09.12.1937
Neðri deild: 45. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (817)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

*Frsm. minni hl. (Pétur Ottesen):

Ég ætla, að það hafi verið hv. 1. þm. Rang., sem hafði orð á því, að okkur í minni hl. landbn., flm. brtt. á þskj. 296, hefði ekki farizt fimlega að mæla fyrir þeim brtt., og vildi hann færa það út á þann veg, að málstaðurinn væri svo illur og bölvaður, að betra væri ekki að vænta. En ég verð að segja það, að hafi okkur farizt þetta ófimlega, þá fórst honum samt enn verr, er hann ætlaði að fara að gagnrýna brtt. okkar, og sömuleiðis hv. þm. Mýr., þó viðleitni hans væri að vissu leyti dálítið önnur, sem byggist á mjög svo ólíkri skapgerð þessara manna og allri framkomu.

Sem gagnrýni á 1. brtt. okkar talaði hv. þm. Rang. um, að framleiðendum þætti náttúrlega sinni greiðslugetu ofboðið. Í þessari brtt. felst nú ekki annað en að það er mjólkursölunefnd, sem á að ákveða verðjöfnunargjaldið, að það er hún, sem á að hafa hliðsjón af því, þegar hún framkvæmir verkið, að greiðslugetu þessara manna sé ekki ofboðið með þeim hækkunum á verðjöfnunargjaldi, sem kynni að leiða af því nýja skipulagi. Þetta hálmstrá, sem hv. þm. grípur þarna til, sýnir ljóslega, í hverjum neyðarvandræðum hann er þegar hann ætlar að finna meinbugi og ágalla á brtt. okkar. Og því fremur ætti mjólkursölunefnd að geta framkvæmt þetta eða farið nærri um það, þar sem ráð er fyrir gert, að Búnaðarfélagið leggi henni nokkurt lið í þessu efni, sem sé allsherjarstofnun bænda í þessu landi, sem hefir það að hlutverki að kynna sér sem bezt þeirra hag. Annað dæmi sýnir það, hversu þröngt er fyrir dyrum hjá þessum mönnum um gagnrýni á þessum till. okkar, þegar hv. þm. Mýr. var að tala um kjarnfóðursskattinn. Þar fór hann að tala um, hvað óskaplegt ranglæti gæti af þessu hlotizt gagnvart þeim, sem við sauðfjárframleiðslu fást og keyptu kjarnfóður handa sauðfé. Það er ljóst, að samkv. þessari till. er það nær eingöngu innflutt kjarnfóður, sem innflutningsgjald þetta nær til. Þess vegna verður þetta ranglæti ekki til, sem hv. þm. var að tala um; það á engan grundvöll í till. Það er alkunnugt, að um innflutningsgjald er eingöngu talað af innfluttum vörum, en það er ekki talað um innflutningsgjald af vörum, sem fluttar eru milli hafna innanlands. Ég vildi aðeins henda á þetta, hvað það nú er, sem þessir hv. þdm. grípa til, þegar þeir eru að reyna að finna höggstað á þessum till. Ég þarf náttúrlega ekki að fara út í það, sem hv. 1. þm. Rang. var að breiða sig yfir út af verðhækkuninni, sem leiddi af þurrmjólkurvinnslunni og blöndun mjólkur í brauð. Með upphrópun yfir allt andlitið var hann eitthvað að tala um skarplega hugsun í þessu efni. Það eru vitanlega svo skiljanlegir hlutir, sem í till. felast, að mér dettur ekki í hug að eiga orðastað við hv. þm. um þá; það getur enginn misskilið hana, þó að þessi hv. þm. gripi til þess sem örþrifaráðs.

Þá var hv. 1. þm. Rang. að tala um stj. á framkvæmd mjólkursölunnar. Hann hélt, að úr þessu gæti orðið hinn argasti óskapnaður, af því að það var talað um framleiðendafélög samhliða mjólkurbúunum. Eins og sakir standa nú, eru það mjólkurbúin ein, sem koma til greina um að skipa menn. Ég er nú ekki viss um að hugur fylgi máli hjá hv. þm., að hann vildi styðja brtt. um það, að framleiðendur fengju þessar framkvæmdir í sínar hendur, þá skyldi ég undir eins bjóða honum að taka orðið „framleiðendur“ úr þessari till. og láta standa „mjólkurbú“. En ég veit, að hv. þm. mundi ekki greiða slíkri till. atkv. Hann vill nú fá að halda þeirri aðstöðu, sem hann hefir haft undanfarið, nefnilega að vera formaður þeirrar stofnunar, sem hefir mjólkursöluna með höndum, og þjóna sinni lund þar áfram á líkan hátt og hann hefir gert undanfarið.

Hv. þm. var eitthvað að tala um, að þessar till. okkar mundu vinna þessu máli tjón. Það er nú siður en svo. Fyrsta till. miðar að því að fyrirbyggja þá hættu, að einstök byggðarlög gætu beðið við það hnekki, þann, sem hv. þm. Mýr. meðfl. hans að þessu frv., hefir talað um að þyrfti að gera alveg sérstakar ráðstafanir til þess að bæta aftur. Fyrsta till. miðar nú eingöngu að þessu. En hitt tel ég vist, að hv. 1. þm. Rang., sem vili nú „skalta og valta“ með þetta allt eftir eigin vild, eftir því sem andinn blæs honum í brjóst á hverjum tíma, hann vill náttúrlega ekki, að sér verði settar neinar hömlur um framkvæmdir í þessu efni, eða á þann geðþótta, sem hans framkvæmdir annars stjórnast af á hverjum tíma. Það er bara þetta í till. sem hann er á móti, þótt hann láti það ekki koma beint fram og sé að leita að öðrum ástæðum. sem ekki er hægt að draga út úr till.

Ég skal ekki fara mörgum fleiri orðum um þetta mál; það mun sennilega ekki hafa mikla þýðingu. En ég vil aðeins bæta því við, að það mun sýna sig við síðari reynslu, ef till. við þetta frv. frá meiri hl. landbn. verða felldar og frv. samþ. eins og það liggur fyrir, að það var ekki happaspor stigið í Alþingi, þegar það var gert, og að það var ekki gert af umhyggju fyrir hagsmunum bænda og framleiðenda. Og mér er kunnugt, að ýmsir framsóknarmenn, og þar á meðal þeir, sem fluttu málið á þingi fyrst, — t. d. hv. 1. þm. Árn. — hafa einmitt talað um, að það mundi verða nauðsynlegt að afla verðjöfnunarsjóði tekna með einhverju öðru móti heldur en gert er með verðjöfnunargjaldinu eingöngu. Ég er ekki í vafa um að sá kostur, sem menn eiga að búa þar við, getur orðið ærið þröngur, að jafna alltaf verðinu niður á við.

Það hefir í þessum umr. verið talað um þjóðlygar. Það hefir verið talað um eina þjóðlygi, það hefir verið talað um tvær þjóðlygar, og ég held, að talan hafi verið komin upp í þrjár. Og mig minnir, að það féllu einhvern veginn orð á þá leið. að hv. 1. þm. Rang. væri kannske höfundur að þriðju þjóðlyginni. Ef ekki, þá hefði hann a. m. k. sýnt alla viðleitni á að koma henni á framfæri, og er það kannske nokkuð það sama. Og ég skal bæta því við, að þegar þetta var sagt, þá ljómaði andlitið á hv. 1. þm. Rang. og varð eitt bros. — svo mikið fannst honum um það að hafa átt þessa hlutdeild í þessari þriðju þjóðlygi. Mér verður á að bera þetta saman við það, þegar hann í sínum prestskrúða með uppréttar hendur blessar yfir söfnuð sinn þar austur frá og prédikar það yfir þeim, að „það er sannleikurinn sem gerir yður frjálsa“. Ég verð að segja í sambandi við þetta tvennt, að það fer náttúrlega öllum illa að þykja sómi að skömmunum. en verst fer það þeim, sem falið er það hlutverk að vera meðalgöngumenn milli guðs og manna.