18.12.1937
Sameinað þing: 16. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 137 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

1. mál, fjárlög 1938

*Árni Jónsson:

Ég á hér eina litla brtt. á þskj. 437, um að hækka styrkinn til Íþróttasambands Íslands úr 8000 kr., eins og hv. fjvn. leggur til, upp í 10000 kr. Ég ætla að leyfa mér að mæla örfá orð dyrir þessari till. Erindi um þetta hefir legið fyrir hv. fjvn., og ég hefi verið beðinn af þeim mönnum, sem sendu þetta erindi til hv. n., að tjá henni þakkir fyrir þær undirtektir, sem það fékk, þar sem styrkurinn var hækkaður úr 5000 kr. upp í 8000 kr., en þó að þetta hafi verið góðar undirtektir af n. hálfu, þá er það svo, að þessar 8000 kr. nægja engan veginn til þess að íþróttasambandið geti innt af höndum það fjölbreytta hlutverk, sem því er ætlað, og þess vegna fara þessir menn fram á, að þeir fái þessar 10000 kr., sem þeir upphaflega báðu um. Ég verð að segja, að mér finnst eiginlega, þegar litið er á það, hvers krafizt er ef þessari stofnun, þessi upphæð satt að segja ekki há, heldur furðulega lág. Ég vil leyfa mér að vekja athygli Alþ. á því, að ósk um aukinn styrk til Íþróttasambands Íslands er fyrst og fremst komin utan af landi. Á síðasta sumri komu fram einróma og háværar raddir frá íþróttafélögum víðsvegar af landinu um nauðsynina á auknu fé vegna íþróttastarfseminnar, og þessir menn kvörtuðu yfir því neyðarástandi, sem víðast ríkti í þessu efni, þar sem íþróttafélögin eru févana og skortir nauðsynlegar leiðbeiningar og kennslu í ýmsum íþróttagreinum. Að loknum umr. á þessum síðasta aðalfundi Í. S. Í. var kosin 7 manna nefnd í málið, og í þessa nefnd völdust formenn úr 7 íþróttafélögum í Reykjavík, og þessir menn hafa síðan haldið málinu vakandi og snúið sér svo til Alþ. með þetta erindi, sem ég minntist á áðan. Mér þykir nú rétt að gera stuttlega grein fyrir, til hvers á að verja þessum 10000 kr., sem hér er farið fram á. Það er talið nauðsynlegt að hafa fastan mann, sem ferðast til hinna ýmsu íþróttafélaga landsins, safnar skýrslum um starfsemi og ástand félaganna á hverjum tíma og gefur um leið nauðsynlegar leiðbeiningar í íþróttamálum. Þá er í öðru lagi hugsunin að halda námskeið t. d. í Reykjavík, og raunar víðar um landið, undir leiðsögu duglegra, erlendra kennara, t. d. í útiíþróttum, eins og sundi, fimleikum og knattspyrnu, og þar að auki ættu að vera kenndar reglur fyrir keppni í þessum íþróttum, svo að þátttakendur námskeiðanna væru færir um að leiðbeina og dæma í þessum íþróttagreinum. Það er ætlunin, að mikil áherzla verði lögð á, að sem flest íþróttafélög utan af landi gætu sent íþróttakennara á námskeið, og í þessu sambandi er sérstaklega nauðsynlegt að fá umrædda styrkhækkun. Á námskeiðunum yrðu fluttir fyrirlestrar um íþróttamál almennt, heilsufræði og einnig sýndar kennslukvikmyndir, en þær eru þegar fyrir hendi í ýmsum íþróttagreinum, og yrði samfara því, sem kvikmyndirnar væru sýndar, gefnar leiðbeiningar um rekstur íþróttastarfseminnar almennt. Loks vil ég geta þess, að þessi fjárveiting snýr ekki sízt að skíðaíþróttinni, en hollusta hennar hefir nú hlotið almenna viðurkenningu hér. Það vakir fyrir íþróttamönnum að koma sem allra fyrst upp námskeiðum í skíðaíþrótt upp til sveita, og það er, eins og nú standa sakir, gott útlit fyrir, að hægt verði að fá hæfa og góða kennara í þessari grein, þar sem vitað er um a. m. k. tvo menn, sem eru erlendis til þess að fullkomna sig í því að kenna þessa íþrótt, en það er þeir Tryggvi Þorsteinsson frá Ísafirði og Gísli Steingrímsson frá Húsavík. Auk þess eru þrír menn úr Reykjavík á skíðanámskeiði í Noregi. Þá má einnig benda á, að sundnámskeið upp til sveita með góðum kennurum eru mjög nauðsynleg. Þegar á allt þetta er litið, þá skilja menn, að það er ekki til sérstaklega mikils mælzt, þó að farið sé fram á þessa fjárveitingu, sem hér er um að ræða.

Ég vil svo að endingu taka það fram, að allar þjóðir keppast nú um að efla íþróttalífið hjá sér sem allra mest. Ég ætla ekki að halda hér neinn íþróttafyrirlestur, því að sannleikurinn er sá, að þótt fjárveitingin sé ekki meiri en það, sem hv. fjvn. hefir lagt til, þá er það vitanlega ekki vegna þess, að ekki sé fyrir hendi full viðurkenning á gildi íþróttanna, heldur vegna þess, hvað fjárhagur okkar er þröngur. En þó að ég sé fús til þess að viðurkenna, að það verði að fara sparlega með fé ríkisins, eins og sakir standa þá treysti ég því þó, að hv. þm. séu mér sammála um, að 2000 kr. til eða frá, þegar um slíka stofnun er að ræða, muni ríkissjóð svo litlu, að þeir geti með sæmilega góðri samvizku greitt atkv. með þessari lítilfjörlegu hækkun á útgjöldum, sem hér er farið fram á.