öðrum en þeir hafa gert hingað til, meðan misrétti hefir verið á milli þeirra.

Ég ætla, að ekki sé vert að fara út í það, sem hv. frsm. minni hl. tæpti á, að áreksturinn hefði skapazt af því, að bændur hefðu sjálfir farið með þetta. Ég vil benda honum á, að mesti áreksturinn varð af því, að bornar voru fram kröfur um fjölgun mjóikurbúða hér í Reykjavík. Aðalkrafan var sú, að búðum væri fjölgað og að enginn tapaði atvinnu við mjólkursöluna. Ég efast um, að nokkrir hændur hafi viljað það. Í öðru lagi var þess krafizt, að verðið lækkaði niður í 33 aura, en ég þekki engan bónda, sem hefði tekið undir það. Í þriðja lagi var krafa um, að mjólk frá sérstökum mjólkurbúum væri gert hærra undir höfði en annari mjólk, en ég hefi ekki heyrt nokkurn bónda telja það réttmætt. Ef hv. þm. hugsar sig vel um, man hann, að þetta voru mestu árekstrarnir. Og ekkert af þessu var gert vegna hagsmuna bænda.

Ég hygg, að það sé ekki miklu meira, sem ég þarf að taka fram. Það var tvennt, sem hv. þm. vildi taka tillit til hér í kringum Rvík, að ræktun væri hér erfiðari og kúahagar lélegri. Ef ætti að taka tillit til þessa, t. d. með því að borga hærra verð þar en á bezt ræktuðu löndunum, væri það afarhál braut að fara inn á. Það er alveg skýlaust þjóðhagslegt atriði, að ræktað sé þar, sem land er bezt til ræktunar fallið, og ýta undir ræktun þar.

Ég hygg, að ekki þurfi að ræða meira um þetta. Hv. frsm. meiri hl. hefir skýrt það vel, að það yrði ekki þolað í nokkurri löggjöf, að sérstök sérréttindi væru gefin um afurðasölu. Það yrði talinn vottur um ómenningu, á svipaðan hátt og ef mismunað væri í kaupgreiðslum. Það eru nógu miklir erfiðleikar þeirra, sem fjarst búa, þó að ekki sé farið að fella vörur þeirra í verði. Það er svo mikið ranglæti, að ég er alveg hissa, að nokkur þm. skuli fást til að verja það.

Ég vil aðeins benda á eitt atriði í ræðu hv. 7. landsk. Hann minntist á lækkun mjólkurverðsins í sambandi við aukna mjólkurneyzlu. Hann sagði, að okkar mjólkurneyzla mundi vera 50% minni en í Svíþjóð. Ég þekki nú engin dæmi meiri mjólkurneyzlu en hér í Rvík, lítri á mann að meðaltali. Aftur á móti er neyzla sjálfsagt meiri annarsstaðar á öðrum mjólkurafurðum, ostum og slíku. Í Englandi er eytt milljónum til þess að auka neysluna, en hún er samt ekki komin upp í ½ l. Í Stokkhólmi er neyzlan að því er ég bezt veit á milli ¼ og ½ l. á mann. Ég álít, að það sé vafasamt, að hægt sé að auka mjólkurneyzluna hér, þar sem við erum áreiðanlega í hámarki. Ég vil benda á dæmi frá Oslo. Það var reynt að lækka verðið allt niður í 20 aura til fátæklinga og skóla. En reyndin varð sú, að fólk keypti ekki meiri mjólk en áður, heldur notaði peningana til annars. Lækkunin bar engan árangur, og eftir 2 ár hættu mjólkursamtökin í Noregi að styðja þetta. Mér er sagt, og ég hygg, að það sé rétt, að þegar neyzlan er komin í þetta hámark, muni þurfa mikil átök til þess að breyta svo lífsvenjum fólksins, að það fari að nota meiri mjólk. Hitt mætti gera, að auka neyzlu á öðrum mjólkurafurðum, svo sem ostum, skyri og smjöri. Enda hefir neyzla þeirra aukizt að mun á síðari árum, síðan mjólkursamtökin komust á, og náðst betri vöruvöndun.

Þeir töluðu um það, hv. þm. Borgf. og hv. 7. landsk., að það væri hægt að gera ráðstafanir, sem yrðu skipulaginu að falli. En það er ekkert, sem er hættulegra en að misrétti haldist á milli framleiðenda. Ef ekki er hægt að bæta úr því, mun annar aðalþáttur skipulagsins hrynja, sem sé verkaskiptingin. Hún á að vera til þess að spara og til að geta greitt framleiðendum meira fyrir neyzlumjólkina. Í gildandi mjólkurlöggjöf er ekkert, sem fyrirskipar, að sumir framleiðendur eigi að fá meira en aðrir, heldur er það sem mestur jöfnuður. Enginn framleiðandi óskar eftir að fella niður verkaskiptinguna og að mönnum sé gefinn kvóti. Á þetta vil ég benda hv. þm. Þetta er mergurinn málsins, þegar um það er að ræða, hvort mjólkurskipulagið á að falla niður eða ná tilgangi sínum.