14.12.1937
Efri deild: 49. fundur, 52. löggjafarþing.
Sjá dálk 556 í B-deild Alþingistíðinda. (828)

104. mál, mjólkursala og rjóma o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Frv. þetta hefir legið fyrir landbn., en þegar fundur var haldinn um það, voru ekki allir nm. á fundi. Við sem á fundinum vorum, ég og hv. 6. landsk., vorum ekki að öllu leyti sammála um það. Ég vildi leggja til, að frv. væri samþ. óbreytt, en hann vildi gera á því nokkrar breytingar.

Þetta mál er svo margrætt, að óþarft er að hafa langa framsöguræðu. Aðalbreytingar, sem í frv. felast frá núgildandi l., eru þær, að í stað þess, að verðjöfnunargjald af mjólk mátti ekki fara upp fyrir vissa prósenttölu af verðinu, er það nú óákveðið hér og ætlazt til, að það fari eftir þörfum, svo að mjólkin verði til bænda með sama verði, að frádregnum ýmsum liðum, sem fram eru teknir í löggjöfinni. Það er fyrst og fremst mjólk, sem framleidd er á haustmánuðunum, þegar mjólk er minnst; hana má selja einum eyri hærra, og menn, sem búa nálægt bænum, mega einnig selja sína mjólk einum eyri hærra en aðrir. Með þessum og nokkrum öðrum undantekningum er mjólkin greidd með sama verði yfir allt verðjöfnunarsvæðið, nema hvað gerður er munur á kostnaði, sem leiðir af dýrum flutningum.

Það sýndi sig með ákvæði fyrri l. um tekjur verðjöfnunarsjóðs, að þær nægðu ekki til að ná tilætlaðri verðjöfnun, og því er gripið til þess að breyta l.

Mönnum er mál þetta svo kunnugt, að ekki er ástæða til að fara um það fleiri orðum, og um brtt. mun ég ekki tala fyrr en flm. þeirra hafa gert grein fyrir þeim.