18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 133 í B-deild Alþingistíðinda. (79)

1. mál, fjárlög 1938

*Magnús Jónsson:

Ég flyt hér 2 smábrtt. á þskj. 437 og vil aðeins mæla með þeim með nokkrum orðum. Þær standa báðar undir rómv. lið II. Sú fyrri er um það, að aftur verði upp tekin fjárveiting til útgáfu ársskýrslu hinnar ísl. þjóðkirkju, 500 kr. Þessi fjárveiting stóð um nokkur ár, og siðast var hún ekki notuð, að ég hygg, af því að erfitt var að koma skýrslunni út. Nú er aftur á móti gefið út mjög myndarlega tímarit af Prestafél. Íslands, og þar er gott tækifæri til að gefa út skýrsluna.

Það mun mörgum finnast einkennilegt, að svo stór stofnun sem þjóðkirkjan er skuli ekki gefa út skýrslu um starfsemi sína, en það verður ekki gert nema með fjárstyrk, svo að ég leyfi mér að fara fram á 500 kr. í þessu skyni.

Hin brtt. mín er við eina af brtt. fjvn. Hún er um að hækka um 2500 kr. það, sem hv. n. hefir áætlað, að verði veitt til viðgerðar á kvennaskólanum í Rvík, þannig að veittar verði alls 5000 kr., eins og farið er fram á í erindi skólanefndar. Auðvitað er það viðurkenningarvert, að hv. n. hefir að hálfu leyti orðið við umsókn skólan., en sá er gallinn, að þegar er búið að verja á 5. þús. kr. í þessu skyni. Það var sótt um þessa fjárhæð til síðasta þings. Aðgerðin var þá svo aðkallandi, að það varð að byrja á henni, og var varið til hennar kr. 4053.94. Það er mjög erfitt fyrir skólann að geta ekki fengið þann kostnað uppborinn, því að fjárhagur skólans hefir mjög þrengzt síðan Alþ. dró úr árlegum styrk til hans. Það var lengi, að veitt var sú fjárhæð, sem skólan. reiknaðist hinn árlegi kostnaður vera. Það var óhætt að því leyti, að skólinn hefir alltaf verið rekinn mjög gætilega fjárhagslega séð. Það hafa verið notaðir tímakennarar, sem eru mjög ódýrir, samanborið við fasta kennara. Um tíma var svo veitt sú upphæð, sem þurfti til þess að skólinn bæri sig. Fyrir 5 árum var tillagið lækkað, og það varð til þess, að halli kom á reksturinn, og við það hefir gengið á eigur, sem skólinn átti, úr 25 þús. kr. niður í liðlega 9500 kr., og er fyrirsjáanlegt, að ef viðhaldskostnaður mæðir mjög á skólanum auk rekstrarhallans, verður hann að fá meira fé. Það hefir nokkuð verið um það rætt, að breyta ætti skólanum í húsmæðraskóla, og ég hefi þá trú, að það, að dregið hefir verið úr rekstrarstyrknum, stafi af því, að menn hafa verið með þessa hugmynd um að breyta skólanum. Ég skal ekki hafa á móti því, að hér komi stór og myndarlegur húsmæðraskóli. En hvað á þá að gera við þá nemendur, sem vilja ganga í kvennaskólann eins og hann er nú? Er nokkursstaðar pláss fyrir 100 stúlkur með mikið nám? Kvennaskólinn er fullkominn gagnfræðaskóli. Það má ef til vill loka honum og breyta honum í húsmæðraskóla, en þá vantar pláss fyrir nemendurna í gagnfræðaskóla. Og þó að ég sé ekki mótfallinn samskólum, verð ég að segja, að mér finnst mjög gott, að líka sé til skóli fyrir stúlkur einar. Það verður að vera til í landinu einn slíkur skóli. Ég nefni þetta aðeins, af því að mig grunar, að eitthvað af andstöðunni gegn því, að kvennaskólinn fái fullan styrk, stafi af þeirri hugmynd, að breyta honum í húsmæðraskóla. Ég vil mæla með því, að till. verði samþ. og skólinn fái þær 5000 kr., sem hann hefir sótt um, því að það hefir verið föst regla, að skólan. hefir ekki farið fram á að fá hærri fjárhæð en bráðnauðsynlegt hefir verið.